Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   lau 01. júní 2024 19:51
Brynjar Ingi Erluson
Hálfleikur: Hvernig er Dortmund ekki yfir?
Adeyemi fékk dauðafæri eftir rúmar tuttugu mínútur
Adeyemi fékk dauðafæri eftir rúmar tuttugu mínútur
Mynd: Getty Images
Gregor Kobel, markvörður Dortmund, sótti gult á Vinicius
Gregor Kobel, markvörður Dortmund, sótti gult á Vinicius
Mynd: Getty Images
Borussia D. 0 - 0 Real Madrid

Búið er að flauta til loka fyrri hálfleiks í leik Borussia Dortmund og Real Madrid í úrslitum Meistaradeildar Evrópu en staðan er markalaus. Það er eiginlega með ólíkindum að Dortmund hafi ekki skorað í leiknum.

Dortmund hefur verið mun líflegra liðið af þessum tveimur. Karim Adeyemi kom sér í færi aldarinnar þegar Marcel Sabitzer sendi hann aleinan í gegn eftir rúmar tuttugu mínútur.

Þýski vængmaðurinn fór á taugum er hann sá belgíska risann Thibaut Courtois. Markvörðurinn vísaði honum til hliðar og rann færið út í sandinn.

Aðeins mínútu síðar átti Niklas Füllkrug skot í stöngina eftir sendingu Adeyemi. Markið hefði líklega ekki staðið því af endursýningunni að dæma var hann rétt fyrir innan.

Adeyemi var fljótur að gleyma klúðrinu og hélt áfram að gera varnarmönnum Madrídinga lífið leitt. Fullur sjálfstrausts keyrði hann upp vinstri vænginn og inn í teiginn, en Courtois sá við skoti hans áður en Füllkrug reyndi að stanga frákastinu í átt að marki, en náði ekki að stýra boltanum á markið.

Eftir 34 mínútna leik fékk Vinicius Junior, stjörnuleikmaður Madrídinga, gula spjaldið fyrir að renna sér inn í Gregor Kobel, markvörður Dortmund. Klókur Kobel fleygði sér í grasið og sá til þess að Vinicius fengi gula spjaldið.

Sabitzer, sem er að eiga góðan leik á miðsvæðinu, átti hörkuskot af 25 metra færi á 41. mínútu. Boltinn var á leið alveg upp við stöng en Courtois var fljótur að fleygja sér í vörsluna.

Dómarinn Slavko Vincic var full spjaldaglaður í lok hálfleiksins. Nico Schlotterbeck og Sabitzer fengu gula spjaldið fyrir að mótmæla broti, en hann hefði líklega getað sleppt því að gefa þessi spjöld.

Staðan markalaus í hálfleik og geta leikmenn Real Madrid prísað sig sæla að vera ekki undir í þessum leik.


Athugasemdir
banner
banner
banner