Gary O'Neil hefur verið látinn fara frá enska úrvalsdeildarfélaginu Wolves en allir stærstu miðlarnir á Englandi greina frá þessu í dag.
O'Neil tók við Wolves í ágúst á síðasta ári eftir að Julen Lopetegui hætti með liðið.
Hann náði ágætis árangri á síðasta tímabili. Liðið hafnaði í 14. sæti deildarinnar og komst alla leið í 8-liða úrslit enska bikarsins en tapaði fyrir Coventry. Eftir tímabilið framlengdi hann samning sinn við félagið.
Stjóranum tókst ekki að fylgja því eftir á þessu tímabili og vann aðeins tvo leiki af sextán. Það var síðan 2-1 tapið gegn nýliðum Ipswich í gær sem fyllti endanlega mælinn hjá stjórn Wolves sem hefur nú látið O'Neil fara.
Athletic og Sky Sports segja að það hafi verið gert í morgun, en ekki kemur fram hver mun stýra liðinu í næstu leikjum. Félagið mun líklegast staðfesta fregnirnar síðar í dag.
Úlfarnir eru í næst neðsta sæti deildarinnar fjórum stigum frá öruggu sæti en næsti leikur liðsins er gegn Leicester City næstu helgi.
O'Neil er þriðji stjórinn sem er rekinn á þessu tímabili á eftir þeim Erik ten Hag og Steve Cooper.
Athugasemdir