mið 17.apr 2024 15:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá Fótbolta.net fyrir Bestu kvenna: 7. sæti
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að nýliðar Víkings Reykjavíkur muni enda í sjöunda sæti Bestu deildar kvenna í sumar. Álitsgjafar spá í deildina en þeir röðuðu liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær tíu stig, annað sæti níu og svo koll af kolli niður í tíunda sæti sem gefur eitt stig. Fólk hefur skiljanlega trú á Víkingi eftir sumarið sem þær áttu í fyrra.
Það verður spennandi að fylgjast með þessu liði í Bestu deildinni.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. Víkingur R., 45 stig
8. Tindastóll, 25 stig
9. Fylkir, 22 stig
10. Keflavík, 14 stig
Um liðið: Sumarið í fyrra var hreint út sagt ótrúlegt fyrir Víkinga. Þær byrjuðu á því að vinna B-deild Lengjubikarsins fyrir mót og unnu svo bæði Mjólkurbikarinn og Lengjudeildina. Víkingur varð þarna fyrsta liðið úr B-deild til vinna en Mjólkurbikarinn en þær lögðu Breiðablik eftirminnilega á sumarkvöldi í Laugardalnum. Víkingsliðið vakti skiljanlega mikla athygli enda árangurinn magnaður og það verður virkilega skemmtilegt að sjá þær í deild þeirra bestu í sumar. Stemningin í Víkinni virðist virkilega góð og þær verða eflaust erfiðar við að eiga.
Þjálfarinn: John Andrews tók við Víkingi haustið 2019 eftir að HK og Víkingur luku samstarfi sínu í meistaraflokki kvenna. Undir stjórn John hefur liðið eflst jafnt og þétt, og má segja að liðið hafi gjörsamlega sprungið út í fyrra. John er frá Írlandi en hann spilaði hér á landi með Aftureldingu. Hann hefur einnig þjálfað kvennalið Aftureldingar og Völsungs. Hann á auðvitað skilið mikið hrós fyrir það starf sem hann hefur unnið hjá Víkingi.
Fótbolti.net fær sérfræðingana Jón Stefán Jónsson og Lilju Dögg Valþórsdóttur til að rýna í styrkleika, veikleika og annað hjá liðunum sem spila í Bestu deildinni í sumar. Lilja, sem er fyrrum leikmaður KR, Vals og fleiri félaga fer yfir það helsta hjá Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Styrkleikar: Það er hamingja í vatninu í Víkinni sagði Selma Dögg fyrirliði eftir að liðið lagði ríkjandi Íslandsmeistara í leik meistaranna í gærkvöldi! Þessi hamingja og gleði skín í gegn og þær hafa skapað gríðarlega öfluga liðsheild. Ég held að fréttirnar á dögunum um óvænta brottför fyrirliðans frá síðasta ári muni mögulega bara þétta liðið enn meira. Svo virðast þær líka allar hafa þessa óbilandi trú á sér og sínu liði sem er aðdáunarvert að fylgjast með. Þessi trú í bland við sterka liðsheild þar sem allar eru tilbúnar að leggja allt að veði fyrir hverja aðra mun án efa vera einn þeirra helsti styrkleiki.
Veikleikar: Breiddin í hópnum er ekki sú mesta og liðið má kannski ekki við miklum skakkaföllum. John þarf mögulega að leggjast á bæn og lofa einhverju fögru í skiptum fyrir meiðslalaust tímabil. Víkingur er að spila sitt fyrsta tímabil í efstu deild síðan samstarfinu við HK var slitið eftir tímabilið 2019. Þarna hefur átt sér stað gríðarleg uppbygging sem félagið má vera stolt af. Þarna eru fjölmargar ungar og efnilegar stelpur að koma upp en félaginu hefur einnig tekist að fá til sín eldri og reyndari leikmenn í bland. Liðið kom svo öllum að óvörum og náði undraverðum árangri á síðasta ári. Ég held að allra augu séu á Víkingi núna og það geti orðið snúið að fylgja þessum árangri eftir. Nú þarf liðið að gíra sig upp í “úrslitaleik” í hverri viku en ekki bara einn og einn.
Lykilmenn: Selma Dögg Björgvinsdóttir er ein þeirra eldri og reyndari leikmanna sem kom til félagsins fyrir tímabilið í fyrra og átti frábært tímabil. Hún er leikmaður sem verður seint sakaður um að leggja sig ekki fram. Hún er óþreytandi og fylgin sér og fær nú það hlutverk að leiða liðið sem fyrirliði. Erna Guðrún Magnúsdóttir kom einnig til liðsins fyrir tímabilið í fyrra og steig varla feilspor í varnarleiknum. Þær Selma komu báðar frá FH og hafa því spilað saman í lengri tíma. Þær tengja því vel við hvora aðra og það verður dýrmætt að hafa þær í hrygg liðsins þar sem Erna leiðir varnarlínuna og Selma stýrir miðjunni. Sigdís Eva Bárðardóttir er ein þeirra gríðarlega efnilegu ungu leikmanna sem eru að koma upp hjá félaginu. Þrátt fyrir að vera bara á 18. aldursári þá sést það vart á spilamennsku hennar. Hún er tæknilega góð, samviskusöm og yfirveguð. Það mun mæða svolítið á henni í sóknarleik liðsins en hún mun pottþétt gera það með sóma.
Leikmaður sem á að fylgjast með: Það er erfitt að velja bara eina hér þar sem Víkingsliðið er ríkt af ungum og hæfileikaríkum stúlkum. Margar þeirra hafa verið að standa sig frábærlega með yngri landsliðunum okkar og það verður gaman að fylgjast með þeim öllum. En fyrst að ég þarf að velja bara eina þá ætla ég að nefna Freyju Stefánsdóttur hér sérstaklega. Kraftmikill og spennandi leikmaður þar á ferð og verður gaman að sjá hvernig hún tekst á við baráttuna í efstu deild.
Komnar:
Ruby Diodati frá Bandaríkjunum
Shaina Ashouri frá FH
Birta Guðlaugsdóttir frá Val
Gígja Valgerður Harðardóttir frá KR
Kristín Erla Ó. Johnson frá KR
Jóhanna Lind Stefánsdóttir frá FHL (var á láni)
Farnar:
Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir til Þýskalands
Nadía Atladóttir í Val
Dómur Lilju fyrir gluggann: Nadía var kannski óvæntasta stjarna síðasta fótboltasumars og varð einhvern veginn andlit Víkingsliðsins út á við. Það er því auðvitað ákveðið áfall að missa eina af sínum skærustu stjörnum nokkrum dögum fyrir mót og alveg spurning hvernig félagið ákveður að höndla það. En eðlilega hefur ekki verið fenginn annar sóknarmaður til liðsins á þessum nokkru dögum sem hafa liðið síðan hún fór. Annars er liðið að sækja sér þónokkra reynslu af leikjum í efstu deild og þá sérstaklega í varnarsinnaðri leikmönnum sem munu án efa styrkja varnarleik liðsins. Nokkuð góður gluggi þó að þessi uppákoma í síðustu viku hafi aðeins sett strik í reikninginn sem ég myndi segja að dragi þetta aðeins niður. Gef þeim 6,5.
Fyrstu fimm leikir Víkings:
22. apríl, Stjarnan - Víkingur R. (Samsungvöllurinn)
27. apríl, Víkingur R. - Fylkir (Víkingsvöllur)
2. maí, Valur - Víkingur R. (N1-völlurinn Hlíðarenda)
9. maí, Víkingur R. - Þór/KA (Víkingsvöllur)
15. maí, Þróttur R. - Víkingur R. (AVIS völlurinn)
Í besta og versta falli: Ég held að liðið hafi alla burði til að stríða hvaða liði sem er og ættu jafnvel að geta gert svipaða hluti og FH gerði í fyrra. Í versta falli enda þær í neðri hlutanum fyrir skiptingu en ég hef ekki teljandi áhyggjur af því að þær sogist í alvöru botnbaráttu samt.
Spámennirnir: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Elíza Gígja Ómarsdóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Hulda Mýrdal, Lilja Dögg Valþórsdóttir, Mist Rúnarsdóttir, Orri Rafn Sigurðarson, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson, Steinke.