Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   fim 01. september 2016 13:35
Magnús Már Einarsson
Harpa Þorsteins ólétt - EM í óvissu
Harpa í leiknum í gær.
Harpa í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Harpa með boltann í gærkvöldi.
Harpa með boltann í gærkvöldi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Harpa Þorsteinsdóttir, sóknarmaður Stjörnunnar og íslenska landsliðsins, er ólétt. Harpa er komin 13 vikur á leið og óvíst er hvort hún spili meira með Stjörnunni í sumar.

Harpa spilaði í 2-1 tapi Stjörnunnar gegn Val í Pepsi-deildinni í gær en möguleiki er á að það hafi verið síðasti leikur hennar í bili.

„Ég er þreytt eftir leikinn í gær en kannski verð ég ferskari eftir helgina. Ég ætla aðeins að meta þetta en þetta er að renna undir það síðasta," sagði Harpa við Fótbolta.net í dag en hún er markahæst í Pepsi-deild kvenna í sumar með 18 mörk.

„Ég viðurkenni alveg að það hefur dregið af mér í síðustu lekjum. Ég hef ekki verið í eins góðu formi og ég á að vera. Ég held að ég hafi samt verið ágætlega skynsöm þannig að þetta hefur ekki bitnað á mér og liðinu. Valsleikurinn var hörkuleikur í gær og ég get ekki spilað marga svona leiki í viðbót."

Stjarnan er á toppnum í Pepsi-deildinni, fjórum stigum á undan Val og fimm stigum á undan Breiðabliki sem á leik inni í kvöld. Tapið í gær þýðir að titilbaráttan er opin fyrir síðustu fjórar umferðirnar. Harpa segir erfitt að þurfa að hætta að spila þegar titilbaráttan stendur sem hæst.

„Ég hefði glöð gengið frá borði ef við hefðum unnið leikinn í gær en það þýðir ekkert að dvelja við það. Ég þarf að vera skynsöm í því sem ég geri næst, hvort sem ég spila eða ekki," sagði Harpa.

Útilokar ekki EM
Harpa á von á sér í byrjun mars á næsta ári. Ísland hefur leik á EM í Hollandi þann 16. júlí og óvíst er hvort Harpa verði með þar eftir barnsburðinn.

„Þetta verður erfitt en það er ekkert ómögulegt fyrr en það er fullreynt. Ég er passlega róleg yfir þessu. Þetta fer eftir því hvernig allt gengur, meðgangan, fæðingin og líka hvernig krakkinn hagar sér," sagði Harpa og hló.

Harpa er að eignast sitt annað barn og hún þekkir því að byrja aftur í fótbolta eftir barnsburð. „Þá átti ég í lok apríl og spilaði fyrsta leikinn í lok júlí í Pepsi-deildinni," sagði Harpa sem vill ekki útiloka EM strax.

„Ég vil ekki ákveða strax að ég fari ekki á EM en ef við erum raunsæ þá er það mjög langsótt. Þetta er mjög stuttur tími og það eru margar stelpur að spila vel svo það það er ekkert gefið að ég verði landsliðsfær þó að ég verði eitthvað byrjuð að spila fótbolta," sagði Harpa.
Athugasemdir
banner
banner