Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
þriðjudagur 19. nóvember
Þjóðadeildin
sunnudagur 17. nóvember
U21 - Vináttuleikur
laugardagur 16. nóvember
Þjóðadeildin
U19 karla - Undank. EM 2025
fimmtudagur 7. nóvember
Sambandsdeildin
þriðjudagur 5. nóvember
Undankeppni EM U17
sunnudagur 27. október
Besta-deild karla - Efri hluti
fimmtudagur 24. október
Vináttulandsleikur
Sambandsdeildin
sunnudagur 20. október
Besta-deild karla - Neðri hluti
laugardagur 19. október
Besta-deild karla - Efri hluti
Besta-deild karla - Neðri hluti
þriðjudagur 15. október
Landslið karla - U21 - Undankeppni EM
mánudagur 14. október
Landslið karla - Þjóðadeild
föstudagur 11. október
fimmtudagur 10. október
Undankeppni EM U21 karla
sunnudagur 6. október
Besta-deild karla - Efri hluti
Besta-deild karla - Neðri hluti
Besta-deild karla - Efri hluti
Besta-deild karla - Neðri hluti
laugardagur 5. október
Besta-deild kvenna - Efri hluti
Besta-deild karla - Neðri hluti
Besta-deild kvenna - Efri hluti
fimmtudagur 3. október
Sambandsdeild Evrópu
mánudagur 30. september
Besta-deild karla - Efri hluti
sunnudagur 29. september
Besta-deild karla - Neðri hluti
Besta-deild karla - Efri hluti
Besta-deild karla - Neðri hluti
Besta-deild kvenna - Efri hluti
föstudagur 27. september
Fótbolti.net bikarinn
miðvikudagur 25. september
Besta-deild karla - Efri hluti
Besta-deild karla - Neðri hluti
mánudagur 23. september
Besta-deild karla - Efri hluti
Lengjudeildin - Umspil
sunnudagur 22. september
Besta-deild karla - Neðri hluti
Besta-deild kvenna - Efri hluti
Lengjudeildin - Umspil
laugardagur 21. september
Mjólkurbikarinn - Úrslit
Fótbolti.net bikarinn
föstudagur 20. september
Besta-deild kvenna - Efri hluti
fimmtudagur 19. september
Lengjudeild karla - Umspil
miðvikudagur 18. september
Lengjudeildin - Umspil
mánudagur 16. september
Besta-deild karla
föstudagur 13. september
Besta-deild kvenna - Efri hluti
Besta-deild karla
fimmtudagur 12. september
Besta-deild kvenna - Efri hluti
þriðjudagur 10. september
Undankeppni EM U21
Æfingamót í Slóveníu
mánudagur 9. september
Þjóðadeildin
laugardagur 7. september
Meistaradeild kvenna - forkeppni
Lengjudeild karla
Besta-deild kvenna - Neðri hluti
Lengjudeild kvenna
Æfingamót U19 karla
föstudagur 6. september
Þjóðadeildin
Undankeppni EM U21
fimmtudagur 5. september
Æfingamót U19 karla
miðvikudagur 4. september
Forkeppni Meistaradeildar kvenna
laugardagur 23. nóvember
Engin úrslit úr leikjum í dag
sun 21.ágú 2022 23:59 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magazine image

Töpuðu landsliðsmanni úr hjartanu en eru samt með bestu vörnina

Fyrir rúmu ári síðan heillaði miðvörðurinn Brynjar Ingi Bjarnason þjóðina.

Hann var stórkostlegur með KA í Bestu deildinni og í kjölfarið var valinn í A-landsliðið fyrir vináttulandsleiki um sumarið. Eftir þá landsleiki fékk hann skrefið erlendis er hann samdi við Lecce á Ítalíu.

Þrátt fyrir að hafa misst þennan frábæra miðvörð, þá hefur KA náð að halda sér á toppnum þegar sterkustu varnarlið Bestu deildarinnar eru skoðuð.

Aðrir hafa stigið upp eftir að Brynjar Ingi fór frá félaginu. Þar ber helst kannski að nefna Ívar Örn Árnason, sem er fæddur árið 1996. Ívar hefur í sumar fest sig í sessi sem vinstri hafsent í varnarlínu KA og hefur hann verið virkilega góður. Hann var staðráðinn í að nýta tækifærið og gerði það svo mikið að þjálfarar KA hafa ekki getað skipt honum út.


Brynjar Ingi Bjarnason

Ívar, sem er örvfættur, hefur flakkað á milli þess að leika hafsent og vinstri bakvörð á sínum ferli. Það var Ejub nokkur Purisevic sem sagði við hann að hann ætti að vera miðvörður.

„Ég byrjaði að spila miðvörð fyrst út í USA í þriggja hafsenta kerfi og fann mig vel í því en svo var það Ejub Purisevic sem að lét mig fyrst spila miðvörð í tveggja hafsenta kerfi þegar ég var á láni hjá Víkingi Ólafsvík," segir Ívar í samtali við Fótbolta.net.

„Hann spurði mig hreint út einhvern tíman fyrir leik hvort ég vildi spila bakvörð eða miðvörð og ég sagðist þekkja stöðu bakvarðar betur og vildi því hana, en hann sagði að ég hefði einfaldlega rangt fyrir mér og ég ætti að vera miðvörður. Svo þetta er ekkert mitt fyrsta skipti að spila þessa stöðu og núna kann ég í raun töluvert betur við mig þar en í bakverðinum."


Ejub Purisevic.

Fá á sig fá færi
Nökkvi Þeyr Þórisson hefur fengið gríðarlega athygli í sumar og það skiljanlega. Frammistaða hans framarlega á vellinum hefur verið heint út sagt stórkostleg. En varnarleikur KA er líka eitthvað sem verður að horfa til í þessum stórgóða árangri liðsins í sumar.

KA hefur í sumar fengið á sig 18 mörk eða 0,99 í leik. Fyrir utan Víkinga þá hefur KA fengið fæstar tilraunir á mark sitt í sumar og er með minnsta xG-ið gegn sér.

Liðið hefur bætt sig aðeins frá því fyrra og er að fá færri tilraunir á sig að meðaltali í leik, 10,83 samanborið við 11,93 í fyrra. Þetta er merkilegt í ljósi þess að Brynjar Ingi, sem hefur verið fastamaður í landsliðshópnum síðastliðið ár, fór frá KA á miðju síðasta tímabili. Þetta er merki um góða þjálfun og góða liðsheild.

„Arnar leggur mikið upp með að halda hreinu því við erum með hraða og hættulega menn fram á við sem geta alltaf refsað. Annars er Hallgrímur Jónasar duglegur að drilla okkur varnarmennina sem og að koma skilaboðum frá bekknum til okkar. Fyrst og fremst erum við samt bara með duglegt lið sem byrjar að verjast á fremsta manni. Því ef að sóknarmennirnir okkar eru ekki duglegir að setja pressu og koma til baka þá verður vinnan fyrir varnarlínuna töluvert erfiðari," segir Ívar.


Hallgrímur Jónasson og Arnar Grétarsson, þjálfarar KA.

KA er mikið með boltann eða 53,9 prósent að meðaltali í leik. Það er það fjórða besta í deildinni. Góð ástæða fyrir því er að liðið er yfirleitt nokkuð fljótt að vinna boltann aftur eftir að hafa tapað honum. KA er með 9,35 í PPDA (Passes Per Defensive Action) sem er nokkuð gott er kemur að pressu.

KA-menn eru skipulagðir og það er augljóst að allir þekkja sitt hlutverk vel í varnarleiknum. Menn eru tilbúnir að leggja mikið á sig fyrir liðið, og þjálfarar greinilega að ná vel til leikmanna.

Að verjast í 4-4-2 eða 4-1-4-1
KA hefur ýmist verið að stilla upp í 4-4-2 eða 4-1-4-1 í sumar. Seinni hlutann í sumar hafa þeir fært sig yfir í það að verjast nokkuð mikið í kerfinu 4-4-2. Það hefur verið að skila þeim góðum árangri því þeir eru bara búnir að fá á sig tvö mörk í síðustu leikjum sem þeir hafa byrjað í þessu kerfi.


Kerfið sem KA spilaði lengst af gegn ÍA í síðasta leik og einnig gegn FH í leiknum þar á undan. Rodri aðeins fyrir aftan Daníel á miðsvæðinu.

Þetta er vel skipulagt hjá KA og allir með sín hlutverk á hreinu. Þeir lesa vel í andstæðingana og eru vel undirbúnir þegar þeir mæta til leiks.

Augljóst dæmi um það er leikurinn gegn FH á dögunum. Þeir voru tilbúnir að pressa hátt á köflum en annars lögðust þeir aftur og leyfðu FH að halda boltanum. Eins og áður hefur komið fram þá er FH mikið með boltann en þeim líður ekkert sérstaklega vel með hann. Það meikar ekki sens að vera með boltann ef þú ætlar ekki að gera neitt við hann, en þannig hefur þetta svolítið verið hjá FH í sumar - það er alls ekki mikið að frétta á síðasta þriðjungi vallarins.

Þjálfarar KA lögðu dæmið vel upp, þeir voru tilbúnir að leyfa FH að vera með boltann og þegar þeir voru komnir í ákveðnar stöður þá var hægt að refsa þeim.


KA í 4-4-2 kerfi sínu, þéttir fyrir og vel skipulagðir. Þeir eru einbeittir í færslunni og færa liðið vel yfir þegar boltinn berst hinum megin á völlinn. Þeir halda þéttleika sínum vel og eru tilbúnir að spyrna upp þegar FH leitar upp völlinn. Þegar FH fór að koma ofar þá urðu leikmenn KA agressívari í að loka svæðum og það gerði Fimleikafélaginu erfitt fyrir.


Þarna nær FH að finna miðjuna en KA eru fljótir að lesa það Hallgrímur Mar fellur um leið og sendingin kemur, er agressívur og vinnur boltann. KA refsar og nær að sækja hratt.

KA-menn eru tilbúnir að pressa hátt, leggjast aftur og hvaðeina. Það eru fá lið í deildinni sem eru eins góð í að aðlagast andstæðingnum og lesa í hans útspil.

Á þeim klippum sem undirritaður hefur horft á, þá er augljóst að liðið veit nákvæmlega hvenær á að pressa hátt, hvenær á að leggjast aftur, hvenær á að loka svæðum og annað. Í þessum tiltekna á móti voru þeir oftast tilbúnir að leyfa miðvörðum FH að vera með boltann en um leið og þeir komu honum ofar, þá voru leikmenn KA aggressívari og gerðu FH-ingum þannig lífið leitt.

Þeir eru allir í þessu saman, þeir tengja vel og er liðið gríðarlega vel þjálfað. Þegar þú ert með Arnar Grétarsson og Hallgrím Jónasson á hliðarlínunni að öskra á þig fyrirmæli allan liðlangan leikinn, þá er skiljanlegt að allir séu með sín hlutverk á hreinu.

Þetta kerfi býður upp á að liðið getur verið sterkt varnarlega um allan völl; og það er auðvelt að búa til þéttleika, jafnvægi og hjálparvörn hvort sem það er í hápressu eða aðeins aftar á vellinum. Þetta varnarkerfi veitir einnig hið fullkomna jafnvægi fyrir skyndisóknarfótbolta. Lið sem eru sett upp í 4-4-2 hafa tölurnar til að verjast í þéttri, djúpri blokk til að lokka andstæðinginn upp völlinn en eru einnig með nóg af möguleikum svo til að hefja skyndisóknir og tengja við ýmsa framherja.


Hérna er dæmi um það gegn Leikni. Daníel Hafsteins pressar vel, Sveinn Margeir tekur boltann og kemur honum á Ásgeir Sigurgeirs. Hann rekur boltann úti á hægri vængi og á svo flotta fyrirgjöf sem Nökkvi skilar í netið.


Þess má geta að KA var meira með boltann og mun sterkari aðilinn í þessum tiltekna leik gegn Leikni en þetta eru líka möguleikarnir í þessu kerfi.

Gott að hafa einn Rodri
„Rodri er að mínu mati hreint og beint besti leikmaðurinn í íslensku deildinni í dag," sagði Óli Stefán Flóventsson, fyrrum þjálfari KA og Grindavíkur, fyrir tveimur árum síðan. Það hlógu kannski margir að þessum ummælum, en það er ekki hægt að efast um þau gæði sem hann býr yfir og það mikilvægi sem hann gegnir í liði KA.


Rodri.

Það getur verið vandamál að spila bara með tvo inn á miðsvæðinu. Stundum fellur annar sóknarmaðurinn niður hjá KA í þessu kerfi og það verður að 4-1-4-1. Það hjálpar til, en stundum skapast sú staða að þeir eru bara tveir þarna og þá er gott að hafa einn Rodri.

Hann er með 6,07 'interceptions' að meðaltali á hverjum 90 mínútum í sumar og er einn sá besti af miðjumönnum deildarinnar í því að komast inn í sendingar og fleira. Hann er einhvern veginn alls staðar og er með gríðarlega góðan leikskilning og staðsetningar. Þá er hann með 13,27 'recoveries' í Bestu deildinni í sumar sem er ansi gott. Þegar talað er um 'recoveries' þá er átt við það þegar leikmaður vinnur boltann og hefur nýja sókn.


Úr leiknum gegn FH. Hér er Rodri búinn að staðsetja sig vel.

Hann vinnur boltann og er fljótur að koma honum áfram í leik.

Hann er einhvern veginn alls staðar og það er góður kostur að hafa í leikmanni.


Hitakortið hjá Rodri í sumar.

Rodri er frábær sendingamaður og skilar yfirleitt boltanum á samherja. Af sendingum hans eru 88,75 prósent heppnaðar. Aðeins þrír af miðjumönnum deildarinnar eru með betra hlutfall en þeir hafa allir spilað mun, mun færri mínútur en Rodri í sumar.

Daníel Hafsteinsson hefur verið að spila með Rodri á miðjuna og þeir hafa verið að tengja vel, bæði varnarlega og sóknarlega.

Kann ég vel við að hafa hann mér við hlið
Fyrir síðustu leiktíð kom Dusan Brkovic. Hann hefur fest sig í sessi sem einn besti miðvörður deildarinnar. Hann er algjör stríðsmður.

„Dusan er metnaðarfyllsti og mest 'professional' leikmaður sem ég held ég hafi spilað með. Þessi gaur er tilbúinn að leggja gjörsamlega allt í sölurnar fyrir málstaðinn og því kann ég vel við að hafa hann mér við hlið," segir Ívar.


Dusan Brkovic.

Ívar virðist vera búinn að taka góð skref fram á við með því að spila við hliðina á Dusan og er með nokkuð svipaða tölfræði og hann. Dusan er að fara í fleiri varnareinvígi en þeir eru að vinna svipað hlutfall þeirra, Ívar er að vinna 69,01 prósent þeirra og Dusan 68,54 prósent þeirra. Báðir eru þeir ofarlega á lista yfir miðverði í deildinni hvað það varðar.

„Í raun held ég að ég sem fótboltamaður sé ekkert búinn að taka svakalegum framförum, frekar að ég sé bara að spila með meira sjálfstrausti en áður sem að kemur bara með því að spila fótboltaleiki. Ég vissi að Dusan yrði í banni í fyrstu þrem leikjunum á tímabilinu og var ég því staðráðin í að nýta mér það tækifæri til að sýna að ég ætti heima í þessu liði. Leikmenn þurfa sjálfstraust til að eiga eitthvað erindi í Bestu deildina því það er haugar að leikmönnum sem hafa gæðin til þess að spila í henni," segir Ívar.

Það hefur hjálpað Ívari að spila með Dusan; þeir vega hvorn annan vel upp og ná að spila vel saman í hjarta varnarinnar.



Þeir eru báðir afskaplega góðir í að spila boltanum, Dusan er með 88,12 prósent heppnaðar sendingar í Bestu deildinni í sumar og Ívar með 85,79 prósent. Þetta er þrátt fyrir að þeir séu báðir að reyna yfir 20 sendingar fram völlinn í leik.

„Auðvitað er það hugsun hjá mér, það er alltaf draumurinn. Held að enginn fótboltamaður/kona myndi neita því ef það kæmi bankandi upp á," segir Ívar um drauminn um að komast í atvinnumennsku.


Ívar Örn Árnason.

Þáttur Hallgríms mikilvægur
Samkvæmt upplýsingum sem Fótbolti.net hefur fengið í kringum þessa grein, þá er fyrrum landsliðsmaðurinn Hallgrímur Jónasson mjög mikilvægur í þessum góða varnarleik KA.

Hann lék lengi sem atvinnumaður og var auðvitað í landsliðinu sem miðvörður.

Hallgrímur þekkir varnarleik gríðarlega vel og hefur spilað undir mörgum færum þjálfurum. Hann er að stíga sín fyrstu skref í þjálfun sem aðstoðarþjálfari KA og er mikilvægi hans sagt mjög stórt og mikið þegar kemur að góðum varnarleik liðsins.

KA-menn eru búnir að vera með svipaðar áherslur í varnarleiknum í dágóðan tíma og menn eru að verða betri og betri í því. Allir taka þátt í varnarleiknum og menn eru mjög samstíga.

Það er mikil áhersla lögð á varnarleikinn á æfingasvæðinu og er liðið drillað út frá alls konar aðstæðum sem geta skapast. Ef það er leikið á bakvörðinn og hann er úr leik, þá veit restin af varnarlínunni nákvæmlega hvernig þeir eiga að bregðast við til þess að það séu sem minnstar líkur á því að andstæðingurinn skori. Allir í liðinu vita hvernig á að bregðast við mismunandi aðstæðum sem geta skapast og því er erfitt að búa til færi og skora á liðið.

Þá verður ekkert tekið af Arnari Grétarssyni, aðalþjálfara liðsins, í þeim efnum heldur. Hann er virkilega góður í því að búa til sterka liðsheild og sér til þess að menn beri ábyrgð á sínum hlutverkum í liðinu.


Hallgrímur Jónasson.

KA er sem stendur í öðru sæti Bestu deildarinnar og er í baráttu um það að komast í Evrópukeppni á næsta ári. Liðið er mjög vel samsett og leikmenn með mikil gæði í því. Í hópnum er góð blanda út frá aldri og reynslu - mismunandi týpur af leikmönnum sem vinna vel saman.

„Mér líst bara nokkuð vel á þetta, við eigum báða heimaleikina eftir á móti Víking og Breiðablik sem er bara jákvætt því að stuðningurinn við okkur er búinn að vera magnaður í sumar og mun eflaust ýta okkur yfir strikið ef þess þarf á lokakaflanum."

„Annars er það bara einn leikur í einu og á sunnudaginn er það erfiður útivöllur í Garðabænum," segir Ívar en KA mætir Stjörnunni klukkan 19:15 í kvöld.

Það er næsta verkefni í vegferð KA að Evrópu að ári. Lykilatriði að því markmiði er sá sterki varnarleikur sem búið er að æfa og plana á Akureyri.

Fréttin var upphaflega birt klukkan 16:10 í dag.


Athugasemdir