Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
   fim 30. maí 2024 14:30
Elvar Geir Magnússon
Fagioli: Veðmál tóku yfir líf mitt og ég missti stjórnina
Nicolo Fagioli.
Nicolo Fagioli.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Nicolo Fagioli, miðjumaður Juventus og ítalska landsliðsins, hefur veitt sitt fyrsta viðtal síðan hann lauk afplánun á sjö mánaða banni vegna brota á veðmálareglum.

Í einlægu viðtali við La Gazzetta dello Sport segist Fagioli hafa tapað miklu fé og hefði gert sér grein fyrir því að hann hefði misst stjórn á lífi sínu.

Í apríl 2023 gerði hann mistök sem leiddu til þess að Juventus fékk á sig mark gegn Sassuolo. Hann brotnaði niður og grét þegar hann var tekinn af velli nokkrum mínútum síðar.

„Þegar ég táraðist gegn Sassuolo var það vegna þess að ég hefði komið liðinu mínu í vandræði og allt var svo neikvætt. Það var allt svart. Ég gerði mistök innan vallarins en mestu mistökin voru innra með mér," segir Fagioli sem viðurkenndi nokkrum mánuðum síðar að vera með veðmálafíkn, hann veðjaði þó aldrei á leiki Juventus.

„Vandamálið var að ég hafði ekki lengur stjórn á mér. Veðmál höfðu tekið yfir líf mitt. Þetta var orðin þráhyggja. Martröð. Ég veit að ég er heppinn og margir á mínum aldri eru í dramatískari aðstæðum, ég er ekki að biðja um vorkunn. En ég vil heldur ekki vera hræsnari."

Fagioli segir sér hafi leiðst utan æfinga og því byrjað í fjárhættuspili.

„Í öllum vandamálum leitaði ég í veðmál og adrenalínsins sem því fylgir. Heimskulegt rifrildi eða slæm frammistaða gátu leitt til þess að ég fór og veðjaði. Í hvert sinn sem ég notaði helvítis símann þá leið mér eins og ég væri á vellinum. Ég skammaðist mín og ræddi ekki við neinn, ég missti stjórnina algjörlega í janúar 2023. Ég spilaði ekki vel og var jafnvel verri á æfingum," segir Fagioli. „Hugurinn var ekki á réttum stað. Miðpunktur lífs míns var veðmál, ekki fótboltinn."

Fagioli notaði ólöglega síðu til að veðja og gaf sig sjálfur fram eftir að formleg rannsókn hófst.

„Þessi hvirfilvindur neyddi mig til að taka ábyrgð sem fullorðinn einstaklingur. Ég fór í meðferð hjá sérfræðingi. Ég er að leita innra með mér til að finna ástæðurnar og skilja hvers vegna ég hafði ekkert til að veita tóminu og leiðindunum mótspyrnu. Ég vil segja öllum þeim sem eru í svipuðum vandamálum að þeir ættu ekki að óttast að leita sér hjálpar," segir Fagioli.

Brot hans voru rannsökuð á sama tíma og brot Sandro Tonali, miðjumanns Newcastle og ítalska landsliðsins. Tonali hefur ekki lokið afplánun á sínu banni.

„Það særði mig að blöðin lýstu mér og Tonali eins og tveimur djöflum. Ég hagræddi ekki ekki úrslitum, ég hafði ekki áhrif á úrslit. Ég gerði mistök, veðjaði á ólöglegum síðum og tapaði háum fjárhæðum. Ég fékk ógeð af sjálfum mér og leið eins og fábjáni en gat ekki tekist á við það."

Fagioli mætti aftur út á fótboltavöllinn í 3-3 jafnteflisleik gegn Bologna þann 20. maí. Hann hefur verið valinn í undirbúningshóp Ítalíu fyrir EM 2024.
Athugasemdir
banner