Greenwood eftirsóttur - Isak til PSG? - Chelsea vill gera skiptidíl við Inter
   lau 21. september 2024 20:48
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Dramatísk endurkoma hjá Parma
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Lecce 2 - 2 Parma
1-0 Patrick Dorgu ('32)
2-0 Nikola Krstovic ('59)
2-1 Pontus Almqvist ('93)
2-2 Antoine Hainaut ('96)
Rautt spjald: Frederic Guilbert, Lecce ('47)
Rautt spjald: Matteo Cancellieri, Parma ('57)

Ótrúlegum leik var að ljúka í efstu deild ítalska boltans, þar sem hinn bráðefnilegi Patrick Dorgu skoraði fyrsta mark leiksins á 32. mínútu. Dorgu skoraði laglegt mark eftir að hafa sloppið innfyrir varnarlínuna, en þessi leikmaður var meðal annars orðaður við Tottenham og Chelsea í sumar.

Lecce var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og verðskuldaði að taka forystuna, en Parma tók stjórn á leiknum í síðari hálfleik. Það hjálpaði þegar Frederic Guilbert, fyrrum leikmaður Aston Villa, fékk að líta beint rautt spjald fyrir ljótt brot í upphafi síðari hálfleiks.

Tíu leikmenn Lecce voru þó marki yfir og slapp Dorgu aftur í gegn á 57. mínútu. Hann komst þó ekki í skotfæri þar sem Matteo Cancellieri var búinn að bakka niður í vörnina til að strauja hann sem aftasti varnarmaður.

Dómari leiksins dæmdi beint rautt spjald á Cancellieri og aukaspyrnu, sem Nikola Krstovic skoraði úr. Krstovic tók bylmingsfast skot sem fór af varnarmanni og í netið.

Tíu leikmenn voru eftir í hvoru liði og virtust heimamenn í Lecce ætla að sigla sigrinum í höfn, allt þar til seint í uppbótartíma. Svíinn Pontus Almqvist minnkaði muninn á 93. mínútu en fagnaði ekki gegn sínum gömlu liðsfélögum.

Þremur mínútum síðar skallaði Antoine Hainaut fyrirgjöf frá Anas Mohamed í netið til að jafna metin á dramatískan hátt með síðustu snertingu leiksins.

Lokatölur urðu því 2-2 og eru bæði lið komin með fimm stig eftir fimm fyrstu umferðirnar á deildartímabilinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner