Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   mán 27. maí 2024 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Martraðarbyrjun í Laugardalnum - „Verðum að horfast í augu við það"
Þróttur er á botninum í Bestu deild kvenna.
Þróttur er á botninum í Bestu deild kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þróttur er líka á botninum í Lengjudeild karla.
Þróttur er líka á botninum í Lengjudeild karla.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar.
Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ekki byrjar fótboltasumarið vel í Laugardalnum en bæði karla- og kvennalið félagsins eru á botninum í sínum deildum. Karlaliðið er með eitt stig eftir fjóra leiki í Lengjudeildinni á meðan kvennaliðið hefur tapað fimm í röð og er með eitt stig eftir sex leiki í Bestu deild kvenna.

„Við erum undir væntingum á báðum stöðum og þurfum að spýta í lófana til að snúa stöðunni við, en við höfum fulla trú á að við getum gert það. Við verðum að viðurkenna að við erum þar sem við erum og verðum að horfast í augu við það," segir Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, í samtali við Fótbolta.net. í dag.

Þróttur er ekki á þeim stað sem það ætlaði að vera með liðin sín áður en mótin hófust. Það eru hreinar línur.

„Við verðum að vinna inn á við, með leikmönnunnum okkar, þjálfurum og starfsliðinu öllu. Að snúa bökum saman og reyna að fá það út úr liðinum okkar sem við vitum að í þeim býr. Við teljum að við höfum ekki fengið það enn. Við þurfum að taka öll á því saman til að ná fram því besta. Hvort það verði einhverjar breytingar og þess háttar, það er ekki komið langt í umræðu og ekki tímabært. Það eru bara búnir fjórir leikir hjá strákunum og sex hjá stelpunum. Við vitum hver staðan er samt."

Hafa trú á Óla
Ólafur Kristjánsson tók við kvennaliði Þróttar í vetur af Nik Chamberlain sem fór í Breiðablik. Ólafur er einn stærsti prófíll sem hefur komið í Bestu deild kvenna en byrjunin hefur alls ekki verið góð. Kristján segir að það sé engin spurning um að það ríki trú innan félagsins á Óla.

„Já, það er engin spurning um það að við höfum trú á Óla sem þjálfara. Þetta snýst ekkert um það. Ef þú horfir á leiki Þróttar þá munar oftast um einhver smáatriði. Við þurfum að nýta færin okkar betur. Við höfum fengið fín færi í öllum leikjum en ekki notað þau. Það hefur verið aðalvandamálið. Það eru engar vöflur á okkur með þetta," segir Kristján en það voru miklar breytingar á liðinu í vetur.

„Við misstum átta leikmenn sem voru að byrja mikið í fyrra. Þó þær hafi ekki alltaf allar byrjað í einu þá voru þetta leikmenn sem voru mjög mikilvægir. Það var stór biti. Svo misstum við aðalþjálfarann til margra ára, aðstoðarþjálfarann og markvarðarþjálfarann. Auðvitað er þetta heilmikið púsl að koma þessu saman aftur. Þetta var þannig séð nokkuð erfiður vetur."

„Kvennaliðið spilaði mjög fína leiki í vor þar sem þær voru að læra inn á nýja leikaðferð. Það gekk vel og þær spiluðu flottan fótbolta. Við þurfum að ná því aftur fram. Það sást að hluta til í bikarleiknum gegn Fylki. Þá endurheimtum við það sem þær voru búnar að æfa í vor. Við þurfum að kreista það fram í fleiri leikjum á næstunni. Það er stóra verkefnið," segir Kristján.

Þurfa að ná inn stigum
Núna er það landsleikjahlé framundan en eftir það er heimaleikur gegn Tindastóli í Bestu deildinni. Það er leikur sem Þróttarar verða að vinna.

„Við höfum ekkert endalausan tíma til að liggja og velta þessu fyrir okkur. Núna þurfum við að snúa bökum saman og ná inn stigum. Ná þeim inn með öllum ráðum. Við þurfum að merja sigra þó þeir séu ljótir. Við þurfum sigra og það er bara staðan," segir Kristján.

„Við eigum að spila næst við Tindastól á heimavelli og það er leikur sem við verðum að taka þrjú stig úr. Ég held að öllum sé það ljóst."

Þegar á móti blæs, þá þarf ríkan stuðning á pöllunum.

„Við höfum alltaf átt ríkan stuðning í Þróttarasamfélaginu og við vonumst eftir því að hann haldi áfram," sagði formaðurinn að lokum.
Ólafur Kristjáns: Annaðhvort skríður þú undir stein og felur þig eða ferð upp á steininn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner