Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   lau 01. júní 2024 20:57
Brynjar Ingi Erluson
Real Madrid Evrópumeistari í fimmtánda sinn
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Karim Adeyemi fór á taugum í algeru dauðafæri
Karim Adeyemi fór á taugum í algeru dauðafæri
Mynd: Getty Images
VInicius Jr kláraði færi sitt af mikilli yfirvegun
VInicius Jr kláraði færi sitt af mikilli yfirvegun
Mynd: Getty Images
Toni Kroos með stoðsendingu í lokaleik sínum með Madrídingum
Toni Kroos með stoðsendingu í lokaleik sínum með Madrídingum
Mynd: Getty Images
Borussia D. 0 - 2 Real Madrid
0-1 Daniel Carvajal ('74 )
0-2 Vinicius Junior ('83 )

Real Madrid varð í kvöld Evrópumeistari í fimmtánda sinn í sögu félagsins er það vann Borussia Dortmund, 2-0, á Wembley í Lundúnum.

Hálfleikarnir tveir voru kaflaskiptir. Dortmund var með öll tök á fyrri hálfleiknum.

Tuttugu sekúndum eftir að flautað var til leiks komust þrír áhorfendur inn á völlinn. Þeir fóru beint í það að taka myndir af sér með leikmönnum Real Madrid áður en þeim var kastað af velli. Gæslan fljót að fá falleinkunn.

Dortmund fékk færin til að skora tvö eða jafnvel þrjú mörk en enginn fékk betra færi en Karim Adeyemi sem slapp einn í gegn eftir sendingu Marcel Sabitzer en fór á taugum gegn Thibaut Courtois og rann færið út í sandinn.

Niclas Füllkrug átti stangarskot skömmu síðar er hann fékk sendingu inn fyrir vörn Madrídinga. Hársbreidd frá því en ef hann hefði skorað þá hefði markið líklega ekki staðið þar sem hann virtist rétt fyrir innan.

Sabitzer átti hörkuskot sem Courtois þurfti að hafa sig allan í að verja undir lok hálfleiksins. Ótrúlegt að Dortmund hafi ekki skorað en Madrídingar stilltu saman strengi í hálfleik og komu öflugir inn í síðari hálfleikinn.

Toni Kroos átti stórhættulega tilraun úr aukaspyrnu snemma en Gregor Kobel varði frábærlega aftur fyrir endamörk. Þá átti Nacho skalla rétt yfir markið úr hornspyrnu.

Vinicius Junior og Rodrygo voru farnir að leika sér á vængjunum og sköpuðu hættu en vantaði oft upp á að ná að koma boltanum á samherja.

Dortmund náði að ógna eftir rúman klukkutíma er Adeyemi átti fína fyrirgjöf á Füllkrug sem þrumuskallaði boltanum í átt að marki. Courtois tók enga sénsa og kýldi boltann út.

Þegar 74 mínútur voru komnar á klukkuna kom fyrsta mark Madrídinga. Kroos með hornspyrnuna á nær og þar var einn af minnstu mönnum vallarins, Dani Carvajal, mættur í rétt svæði til að stanga hann í netið.

Eftir þetta varð leikurinn alger einstefna. Madrídinga fengu urmul af færum til að skora fleiri og á endanum kom annað markið. Jude Bellingham fékk gjöf frá Ian Maatsen og lagði boltann á Vinicius Junior í teignum, sem sparkaði boltanum ofan í grasið þannig hann skoppaði yfir vinstri höndina á Kobel og í netið.

Leiknum í raun lokið eftir þetta mark. Kroos, sem var að spila sinn síðasta leik í treyju Real Madrid, fékk heiðursskiptingu á 85. mínútu leiksins og inn kom króatíski reynsluboltinn Luka Modric. Magnaður ferill hjá Kroos sem mun klára Evrópumótið með Þjóðverjum áður en hann leggur skóna á hilluna.

Füllkrug kom boltanum í netið nokkrum mínútum eftir þetta en var réttilega dæmdur rangstæður. Hefði gefið þessum leik

Real Madrid fagnaði fimmtánda Evrópumeistaratitli sínum og bætir forskot sitt á önnur félög. Ekkert lið hefur unnið Meistaradeildina oftar en Madrídingar. Leikmenn Dortmund geta verið svekktir með að hafa ekki klárað færin gegn langreyndasta liði keppninnar.


Athugasemdir
banner
banner
banner