Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   fös 23. febrúar 2024 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Nagelsmann um Bayern: Klopp fékk fimm ár hjá Liverpool
Mynd: EPA
Julian Nagelsmann svaraði spurningum frá Der Spiegel um FC Bayern og dvöl sína hjá félaginu.

Nagelsmann var ráðinn til Bayern á fimm ára samningi sumarið 2021 en entist tæplega tvö ár í starfinu. Hann var rekinn í miðri skíðaferð í mars í fyrra eftir að Bayern hafði tapað niður níu stiga forystu í titilbaráttunni.

Thomas Tuchel var ráðinn í hans stað með samning til sumarsins 2025, en á dögunum var tilkynnt að hann myndi hætta með liðið næsta sumar eða heilu ári fyrir samningslok. Bayern er í öðru sæti þýsku deildarinnar sem stendur, átta stigum á eftir toppliði Bayer Leverkusen.

„Ég var rekinn útaf því að við misstum niður níu stiga forystu í titilbaráttunni og Thomas Tuchel var laus. Það er einfalt," sagði Nagelsmann.

„Ég var ráðinn til Bayern með það sem markmið að breyta hlutum hjá félaginu. Það eru félög sem gefa manni tíma til þess, Jürgen Klopp fékk fimm ár hjá Liverpool áður en hann vann úrvalsdeildartitilinn í fyrsta skiptið. Það tók Pep Guardiola sjö ár að vinna Meistaradeildina með Manchester City. Þjálfararnir hjá Bayern fá ekki þennan tíma til að skapa eitthvað."

Í fjölmiðlum var Nagelsmann sakaður um að vera ekki nógu mikið til staðar fyrir leikmannahópinn sinn áður en hann var rekinn, en hann segir það vera vitleysu. Hann fór í stutta skíðaferð, tæplega tveggja daga ferð sem var samþykkt af stjórn félagsins, áður en hann var rekinn.

„Það sem mér finnst verst við þetta allt saman er óheiðarleikinn. Ég vil bara að stjórnin sé heiðarleg við mig og segi mér þegar það er kominn tími á nýjan þjálfara. Ég get tekið því. Það ríkir mikill óheiðarleiki í fótboltaheiminum, þannig hefur það alltaf verið og mun vera næstu 30 árin."
Athugasemdir
banner
banner
banner