Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   lau 01. júní 2024 18:02
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Sjötta tap KA kom gegn ÍA
Skagamenn eru komnir upp í 5. sæti deildarinnar
Skagamenn eru komnir upp í 5. sæti deildarinnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ívar Örn Árnason skoraði með skalla
Ívar Örn Árnason skoraði með skalla
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sæti Hallgríms Jónassonar er að hitna
Sæti Hallgríms Jónassonar er að hitna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA 2 - 3 ÍA
1-0 Bjarni Aðalsteinsson ('14 )
1-1 Hinrik Harðarson ('16 )
1-2 Ingi Þór Sigurðsson ('22 )
2-2 Ívar Örn Árnason ('36 )
2-3 Arnór Smárason ('42 , víti)
Lestu um leikinn

ÍA kom sér upp í 5. sæti Bestu deildar karla með 3-2 sigri sínum á KA í 9. umferð deildarinnar á Greifavelli á Akureyri í dag.

Akureyringar hafa ekki byrjað tímabilið eins og þeir höfðu vonast eftir. Aðeins einn sigur úr átta leikjum á meðan nýliðar ÍA hafa gert ágætis hluti í endurkomu sinni í deildina.

KA-menn byrjuðu leikinn mjög vel. Sóknarleikurinn var öflugur fyrstu mínúturnar.

Það gekk vel að sækja upp hægri vænginn, spilið til fyrirmyndar, en vantaði úrslitasendinguna.

Heimamenn fengu gjöf á 14. mínútu leiksins er Skagamenn töpuðu boltanum klaufalega fyrir utan eigin vítateig. Rodrigo Gomes Mateo fékk boltann, setti hann á Svein Margeir Hauksson sem framlengdi út hægra megin á BJarna Aðalsteinsson sem skaut þéttingsföstu skoti á milli lappa Árna Marinós Einarssonar og í netið. Fyrsta skot KA á markið.

Forysta þeirra varði ekki lengi. Það kom langur bolti í átt að teignum. Engin hætta var í kringum Hrannar Björn Steingrímsson sem skallaði boltann fyrir eigið mark og á Hinrik Harðarson sem átti ekki í vandræðum með að afgreiða boltann í netið.

Nokkrum mínútum síðar komust Skagamenn í forystu. Jón Gísli Eyland Gíslason var með boltann á hægri vængnum, rann til, en var fljótur á lappir. Hann kom síðan boltanum fyrir á Steinar Þorsteinsson sem fann Inga Þór Sigurðsson rétt fyrir utan teiginn.

Ingi Þór smurði boltann efst upp í vinstra hornið. Glæsilegt mark hjá honum.

Á 29. mínútu vildu heimamenn fá vítaspyrnu er Jón Gísli sparkaði Birgi Baldvinsson niður í teignum. Þeir höfðu eitthvað til síns máls en í endursýningunni sást augljós snerting í atvikinu.

Átta mínútum síðar jöfnuðu KA-menn. Daníel Hafsteinsson með flotta hornspyrnu inn á miðjan teiginn og á Ívar Örn Árnason sem skallaði boltann í fjærhornið.

Þegar um fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma í fyrri hálfleik fengu Skagamenn vítaspyrnu. Erik Tobias Sandberg var sparkaður niður í teignum og var Elías Ingi Árnason ekki lengi að benda á punktinn.

KA-menn eflaust vel sviknir enda var þetta keimlíkt atvikinu sem átti sér stað á hinum enda vallarins.

Arnór Smárason, fyrirliði Skagamanna, fór á punktinn og skoraði af öryggi í hægra hornið. Fleira markvert gerðist ekki í annars fjörugum fyrri hálfleik.

Byrjun síðari hálfleiks einkenndist af mikilli baráttu og liðin ekki að skapa sér neitt af viti. Leikur

KA-menn komust í hraða skyndisókn á 58. mínútu leiksins er Daníel keyrði fram. Hann reyndi að leika á Oliver Stefánsson og vildi fá dæmda hendi, en fékk ekki. Virtist vera með hendur upp við líkama í þessu tilviki.

Varamaðurinn Viðar Örn Kjartansson kom sér í frábært færi á 70. mínútu. Hann fékk boltann inn fyrir, en fyrsta snertingin var slæm og missti hann boltann til Árna í markinu.

Skagamenn fengu dauðafæri til að gera út um leikinn á 75. mínútu. Jón Gísli stal boltanum í miðjum teig KA, lagði hann fyrir Hinrik en skot hans yfir markið. Illa farið með gott færi.

Heimamenn reyndu að þrýsta Skagamönnum aftar á völlinn síðustu mínúturnar. Þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma var KA nálægt því að gera jöfnunarmark, en á einhvern ótrúlegan hátt var boltanum skóflað af Skagamanni og yfir markið, en engin hornspyrna dæmd. Undarlegt allt saman.

Ármann Ingi Finnbogason fékk gullið tækifæri í næstu sókn þegar hann fékk boltann í miðjum teignum, en stýrði boltanum yfir markið.

Færin voru á báða bóga síðustu mínúturnar. Næst átti Hallgrímur Mar Steingrímsson gæðasendingu frá hægri vængnum og inn á Daníel sem var kominn í frábært færi, en náði ekki að halda boltanum niðri og flaug boltinn því yfir markið.

KA átti nokkrar tilraunir í uppbótartímanum en náðu ekki að skila boltanum í netið.

Lokatölur 3-2 fyrir ÍA sem fer upp í 5. sæti deildarinnar með 13 stig en KA, sem var að tapa sjötta deildarleik sínum, er í næst neðsta sæti með 5 stig.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 12 8 3 1 28 - 13 +15 27
2.    Valur 12 7 4 1 30 - 15 +15 25
3.    Breiðablik 11 8 1 2 26 - 13 +13 25
4.    ÍA 10 5 1 4 20 - 14 +6 16
5.    Stjarnan 12 5 1 6 24 - 24 0 16
6.    FH 10 4 2 4 18 - 20 -2 14
7.    Fram 10 3 4 3 13 - 14 -1 13
8.    HK 11 4 1 6 14 - 21 -7 13
9.    KR 11 3 3 5 20 - 22 -2 12
10.    Vestri 11 3 1 7 14 - 28 -14 10
11.    Fylkir 10 2 1 7 15 - 27 -12 7
12.    KA 10 1 2 7 14 - 25 -11 5
Athugasemdir
banner
banner