Norski þjálfarinn Ole Gunnar Solskjær var óvænt í stúkunni er Wolves tapaði fyrir Ipswich, 2-1, í ensku úrvalsdeildinni í gær en enski blaðamaðurinn Andy Mitten segir fólki að lesa ekki of mikið í þessar fréttir.
Wolves mun líklega reka Gary O'Neil á næstu dögum eftir tap liðsins og er talið að félagið hafi þegar hafið leit að arftaka hans.
Það vakti því mikla athygli er Solskjær sást í stúkunni á leiknum og fóru strax af stað sögur um að hann væri líklega að taka við keflinu af O'Neil.
Mitten, sem starfar sem blaðamaður hjá Athletic, segir aðrar ástæður fyrir því að hann hafi verið í stúkunni.
„Ekki lesa of mikið í að Ole Gunnar Solskjær hafi verið hjá Wolves. Þetta var skipulagt fyrir löngu. Hann ferðaðist með fjölskyldunni til Englands og er algert fótboltanörd. Hann vildi sjá Ipswich og vini hans Kieran og Martyn sem eru þjálfarar. Auk þess heldur sonur Ole mikið upp á Ipswich,“ sagði Mitten.
Solskjær hefur ekki þjálfað aðallið síðan hann var látinn fara frá Manchester United fyrir þremur árum en hann hefur komið að þjálfun hjá yngri flokkum í Kristiansund þar sem sonur hans spilar.
Á dögunum hafnaði Solskjær því að taka við norska liðinu Molde, sem hann gerði eftirminnilega að meisturum árið 2011 og 2012.
Ole Gunnar Solskjaer is at Molineux. #WOLIPS pic.twitter.com/5UxwbVmSBC
— Match of the Day (@BBCMOTD) December 14, 2024
Athugasemdir