Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
   fim 04. maí 2017 13:32
Magnús Már Einarsson
Arnar Már á förum frá Stjörnunni
Arnar Már Björgvinsson.
Arnar Már Björgvinsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Kantmaðurinn Arnar Már Björgvinsson er líklega á förum frá Stjörnunni.

Stjarnan æfir mikið í hádeginu á sumrin og sökum vinnu getur Arnar Már ekki æft þá. Hann þarf því að róa á önnur mið.

„Eins og staðan er núna þá verð ég ekki með Stjörnunni í sumar," sagði Arnar Már við Fótbolta.net í dag.

„Ég var að útskrifast úr háskólanum í janúar (í lögfræði) og það hefur gengið illa að samræma vinnu og boltann. Ég var búinn að gera þeim grein fyrir þessu fyrr í vetur og Rúnar (Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar) á hrós skilið fyrir það hvernig hann hefur tekið þessu."

Hinn 27 ára gamli Arnar hefur lengst af á ferlinum spilað með Stjörnunni en hann byrjaði að leika með meistaraflokki árið 2009. Arnar hefur einnig spilað með Breiðabliki og Víkingi Ólafsvík en hann veit ekki hvað tekur við núna.

„Það er lítið í boði í Pepsi-deildinni. Það eru mikið af liðum úti á landi sem ég get ekki farið í út af vinnu sem og mörg lið sem æfa í hádeginu eins og Stjarnan. Ég er því opinn fyrir því að fara í Inkasso-deildina líka. Ég veit ekki neitt ennþá hvað gerist," sagði Arnar.

Arnar kom inn á sem varamaður undir lokin í 2-2 jafntefli Stjörnunnar og Grindavíkur á mánudag en hann hefur skorað 28 mörk í 132 deildar og bikarleikjum á ferli sínum.
Athugasemdir
banner
banner