Þurfum að vera miklu öruggari og með hærra sjálfstraust
„Mjög vel, mjög spenntur fyrir leiknum og tími fyrir okkur að sýna hvað við getum. Við þurfum að vera miklu öruggari og vera með hærra sjálfstraust en í síðasta leik. Við vorum hræddir fannst mér einhvern veginn, vildi enginn vera með boltann eða fá boltann í svæði undir pressu. Því þurfum við að breyta," sagði Birnir Snær Ingason, leikmaður Víkings, við Fótbolta.net í dag.
Framundan er seinni leikur liðsins gegn Riga í forkeppni Sambandsdeildinni. Lettneska liðið leiðir 2-0 eftir fyrri leikinn.
Framundan er seinni leikur liðsins gegn Riga í forkeppni Sambandsdeildinni. Lettneska liðið leiðir 2-0 eftir fyrri leikinn.
Það vakti athygli að Birnir var ekki í byrjunarliðinu í fyrri leiknum.
„Ég var himinlifandi... Nei, auðvitað er maður ekki sáttur en ég skildi ástæðuna og ég sá alveg hvað við vorum að leggja upp með. Í byrjun ertu alveg brjálaður en svo ferðu að hugsa aðeins út í þetta, þá hugsaru um að koma inn á með krafti."
Arnar valdi annan kost í stað Birnis og sagði varnarhliðina hafa verið ástæðuna fyrir valinu. Er Birnir ekki nægilega góður varnarmaður?
„Ég er frábær varnarmaður, enda í bakverðinum þegar ég er orðinn eldri," sagði Birnir og leit á Loga Tómasson við hlið sér.
Birnir hefur verið einn allra besti leikmaður Íslandsmótsins til þessa. „Það hefur gengið vel, það er stutt á milli í fótbolta. Ef þú ert með sjálfstraustið í botni þá getur allt gerst. Það sem mér fannst mikilvægt fyrir mig var að koma inn mörkum nokkra leiki í röð. Þá fer sjálfstraustið í botn og þá byrjar boltinn að rúlla," sagði Birnir.
Í lok viðtals, sem sjá má í heild sinni í spilaranum efst, ræðir Birnir um samningsmál sín.
Leikurinn á morgun hefst klukkan 18:45 og verður hann í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Athugasemdir