Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
   fim 30. maí 2024 17:00
Elvar Geir Magnússon
Kompany: Hef lifað á stærsta sviðinu nær allan ferilinn
Kompany á fréttamannafundinum í morgun.
Kompany á fréttamannafundinum í morgun.
Mynd: Bayern München
Kompany við undurritunina.
Kompany við undurritunina.
Mynd: Bayern München
Kompany í landsleik með Belgíu á Laugardalsvelli.
Kompany í landsleik með Belgíu á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Vincent Kompany skrifaði í gær undir þriggja ára samning sem stjóri Bayern München. Hann lætur af störfum hjá Burnley eftir að félögin komust að samkomulagi um bótagreiðslur upp á 10 milljónir punda.

„Fyrstu kynni hafa verið mjög góð, ég hef hitt marga vingjarnlega enstaklinga. Ég veit hversu stórt félag Bayern München er. Ég er mjög stoltur og spenntur. Ég væri til í að tímabilið myndi byrja í dag," sagði Kompany á fréttamannafundi í dag.

„Ég hef lifað á stærsta sviði fótboltans megnið af mínum ferli. Ég hef verið í þessum klefum. Þú ert alltaf að aðlagast fólkinu sem þú ert að tala við. Í grunninn vita allir hvernig við viljum nálgast tímabilið og okkar hlutverk."

Kompany var alls ekki fyrstur á blaði hjá Bayern en Xabi Alonso stjóri Bayer Leverkusen, Julian Nagelsmann landsliðsþjálfari Þýskalands, Zinedine Zidane fyrrum stjóri Real Madrid og Ralf Rangnick landsliðsþjálfari Austurríki höfðu allir hafnað félaginu. Þá reyndi félagið árangurslaust að fá Tuchel til að halda áfram.

„Stjóraleitin hjá Bayern München er ekki eitthvað sem ég hef hugsað um. Þegar ég var stjóri Burnley hafði ég ekki tíma til að hugsa um neitt annað. Þegar ég fékk símtalið var ég ekki búinn að plana neitt, ég hafði ekki hugsað um að skipta um starf en ég vil glaður ræða við fólk og er ánægður með að vera kominn hingað," segir Kompany.

Ráðningin hefur komið mörgum á óvart en Kompany féll með Burnley á liðnu tímabili í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég er persóna sem held hlutunum fyrir mig en þið gerið ráð fyrir að Bayern München hafi verið eina félagið sem hafði samband við mig. Fyrsta símtalið sem ég fékk kom mér á óvart en það var ekki frá Bayern München."

Leroy Sane, leikmaður Bayern München, er fyrrum liðsfélagi Kompany en þeir spiluðu saman hjá Manchester City.

„Við áttum ótrúlega tíma saman hjá Manchester City. Hjá City var ég aðeins meira en bara fyrirliði. Hann er hæfileikaríkur leikmaður og mitt starf er að ná því besta út úr honum og öðrum leikmönnum."

Er markmið hans að vinna Meistaradeildina með Bayern?

„Markmiðið í mínum huga er mjög einfalt, ég vil vinna hvern einasta leik. Úrslitaleikurinn verður í München á næsta ári. Meistaradeildin er sífellt að verða mikilvægari. Við komumst ekki í úrslitaleikinn bara með því að tala um það. Við þurfum að leggja á okkur vinnu, æfa vel og þróa leik okkar."
Athugasemdir
banner
banner
banner