Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
banner
   fös 31. maí 2024 21:10
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Mögnuð endurkoma Fram í Krikanum
Haraldur Einar Ásgrímsson var stórkostlegur fyrir Framara
Haraldur Einar Ásgrímsson var stórkostlegur fyrir Framara
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framarar skoruðu tvö eftir að Böðvar var rekinn af velli
Framarar skoruðu tvö eftir að Böðvar var rekinn af velli
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH 3 - 3 Fram
1-0 Úlfur Ágúst Björnsson ('22 , víti)
2-0 Vuk Oskar Dimitrijevic ('43 )
3-0 Sigurður Bjartur Hallsson ('59 )
3-1 Alex Freyr Elísson ('63 )
3-2 Haraldur Einar Ásgrímsson ('80 )
3-3 Kyle Douglas Mc Lagan ('86 )
Rautt spjald: Böðvar Böðvarsson, FH ('79) Lestu um leikinn

Fram náði á ótrúlegan hátt að bjarga stigi í 3-3 jafntefli gegn FH í 9. umferð Bestu deildar karla í Kaplakrika í kvöld, en liðið var þremur mörkum undir þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum.

Heimamenn voru með sanngjarna 2-0 forystu þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Úlfur Ágúst Björnsson skoraði úr vítaspyrnu á 22. mínútu eftir að Guðmundur Magnússon braut á Ísaki Óla Ólafssyni í teignum og tvöfaldaði Vuk Oskar Dimitrijevic forystuna á markamínútunni með skalla eftir laglega fyrirgjöf Kjartans Kára Halldórssonar.

Framarar fengu sárafá færi í fyrri hálfleiknum en áttu eftir að bæta upp fyrir það í síðari hálfleik.

FH-ingar héldu áfram að skapa sér færin í þeim síðari. Böðvar Böðvarsson átti þrumuskot rétt framhjá markinu af 30 metra færi áður en Sigurður Bjartur Hallsson gerði þriðja markið.

Sigurður fékk sendingu vinstra megin, keyrði að teignum áður en hann skoraði með snyrtilegri afgreiðslu.

Framarar náðu aðeins að sækja í sig veðrið. Viktor Bjarki Daðason átti skalla sem Ísak Óli bjargaði á línu áður en Alex Freyr Elísson minnkaði muninn mínútu síðar.

Alex Freyr skoraði með glæsilegu þrumuskoti í samskeytin nær og gaf það gestunum von.

Þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka fækkaði í liði FH þegar Böðvar braut á Tryggva Snæ Geirssyni rétt fyrir utan teig. Böðvar fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Haraldur Einar Ásgrímsson tók spyrnuna og setti hann örugglega í markmannshornið. Glæsilegt mark en Framarar höfðu ekki sagt sitt síðasta.

Aftur fengu gestirnir aukaspyrnu og í þetta sinn í góðri fyrirgjafastöðu. Haraldur tók spyrnuna inn í teiginn. Boltinn datt einhvern veginn fyrir Kyle McLagan sem skoraði. Ótrúleg endurkoma fullkomnuð.

Fleiri urðu mörkin ekki í Krikanum og lokatölur því 3-3 í stórskemmtilegum leik. FH-ingar svekktir að hafa glutrað niður forystunni en Framarar sýndu karakter og mun þetta efla liðið gríðarlega í framhaldinu.

FH-ingar fara upp í 4. sæti deildarinnar með 14 stig en Fram er í 6. sæti með 13 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner