Rætt var um rauða spjaldið sem Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, fékk á móti FH í Innkastinu. Arnar fékk rautt spjald í fyrri hálfleik og sagði í viðtali á Stöð 2 Sport að hann hefði kallað dómarana jólasveina - og mögulega helvítis jólasveina.
Valur Gunnarsson, fyrrum markvarðaþjálfari Leiknis, var með sterkar skoðanir á hegðun Arnars.
Valur Gunnarsson, fyrrum markvarðaþjálfari Leiknis, var með sterkar skoðanir á hegðun Arnars.
„Þetta er í offorsi, þetta er þvílík móðgun að vera kalla einhvern helvítis jólasvein. Ég er orðinn rosalega þreyttur á því að vera á Víkingsleik og í hvert einasta skiptið sem flautað er á Víkinga þá eru þrír menn mættir í andlitið á fjórða dómara. Mér finnst eins og það sé ekki tilviljun að eftir hvern einasta Víkingsleik sé einhver kergja á milli þjálfarana, þetta er yfirgangur og að mínu mati á Arnar að nota þetta og aðeins að núllstilla sig á bekknum. Ég er búinn að fara á þónokkra Víkingsleiki og mér finnst þeir alltaf vera í fjórða dómaranum - ekki einu þjálfararnir í deildinni - en mér finnst þeir alltaf vera að því. Þetta rauða spjald kom mér ekki á óvart. Ég skal viðurkenna það, ég hef mikið álit á Arnari, en ég klappaði þegar hann fékk rauða spjaldið," sagði Valur.
„Ég hefði óskað þess að þú hefðir verið á sömu skoðun þegar þið Freysi og Davíð voruð saman með Leikni... það var aðeins annað hljóð í þér þá," skaut Tómas Þór á Val.
„Ég vissi að þú myndir koma með þetta. Ég horfði í eigin barm og ég fékk ekki rautt síðustu tvö tímabilin held ég... allavega ekki síðasta," svaraði Valur sem á að baki þrjú rauð spjöld og eitt gult sem þjálfari.
Tómas, stuðningsmaður Víkings, tók svo undir með Val. „Þetta er orðið rosa mikið, aðrir þjálfarar eru að tala um þetta. Þetta er einhvers konar leið til þess að stýra því sem er að gerast inn á vellinum," sagði Tómas.
Skrítið að það sé löglegt
„En svo er annað, Arnar fær rautt spjald og fer upp í stúku. Hann gat verið með beint samband við leikgreinanda. Þjálfarinn fær því rautt spjald og er svo í betri aðstöðu til að sjá leikinn. Mér finnst svo skrítið að þetta sé löglegt, þú ert útilokaður frá leiknum," sagði Valur.
Lét einhver „skemmtileg" orð falla
Þetta hafði Arnar að segja um rauða spjaldið í viðtali við Fótbolta.net.
„Mér fannst frá mínum bæjardyrum séð og mínu sjónarhorni þetta vera víti og þetta var ekki víti en eldfjallið var byrjað að gjósa og það var erfitt að stoppa það og svo fær Cardaklija spjald og ég læt einhver skemmtileg orð falla þarna við aðstoðardómarann og fyrir það fæ ég beint rautt."
Hægt er að hlusta á umræðuna um rauða spjaldið eftir um 10 mínútur af þættinum hér fyrir neðan. Arnar verður í leikbanni í næsta leik Víkings.
Athugasemdir