Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
   fim 30. maí 2024 20:01
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Valur rúllaði yfir Stjörnuna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur 5 - 1 Stjarnan
1-0 Jónatan Ingi Jónsson ('35)
2-0 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('43)
3-0 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('54)
4-0 Patrick Pedersen ('70)
4-1 Örvar Eggertsson ('75)
5-1 Gísli Laxdal Unnarsson ('96)

Lestu um leikinn: Valur 5 -  1 Stjarnan

Valur tók á móti Stjörnunni í spennandi viðureign í Bestu deild karla þar sem bæði lið fengu góð færi til að skora á fyrsta hálftímanum en tókst ekki.

Klúður Stjörnumanna áttu eftir að kosta þá dýrt þegar heimamenn í Val skiptu um gír og tóku forystuna á Hlíðarenda. Jónatan Ingi Jónsson skoraði fyrst með skoti sem breytti um stefnu af varnarmanni, eftir frábæran undirbúning frá Kristni Frey Sigurðssyni, áður en Tryggvi Hrafn Haraldsson tvöfaldaði forystuna eftir hrikaleg mistök Jóhanns Árna Gunnarssonar.

Jóhann Árni missti boltann klaufalega á eigin vallarhelmingi eftir góða pressu frá Kristni Frey, sem kom boltanum á Tryggva Hrafn sem skoraði örugglega einn gegn markverði og gerði þar með sitt fyrsta deildarmark á tímabilinu.

Patrick Pedersen fékk dauðafæri til að bæta þriðja mark Vals við fyrir leikhlé en skalli hans fór yfir markið og var staðan 2-0 í hálfleik. Valsarar mættu inn í seinni hálfleikinn af krafti og bættu þriðja markinu við á 54. mínútu, þegar Tryggvi Hrafn skoraði eftir góðan undirbúning frá Adam Ægi Pálssyni og Jónatani Inga.

Patrick gerði út um viðureignina með fjórða marki Vals á 70. mínútu eftir fyrirgjöf frá Birki Má Sævarssyni en fimm mínútum síðar svöruðu Garðbæingar loks fyrir sig með marki. Örvar Eggertsson skoraði þá skrýtið mark eftir að Valsarar steinsofnuðu á verðinum, til að minnka muninn aftur niður í þrjú mörk.

Stjörnumenn gerðu sitt besta til að minnka muninn enn frekar en boltinn rataði ekki í netið þrátt fyrir góðar tilraunir. Það var í uppbótartíma sem heimamenn skoruðu fimmta markið sitt til að sigra viðureignina 5-1. Gísli Laxdal Unnarsson var þar á ferðinni og skoraði eftir laglegt innkast frá Lúkasi Loga Heimissyni, sem fær skráða stoðsendingu.

Lokatölur 5-1 og eru þetta skýr skilaboð sem Valur sendir í toppbaráttuna. Valsarar eiga 18 stig eftir 9 umferðir, þremur stigum á eftir toppliði Víkings R. sem á leik til góða gegn Breiðabliki í kvöld.

Stjarnan situr eftir í fjórða sæti með 13 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner