Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   fim 22. ágúst 2024 13:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Það hefur ekkert lið farið í gegnum þetta áður"
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er nóg að gera hjá Víkingum um þessar mundir.
Það er nóg að gera hjá Víkingum um þessar mundir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Á endanum er það mitt höfuð sem er undir ef hlutirnir ganga ekki upp. Ég finn alveg fyrir pressunni en við sjáum hvernig þetta endar að leikslokum, hvort ákvarðanir verði réttar eða rangar'
'Á endanum er það mitt höfuð sem er undir ef hlutirnir ganga ekki upp. Ég finn alveg fyrir pressunni en við sjáum hvernig þetta endar að leikslokum, hvort ákvarðanir verði réttar eða rangar'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur spilar í kvöld fyrri leik sinn gegn Santa Coloma frá Andorra í umspilinu í Sambandsdeildinni. Sigurliðið í þessu einvígi fer áfram í aðalkeppnina.

Víkingur á í raun möguleika á því að eiga sögulegt tímabil því liðið er á toppnum í Bestu deild karla, í úrslitaleik Mjólkurbikarsins og í möguleika á því að komast í aðalkeppni Sambandsdeildarinnar. Ef allt gengur upp, þá verður þetta mögulega besta tímabil sem íslenskt félagslið hefur átt.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, var spurður að því í viðtali í gær hvernig væri að hafa hausinn á svona mörgum stöðum; þar sem liðið er í baráttu um tvo titla og í Evrópukeppni. Víkingar töpuðu síðasta deildarleik sínum gegn ÍA og titilbaráttan við Breiðablik er orðin afskaplega hörð.

„Þetta er erfitt að því leyti að það hefur ekkert (íslenskt) lið farið í gegnum þetta áður. Þvílík virðing á Blikana, og enn meiri núna, fyrir að hafa komist í riðlakeppnina en á sama tíma í fyrra voru þeir einfaldlega úr leik í Íslandsmótinu og í bikarnum," sagði Arnar en Breiðablik varð fyrst íslenskra karlaliða til að komast í riðlakeppni í Evrópu í fyrra.

„Ég er ekki að drulla yfir einn eða neinn, bara staðreyndir. Við erum á ákveðnum tímamótum með það hvernig eigi að gera hlutina, hvernig á að stilla liðinu upp og hvernig eigi að hvíla og rótera. Það er fullt af fólki innan félagsins sem kemur að þeim ákvörðunum en á endanum er þetta mín ábyrgð. Á endanum er það mitt höfuð sem er undir ef hlutirnir ganga ekki upp. Ég finn alveg fyrir pressunni en við sjáum hvernig þetta endar að leikslokum, hvort ákvarðanir verði réttar eða rangar."

Það hjálpar svo mikið
Eins og áður segir þá tapaði Víkingur síðasta deildarleik sínum gegn ÍA og sagði Arnar lið Skagamanna hafa átt þann sigur fullkomlega skilið.

Næsti leikur Víkings átti að vera gegn KR á milli leikjanna gegn Santa Coloma en þeim leik var frestað. „Ég er gríðarlega ánægður að fá frestunina, það hjálpar svo mikið," segir Arnar.

Á sama tíma í fyrra stóð Breiðablik í ströngu í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Liðið var þá í einvígi við norður-makedónska liðið Struga um sæti í Sambandsdeildinni. Þá vildi Breiðablik fá leik gegn Víkingi frestað en fékk það ekki í gegn.

„Umræðan í kringum þessa frestun og þetta í fyrra... ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því að við reyndum hvað við gátum til að hjálpa Blikum í að verða við þeirri beiðni en það var ekki hægt. Það var mjög einföld ástæða fyrir því; eini mögulegi leikdagurinn á þeim tímapunkti var í landsleikjaglugga og við vorum með of marga landsliðsmenn í þeim verkefnum. Þetta var alltaf sett upp eins og það hefði verið okkur að kenna og við vildum ekki eitthvað, sem var bara kolrangt," segir Arnar.

„Núna er KR ekki í sömu stöðu og við í fyrra. Það var vel hægt að finna dagsetningu fyrir þessa frestun og þá er það bara skylda KSÍ og liðanna að taka þátt í þessu," bætti hann við að lokum.

Leikur Víkinga og Santa Coloma hefst klukkan 18:00 og er auðvitað í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner