Hansi Flick var himinlifandi eftir magnaðan endurkomusigur Barcelona í spænsku deildinni um helgina.
Barca lenti óvænt 1-3 undir á heimavelli gegn Celta Vigo eftir að Borja Iglesias setti þrennu á Nývangi. Börsungar gáfust þó ekki upp og voru fljótir að jafna með hjálp frá tveimur öflugum leikmönnum sem komu inn af bekknum.
Dani Olmo kom inn ásamt Lamine Yamal og voru þeir snöggir að skora og leggja upp til að jafna metin, áður en Raphinha skoraði sigurmark úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
Robert Lewandowski spilaði fyrstu 78 mínútur leiksins áður en hann þurfti að fara meiddur af velli og var Flick ekki ánægður með viðbrögð Ansu Fati og Héctor Fort sem sátu allan tímann á bekknum. Wojciech Szczesny varði mark Barca í sigrinum en Marc-André ter Stegen er að snúa aftur eftir mjög erfið meiðsli.
„Við vitum ekki hversu alvarleg meiðslin eru hjá Lewy. Við erum að bíða eftir að fá út úr rannsóknum. Ter Stegen er hins vegar tilbúinn til að snúa aftur, hann er byrjaður að æfa með strákunum," sagði Flick meðal annars eftir sigurinn og sneri sér svo að Fort og Fati
„Ég skil að þeir séu svekktir að hafa ekki fengið að koma inn á völlinn en ég skil ekki viðbrögðin þeirra. Ég vil sjá viðbrögðin þeirra inni á vellinum þegar þeir fá tækifæri, ekki eftir leik sem við sigrum. Ég spilaði líka fótbolta og var stundum á bekknum og þannig er það bara, sem fótboltamaður þá verður þú að samþykkja það.
„Við komum til baka eftir að hafa lent 3-1 undir og sigruðum leikinn. Mér fannst ég taka réttar ákvarðanir með skiptingunum og skil ekki þessi viðbrögð. Þeir eiga að samgleðjast með liðinu."
Bakvörðurinn Fort og kantmaðurinn Fati hafa ekki fengið mikinn spiltíma undir stjórn Flick.
Fort er með eitt ár eftir af samningi sínum við Barcelona á meðan Fati á tvö ár eftir. Fort er 18 ára gamall og Fati 22 ára.
Flick var heldur ekki sáttur með Ferran Torres sem tók ekki í höndina á aðstoðarþjálfaranum þegar honum var skipt af velli, eftir að hafa verið í byrjunarliðinu og skorað fyrsta mark leiksins.
Athugasemdir