Félög í Íslenskum Toppfótbolta hafa ákveðið að leika með opinberan keppnisbolta Álfukeppninnar frá Adidas í Pepsi-deildinni í sumar. Um er að ræða sama bolta og verður notaður í Álfukeppninni í Brasilíu í júní.
Fyrr í mánuðinum var greint frá því að ákveðið hefði verið að leika með ,,Adidas confed Cup 2013 Competition" í Pepsi-deildinni í sumar.
Sá bolti fékk mikla gagnrýni hjá leikmönnum í deildinni og í kjölfarið fór mikil umræða af stað. Nú er ljóst að öll félög í deildinni munu spila með aðalboltann frá Adidas en þau munu þó halda hinum boltunum áfram.
,,Eins og staðan er núna þá verður spilað með A-boltanum í leikjunum," sagði Gísli Eyland framkvæmdastjóri hjá Íslenskum Toppfótbolta við Fótbolta.net í dag.
,,Það var kosið um það að leika með B-boltann á fundi um daginn en eftir að þessi umræða kom upp breyttist almenn afstaða forráðamanna. Til að koma til móts við gagnrýni þá hefur verið ákveðið að bæta við boltum og spila með A-boltanum."
,,Það skal þó taka fram að það er ekki verið að skila neinum boltum. Þessi B-bolti uppfyllir alþjóðlegar kröfur þó að hann hafi ekki uppfyllt væntingar allra."
Athugasemdir