Rúnar Páll SIgmundsson, þjálfari Fylkis, var ánægður með framlagið sem liðið skilaði í 4-2 sigrinum á FH í Bestu deildinni í dag.
Lestu um leikinn: FH 2 - 4 Fylkir
Fylkismenn náðu að gera út um leikinn seint í uppbótartíma síðari hálfleiks með tveimur mörkum og er liðið nú komi upp úr fallsæti en þetta minnti Arnar Laufdal Arnarsson, fréttaritara Fótbolta.net, á þegar Stjarnan vann Íslandsmeistaratitilinn á móti FH, árið 2014, en Rúnar Páll stýrði einmitt Stjörnunni þá.
„Það var dálítið ólíkt en þetta var svipað og fyrri leikurinn. Hann spilaðist nákvæmlega eins þar sem við komumst í 2-0 og þeir skoruðu tvö mörk, kannski í yfirtíma, heldur í lok leiks, en svipað því og hrikalega sætt því FH lágu á okkur hérna. Við vörðumst vel og gerðum feykivel í hornunum sem við fengum á okkur og Óli varði vel þegar Kjartan Henry skaut, en mörkin sem við fengum á okkur voru klaufaleg og mjög lík. Smá heppnisstimpill yfir seinna markinu en hefðum getað gert betur þar. Heilt yfir ánægður með frammistöðuna,“ sagði Rúnar Páll.
„Við vorum ekki klárir hvort FH færi í fjögurra manna vörn eða þriggja en við leystum það þegar á leið leikinn. Við missum Nikka útaf í hálfleik og hann var okkar besti maður í fyrri hálfleik og hrikalega duglegur varnarlega að brjóta niður sóknirnar og einnig að hlaupa í gegnum varnirnar. Við missum hann út og þurftum að byggja nýjan 'rythma' í seinni hálfleik og það var ekki nógu gott og vorum ekki nógu öflugir fram á við. FH-ingar gerðu vel og héldu okkur vel niðri en síðan refsuðum við þeim eins og okkur hefur verið refsað í sumar. Við áttum fyllilega skilið að snúa þessu við og við áttum þessi þrjú stig sannarlega skilið og unnum fyrir þeim,“ sagði Rúnar við Fótbolta.net.
Rúnar segir að liðið sé alls ekki á leið niður.
„Við erum ekkert á leiðinni niður. Menn mega alveg tala um okkur sem einhvern kandídat en við erum ekkert á leiðinni þangað, erum vel gíraðir, líður vel og það er góð stemning í hópnum og ekkert vonleysi. Svona sigur gefur okkur byr undir báða vængi og við komum hrikalega vel stemmdir þar sem eftir lifir móts. Frábært að ná í stig á erfiðum útivelli og ekkert margir sem koma og vinna hér. Við erum ánægðir með það en einhver tölfræði hjálpar mér ekki neitt, heldur þurfum við að hafa þennan anda, kraft og áræðni og stemningu í liðinu okkar þá getum við gert eitthvað skemmtilegt.“
Ómar Björn Stefánsson kom inn á sem varamaður og skoraði og lagði upp í uppbótartímanum.
„Ómar er þannig leikmaður að hann er eldfljótur og sennilega sá fljótasti í þessari deild. Hann gerði vel og Pétur gerði frábærlega og Óskar í 3-2 markinu. Hann á hrós skilið drengurinn og það er svona með unga menn að þeir þurfa að vera þolinmóðir þegar tækifærin koma og hann nýtti það svo sannarlega í dag,“ sagði Rúnar Páll en hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir