fös 08.apr 2022 17:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá Fótbolta.net - 5. sæti: KR
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að KR muni enda í 5. sæti í Bestu deildinni í sumar. Álitsgjafar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. KR endar í næst neðsta sæti efra umspilsins ef spáin rætist.
Theodór Elmar er á leið inn í sitt fyrsta heila tímabil sem leikmaður KR.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. KR 87 stig
6. Stjarnan 69 stig
7. KA 65 stig
8. Leiknir 47 stig
9. ÍBV 35 stig
10. ÍA 33 stig
11. Keflavík 19 stig
12. Fram 17 stig
Um liðið: KR endaði í 3. sæti í fyrra með hagstæðum úrslitum í lokaumferðinni og náði í Evrópusæti með aðstoð frá Víkingi. KR varð síðast meistari sumarið 2019 og ætlar sér, eins og alltaf, að berjast um þann stóra. Hópurinn er skipaður af leikreyndum leikmönnum sem vita hvað þarf til að vinna Íslandsmeistaratitilinn.
Þjálfari - Rúnar Kristinsson: Rúnar er einn allra besti þjálfari Íslands, þrívegis hefur hann gert KR að Íslandsmeisturum. Er dýrkaður og dáður í Vesturbænum og hjarta hans slær með félaginu. Þetta er nákvæmlega það sama og var skrifað um Rúnar í fyrra. Hvað er við þetta að bæta? Sigurvin Ólafsson er Rúnari til aðstoðar.
Styrkleikar: Mikil reynsla og mikil þekking á því hvernig skal vinna leiki og titla. Átta leikmenn í „sterkasta" byrjunarliðinu hafa orðið meistarar með KR, sá níundi er atvinnumaður til sautján ára og reyndur landsliðsmaður, sá tíundi er fyrirliði færeyska landsliðsins og sá ellefti er í U21 árs landsliðinu. Reynsla Rúnars er einnig mikill styrkleiki.
Veikleikar: Takmörkuð breidd er í hópnum. Á leikmannalistanum eru nítján nöfn og nú þegar er ljóst að tveir á listanum ná ekki fyrsta leik vegna meiðsla, Kjartan verður í banni og óvíst er með Finn Tómas. KR þarf að taka inn tvo leikmenn til að halda mönnum í byrjunarliðinu enn frekar á tánum.
Lykilmenn: Pálmi Rafn og Arnór Sveinn. Pálmi er fyrirliði liðsins og hans leiðtogahlutverk stækkar með brotthvarfi Óskars Arnar. Pálmi gæti spilað framar í ár eftir komu Halls og Elmars inn í liðið og gæti skilað mörkum með hlaupum inn í teig. Arnór Sveinn þarf að vera límið í vörninni, þarf að ná tengingu við þann sem er vinstra megin í hjarta varnarinnar. Arnór gæti þurft að leysa Kennie af í 1-2 leiki þar sem sá danski verður í banni.
Hlaðvarpsþátturinn Ungstirnin mælir með: Stefán Árni Geirsson. Við búumst fastlega við því að Stefán muni fá mun stærra hlutverk en hann hefur fengið síðustu ár, sérstaklega vegna brotthvarfs Óskars Arnar og meiðsla Kristjáns Flóka. Þegar Stefán hefur fengið sénsinn hefur hann sýnt að hann er mjög tæknilega góður. Það sést að gæðin eru til staðar en við þurfum að fá meira frá honum, meira af mörkum og fleiri stoðsendingar. Við vonum að Rúnar sýni honum alvöru traust og Stefán fái fullt af mínútum. Stefán er uppalinn sem gerir hann að extra spennandi leikmanni fyrir stuðningsmenn KR.
Spurningarnar: Er nægileg breidd? Fleiri leikir og margir í liðinu komnir vel yfir þrítugt - þola þeir álagið sem fylgir því að vera í Evrópu? Mun Stefán Árni horfa á númerið á stuttbuxunum sínum og gleyma því að hann er sóknarmaður? Ná Stefan Ljubicic og Sigurður að hjálpa til við markaskorunina?
Völlurinn: KR var besta liðið á útivelli í fyrra en einugi í áttunda sæti þegar kom að árangri á heimavelli. Árið þar á undan var KR með tíunda besta árangurinn á heimavelli. Það er eitthvað sem KR-ingar þurfa að laga. Það er alltaf ákveðinn sjarmi að koma í Vesturbæinn og leikmenn gestaliðanna tala um að þeir gírist aukalega við að mæta á Meistaravelli. KR þarf að gera völlinn að sterku vígi ætli liðið sér að vinna þann stóra í sumar.
Fyrirliðinn segir - Pálmi Rafn Pálmason
„Það er að sjálfsögðu ekki það sem við erum að fara stefna að í KR. Ég hef sagt það nokkrum sinnum að við erum KR og það er ekki stefnt á neitt annað en titil þar. Klárlega tel ég okkur vera með hópinn til þess að vera í baráttunni um titilinn. Við erum alltaf með hóp sem stefnir á titilinn og ég er 100% viss um að við séum með það."
„Bestu félög út um allan heim vilja vera í sterkustu keppnunum og Evrópukeppnin er þannig fyrir íslensku liðin. Þetta er það sterkasta það sem við komumst í og svo er þetta fjárhagslega mikilvægt líka. Að vera í Evrópu er ofboðslega mikilvægt."
Komnir
Aron Kristófer Lárusson frá ÍA
Aron Snær Friðriksson frá Fylki
Finnur Tómas Pálmason frá Svíþjóð
Hallur Hansson frá Vejle
Sigurður Bjartur Hallsson frá Grindavík
Stefan Alexander Ljubicic frá HK
Farnir
Alex Freyr Hilmarsson í ÍBV
Arnþór Ingi Kristinsson hættur
Aron Bjarki Jósepsson í ÍA
Guðjón Baldvinsson hættur
Guðjón Orri Sigurjónsson í ÍBV
Óskar Örn Hauksson til Stjörnunnar
Fyrstu fimm leikir KR:
20. apríl Fram - KR
25. apríl KR - Breiðablik
30. apríl Valur - KR
7. maí KR - KA
11. maí ÍBV - KR
Hin hliðin:
Sigurður Hallsson
Aron Kristófer Lárusson
Sterkasta byrjunarliðið að mati Fótbolta.net:
Aðrir leikmenn:
Aron Snær Friðriksson - 13
Grétar Snær Gunnarsson - 6
Emil Ásmundsson - 8
Ægir Jarl Jónasson - 14
Stefan Ljubicic - 17
Aron Kristófer Lárusson - 18
Kristján Flóki Finnbogason - 21
Sigurður Bjartur Hallsson - 33
Spámennirnir: Aksentije Milisic, Brynjar Ingi Erluson, Egill Sigfússon, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Hafliði Breiðfjörð, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Tómas Þór Þórðarson og Úlfur Blandon