
„Ég er frekar svekkt að hafa tapað, en þær áttu skilið að fá þessi þrjú stig. Þær áttu mjög góðan leik," sagði Hildur Antonsdóttir, miðjumaður Íslands, eftir 3-1 tap gegn Þýskalandi í undankeppni EM 2025 í kvöld.
Lestu um leikinn: Þýskaland 3 - 1 Ísland
„Þetta er bara lærdómur og við tökum þetta með okkur í næsta glugga. Ef þú átt að tapa einhverjum leik í þessum riðli þá er það útileikurinn gegn Þýskalandi."
Það breytti leiknum þegar Sveindís Jane Jónsdóttir, lykilmaður Íslands, meiddist illa í fyrri hálfleik.
„Það kemur maður í manns stað en við missum hraðann hennar og löngu innköstin í þokkabót. Mér fannst þetta ljótt brot og þær taka hana úr leiknum. Þetta var dirty bara," sagði Hildur.
„Við héldum áfram að reyna að byggja upp, fá boltann upp á sóknarmanninn og halda honum. Þegar við náðum því þá sköpuðum við færi."
Það eru tveir leikir gegn Austurríki í næsta glugga og það verða rosalega stórir leikir. „Maður er pirraður yfir þessum leik en svo fer einbeitingin á þá leiki sem eru mjög mikilvægur. Þegar þú lítur yfir gluggann heilt yfir þá spilum við mjög vel gegn Póllandi og höldum hreinu hér í seinni hálfleik. Við getum tekið margt með okkur úr þessum glugga. Við erum alltaf að taka eitt skref fram á við, þó það hafi verið lítið skref í dag."
Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir