Heimild: Bítið á Bylgunni
Ég ætla ekki að vera það dramatískur að ef við vinnum ekki titilinn þá verði félagið gjaldþrota, en þú finnur fyrir miklu meiri pressu og stressi heldur en áður
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, tók út leikbann þegar liðið tók á móti HK í Bestu deildinni í gær eftir að hafa fengið rauða spjaldið gegn FH í síðustu viku.
Sjá einnig:
Arnar um rauða spjaldið: Þetta var ekki víti en eldfjallið var byrjað að gjósa
Búinn að fá nóg af yfirgangi Víkinga og hvetur Arnar til að núllstilla sig
Sjá einnig:
Arnar um rauða spjaldið: Þetta var ekki víti en eldfjallið var byrjað að gjósa
Búinn að fá nóg af yfirgangi Víkinga og hvetur Arnar til að núllstilla sig
Arnar var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í dag og var spurður út í rauða spjaldið. Arnar byrjaði á því að grínast með að stóllinn sem hann tók upp í kjölfar rauða spjaldsins hefði „passað svo vel við borðið heima".
„Það er mjög mikið stress í gangi fyrir leiki, mikið undir og allt þessháttar. Stundum missir maður stjórn á skapinu, það er rosa erfitt að útskýra af hverju. Ég byrja hvern einasta leik með ákveðna möntru í huga: nú ætla ég að haga mér og nú ætla ég ekki að láta ákvarðanir fara í taugarnar á mér. En svo gerist eitthvað, eitt og eitt atvik í leikjunum. Ég held þetta sé stressfaktor sem lætur eldfjallið gjósa. Mesta refsingin fyrir mig er bílferðin á leiðinni heim; kvíður svo fyrir að horfa á þetta í uppgjörsþætti og lesa um þetta í fjölmiðlum. Ég skammast mín mikið fyrir þetta og hugsa mikið um greyið dómarana að þurfa að þola þetta frá okkur. Ég held að allir þjálfarar skammist sín fyrir þetta og á einhverjum tímapunkti þarf að finna jafnvægi á milli þess að sýna tilfinningar - við viljum fá tilfinningar frá þjálfurum, það er gott sjónvarpsefni - en menn mega ekki haga sér eins og algjörir bjánar á hliðarlínunni eins og ég gerði í Kaplakrika," sagði Arnar.
Arnar var spurður hvort það væri ekki gott fyrir leikmenn að hafa ástríðufullan þjálfara sem tekur þátt í baráttunni.
„Jú, en það er jafnvægið sem ég talaði um; leikmenn vilja ekki að leiðtoginn sinn sé að missa kúlið á hliðarlínunni. Akkúrat í þessu tilviki kemur einn af okkar reynslumestu leikmönnum, Pablo Punyed, til mín og það var frábært hjá honum. Hann róaði mig niður og sagði að leikmennirnir væru með þetta. Það var flott hjá honum að gera."
„Leikmenn vilja hafa tilfinningaríkan þjálfara sem er að berja menn áfram, en ég held að leikmenn vilja ekki sjá þetta. Á fundi fyrir þennan leik þá lagði ég rosalega mikla áherslu á að hafa stjórn á öllum hlutum. En því sem fór sem fór."
„Þú reynir að búa til eitthvað grín úr þessu. En ég er ekki að grínast, mig kvíðir svo fyrir að horfa á mig haga mér eins og fávita. Það var fín refsing að horfa á sig. Það eru tveir leikir sem eru eftirminnilegir, leikurinn á Kópavogsvelli þar sem ég tók greyið Ívar Orra vin minn af lífi. Ég sá svo eftir þessu. Það er leiðinlegt."
Arnar var spurður hvort hann hefði misst sig verulega við leikmenn; jafn reiður og hann hefur orðið við dómara.
„Nei, ekki svo reiður. Meira pirringur út í hvað menn séu að gera og svoleiðis. En ég gríp ekki stóla og læt eins og bjáni. Leikmenn eru alveg tilbúnir að samþykkja það og vita sjálfir upp á sig sökina. Ég held að leikmenn kunni líka að meta það, sumir þurfa aðeins að keyra sig í gang og menn eru misupplagðir fyrir leiki af mismunandi ástæðum."
Er auðveldara að halda kúlinu sem leikmaður en þjálfari?
„Miklu, það er akkúrat faktorinn sem kemur að stressinu. Ég hef verið bæði og það er miklu einfaldara sem leikmaður, þú ert þá bara að hugsa um sjálfan þig. Það er mikil ábyrgð að vera þjálfari, er ekki að afsaka neina hegðun, en það er mikil ábyrgð og því brýst stressið út þegar mér finnst vera gríðarlegt óréttlæti þegar dómari tekur einfalda ákvörðun sem skiptir í raun engu máli í heildarmynd leiksins."
Arnar viðurkennir að hann finnur fyrir meira stressi á þessu tímabili en í fyrra. „Það eru gerðar miklu meiri kröfur á okkur í Víkinni, sem er bara mjög gaman. Víkingssamfélagið er búið að taka virkilega við sér og það eru miklu meiri fjárfestingar í fótboltanum í dag. Ég ætla ekki að vera það dramatískur að ef við vinnum ekki titilinn þá verði félagið gjaldþrota, en þú finnur fyrir miklu meiri pressu og stressi heldur en áður. Ég er búinn að vera lengi í fótbolta, ég fagna þessu, þetta er mjög gaman, en hin hliðin á teningnum er að það verða kannski smá meira af stressköstum en áður."
„Ég er miklu meðvitaðri um peningapressuna, það er fylgifiskur velgengni og þú verður bara að taka því," sagði Arnar.
Heimir Karlsson, þáttarstjórnandi, kom inn á að dómarinn væri ekki að reyna dæma á móti öðru liðinu og gerir sín mistök eins og aðrir á vellinum.
„Á hæsta 'leveli' í sinni íþróttagrein, þá skilja þeir að það er kallað aðeins á þá og athyglin er meiri á þeim. En eftir leikina held ég að þetta sé gleymt og grafið, allavega hjá mér og held ég flestum þjálfurum. Maður hittir þessa dómara á förnum vegi, þá er bara faðmast og hlegið. Þeir eru bara partur af leiknum. Ég held það sé ekki alvarlegt ef þjálfarar eða leikmenn eru kannski aðeins að drulla yfir dómara og ég held að margir dómarar taka þessu eins og það er; skilja tilfinningarnar. Það er það sem gerir þá að góðum dómurum, þeir erfa þetta ekki við einn eða neinn," sagði Arnar.
Atvikið sem um ræðir má sjá eftir 70 sekúndur í spilaranum hér að neðan.
Athugasemdir