Bjarki Steinn Bjarkason var á skotskónum í sigri Venezia í ítölsku B deildinni í gær.
Bjarki byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður eftir klukkutíma leik og innsiglaði 2-0 sigur liðsins þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.
Mikael Egill Ellertsson spilaði 80 mínútur í leiknum. Venezia er í öðru sæti deildarinnar með 51 stig, fimm stigum á eftir toppliði Parma.
Hjörtur Hermannsson var ekki í leikmannahópi Pisa sem gerði 2-2 jafntefli gegn Modena á heimavelli. Pisa er í 14. sæti deildarinnar með 31 stig.
Guðmundur Þórarinsson sat allan tímann á varamannabekknum þegar OFI Crete tapaði 3-1 gegn Volos í grísku deildinni. Samúel Kári Friðjónsson var ekki í leikmannahópi Atromitos sem vann 3-1 sigur á Lamia og Ögmundur Kristjánsson var ekki í leikmannahópi Kifisia í 3-3 jafntefli gegn Asteras Tripolis.
Atromitos er í 8. sæti með 27 stig. Crete er í 9. sæti með 24 stig en Kilfisia er í 13. og næst neðsta sæti með 18 stig.