Barcelona hefur ekki efni á að kaupa Nico Williams frá Athletic Bilbao í sumar eftir kaup á Dani Olmo, miðjumanni spænska landsliðsins og RB Leipzig.
Börsungar eru því að skoða aðra kantmenn til að bæta við leikmannahópinn sinn fyrir næstu leiktíð og er Kingsley Coman ofarlega á óskalistanum.
Coman er 28 ára gamall og er ekki í áformum Vincent Kompany, nýráðins þjálfara Bayern, fyrir næstu leiktíð.
Hann á þrjú ár eftir af samningi við Bayern og hefur meðal annars verið orðaður við Arsenal í sumar. Bayern er talið vera reiðubúið til að hleypa honum burt á láni með kaupmöguleika.
Helsta vandamálið snýr að háum launum Coman hjá Bayern en Hansi Flick, nýr þjálfari Barcelona og fyrrum þjálfari Bayern, hefur miklar mætur á leikmanninum.
Coman kom að 8 mörkum í 27 leikjum með Bayern á síðustu leiktíð en hann hefur í heildina spilað 294 leiki á 9 árum hjá félaginu.
Athugasemdir