mán 16. mars 2020 10:05
Magnús Már Einarsson
Kristján G: Lágmark mánaðar seinkun á mótum
Kristján Guðmundsson.
Kristján Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjörnustelpur eru í sóttkví.
Stjörnustelpur eru í sóttkví.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Allir leikmenn kvennaliðs Stjörnunnar eru í sóttkví eftir að liðið kom heim úr æfingaferð frá Costa Brava á Spáni á laugardaginn. Neyðarástandi var lýst yfir á Spáni um helgina vegna kórónuveirunnar en það var gert um það leyti sem lið Stjörnunnar flaug heim til Íslands.

„Í rauninni rétt sluppum við heim. Það var byrjað að loka íþróttasvæðum og völlum og fresta leikjum. Við náðum að fljúga heim á laugardagsmorgun. Það gekk hægt því það vantaði starfsfólk á flugvöllinn til að þetta myndi ganga eðlilega fyrir sig. Ferðin gekk hrikalega vel og það var gríðarlega mikil samvinna og eining í hópnum. Hópurinn stóð sig hrikalega vel," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, við Fótbolta.net í dag.

Allir pollrólegir á Spáni
Staðan á Spáni versnaði mikið vegna kórónuveirunnar í síðustu viku.

„Áður en við fórum í ferðina leituðum við ráða hjá öllum sem stjórna. Hvort sem það var Íþróttasambandið, Knattspyrnusambandið eða hvað sem er. Knattspyrnusambandið sendi A-lið kvenna til Spánar og U19, tveimur dögum áður en við fórum. Við ákváðum að fara en hlutirnir gerðust mjög hratt fyrstu tvo dagana úti og þá settumst við niður á þriðjudaginn og brýndum enn betur fyrir leikmönnum hvernig þær ættu að haga sér. Það var fyrst og fremst eftir upplýsingar frá Íslandi. Hópurinn vann mjög vel í öllu frá upphafi ferðar."

„Þetta gerðist mjög hægt í ferðinni. Við urðum ekki vör við neitt til að byrja með en á fimmtudaginn breyttist allt og þá var byrjað að tala um að loka. Við vorum mjög lítið vör við að það væri eitthvað í gangi þegar við komum fyrst út. Heima eru allir að spritta sig og þvo sig um hendurnar en þarna úti var allt pollrólegt. Við sáum einn sprittbrúsa og það var þegar við vorum að ganga út úr veitingasalnum."


Leikmenn æfa á göngustígum, í stofunni og úti í garði
Leikmenn Stjörnunnar æfa heima hjá sér á meðan þeir eru í sóttkví næstu tvær vikurnar,

„Við erum búnir að semja æfingaáætlun og hún er tilbúin. Við byrjuðum að vinna hana í ferðinni. Þetta er einstaklingsmiðuð fjarþjálfun. Leikmenn mega fara eitthvað út og æfingarnar eru sniðnar að því leyfi. Það er samkomubann og allir verða að fylgja því mjög stíft. Stelpurnar eiga að æfa úti á göngustígum, inni í stofu heima hjá sér, úti í garði eða eitthvað slíkt," sagði Kristján.

Vill að KSÍ taki dagsetningar niður
Samkvæmt áætlun á Stjarnan að mæta Þór/KA í fyrstu umferð í Pepsi Max-deild kvenna þann 1. maí. Kristján telur að mótinu verði frestað að minnsta kosti um mánuð.

„Mótum verður seinkað, það er alveg ljóst. Ég skora á Knattspyrnusambandið að taka niður dagsetningar á veggnum hjá sér. Menn eru að horfa á dagsetningar hvenær mótið byrjar og eru að reyna að hafa leikmenn í ástandi til þess að takast á við fyrstu leikina. Það er lágmark mánaðar seinkun á mótum og jafnvel mera. Við þurfum fyrst og fremst að hugsa um heilsuna núna, við getum ekki horft á dagsetningar á fótboltaleikjum. Við þurfum að ýta því frá okkur."

Kristján er sjálfur í sóttkví og hefur í nógu að snúast enda er hann einnig yfirþjálfari yngri flokka hjá Stjörnunni.

„Það er brjálað að gera hjá mér. Það er nóg að gera yfirþjálfurum að skipuleggja og ákveða hvað verður gert með þjálfunina. Þjálfararnir þurfa að vera frjóir og koma með margar góðar hugmyndir svo við getum hjálpað iðkendunum að æfa. Ég get ekki séð að það verði sameiginlegar æfingar í íþróttum á næstu dögum eða vikum," sagði Kristján að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner