mið 12.apr 2017 12:45 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
„Var ákveðinn í að flytja í burtu frá Íslandi“
Pape Mamadou Faye, framherji Víkings Ólafsvíkur, hefur oft orðið fyrir kynþáttafordómum á fótboltaferli sínum. Pape spilaði í yngri flokkunum á Íslandi og hefur frá árinu 2009 spilað með meistaraflokki. Hér er saga Pape Mamadou Faye.
,,Ég mætti þó eina æfingu hjá Val og þar varð ég fyrir rasisma í fyrsta skipti á Íslandi. Þjálfarinn fílaði ekki dökka stráka og hann var algjör fáviti.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Móðir mín hefur hjálpað mér mikið og hún er sterk kona sem ég tek til fyrirmyndar. Hún hefur alltaf verið dugleg að hvetja mig áfram en aðrir höfðu kannski ekki sama stuðning.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Í öðrum leik á Ísafirði voru foreldrar í brekkunni sem kölluðu mig negra. Það voru engir foreldrar með okkur í leiknum og þetta var það versta sem ég hef þurft að þola.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Fylkir ól mig upp og það sem félagið gerði fyrir mig var magnað. Öll þessi ár þurfti ég ekki að greiða æfingagjöld og það er eitthvað sem ég gleymi aldrei.
Mynd/Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
,,Mér datt aldrei í hug að ég yrði rekinn frá Fylki. Þessir menn sem voru í stjórninni þarna hefðu átt að meðhöndla þetta mál betur og fatta hvað ég var ungur á þessum tíma.
Mynd/Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
,,Ef það hefði einhver annar náungi lent í þessu atviki sem ég lenti í þá hefði þetta ekki vakið svona mikla athygli. Af því að ég er öðruvísi þá grípur fólkið tækifærið og ég lenti í aðkasti úti á götu.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég verð ennþá fyrir rasisma í leikjum í dag. Það er alltaf verið að reyna að pirra mig eitthvað í von um að ég missi stjórn á mér. Ég hef aldrei stigið fram eftir leik og farið að væla eitthvað.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég hef aldrei misst stjórn á mér. Ég hef aldrei reynt að kýla einhvern á vellinum eða eitthvað svoleiðis. Ég hugsa alltaf fyrst um liðið.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Maður verður að vera þolinmóður og það er margt sem maður þarf að þola. Ég var sterkur. Ef maður hættir þá er maður að gera það sem fólk vill að maður geri.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég hef alltaf viljað verða fyrsti dökki gæinn til að spila fyrir íslenska landsliðið.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Maður lenti í því að strákar reyndu að gera mig reiðan með því að kalla mig negra á vellinum. Það stoppaði mig aldrei í að gera það sem ég hafði gaman af."
Ég hafði spilað fótbolta í Senegal en ég byrjaði ekki strax að æfa á Íslandi. Ég mætti þó eina æfingu hjá Val og þar varð ég fyrir rasisma í fyrsta skipti á Íslandi. Þjálfarinn fílaði ekki dökka stráka og hann var algjör fáviti. Hann vildi ekki hafa mig í sínu liði. Ég veit ekkert hvað þessi þjálfari heitir og hef ekki hugmynd um hver þetta er í dag. Ég skildi ekki mikið í íslensku á þessum tíma en hann sýndi mér að hann fílaði mig ekki og hafði engan áhuga á að hafa mig á æfingu. Ef fyrsta æfingin hefði gengið vel hefði ég örugglega haldið áfram í fótbolta í Val eins og ég gerði í körfunni fram á unglingsár. Ég flutti í Árbæ nokkrum mánuðum eftir að ég kom til Íslands og byrjaði að æfa fótbolta með Fylki. Ég var fyrst markvörður en ég byrjaði að spila á vinstri kanti í D-liði. Ég vann mig svo upp og um haustið spilaði ég með A-liði í undanúrslitum á Íslandsmótinu uppi á Akranesi.
Fékk morðhótun í 4. flokki
Í 4. flokki fór ég að finna fyrir rasisma hjá andstæðingum og áhorfendum. Maður lenti í því að strákar reyndu að gera mig reiðan með því að kalla mig negra á vellinum. Það stoppaði mig aldrei í að gera það sem ég hafði gaman af. Leikmenn hafa aldrei náð að brjóta mig niður þó að þeir hafi sagt eitthvað við mig. Það fer meira í taugarnar á mér það sem maður heyrir á hliðarlínunni.
„Tveir lögreglubílar mættu á leikinn til að fylgjast með og það róaði mig aðeins þó að þetta hafi auðvitað truflað mig í leiknum."
Ég man sérstaklega vel eftir einum leik á Fjölnisvelli í 4. flokki. Það var rígur á milli liða í þessum flokki eftir að Guðlaugur Victor Pálsson skipti yfir til okkar og foreldrarnir í Fjölni voru duglegir í að reyna að brjóta mig og Gulla niður. Kári Jónasson, þjálfari okkar, og foreldrar Gulla voru nálægt því að hjóla í foreldrana hjá Fjölni. Þeir voru að segja hluti sem foreldrar eiga ekki að segja. Í öðrum leik á Ísafirði voru foreldrar í brekkunni sem kölluðu mig negra. Það voru engir foreldrar með okkur í leiknum og þetta var það versta sem ég hef þurft að þola. Þetta gerði mig samt bara sterkari og hvatti mig í raun áfram. Sama sumar spiluðum við í úrslitakeppninni í 4. flokki. Á leikdegi var ég að taka strætó heim úr skólanum þegar ég fékk símtal úr leyninúmeri frá einhverjum sem virtist vera allavega sjö árum eldri en ég. Ég veit ekki hvort að hann hafi verið að reyna að hræða mig eða reyna að vera fyndinn. Hann hótaði mér og sagði: „Helvítis negri, þegar við sjáum þig fyrir leik þá drepum við þig.“ Ég sagði þjálfaranum frá þessu og hann hringdi í KSÍ. Tveir lögreglubílar mættu á leikinn til að fylgjast með og það róaði mig aðeins þó að þetta hafi auðvitað truflað mig í leiknum. Þarna mættust tvö bestu liðin á landinu. Við höfðum unnið andstæðingana fyrr um sumarið 4-1 en við töpuðum 4-3 í úrslitakeppninni. Þetta símtal hafði klárlega áhrif í leiknum. Það kom hins vegar aldrei í ljós hver það var sem hringdi.
Borgaði aldrei æfingagjöld
Fylkir ól mig upp og það sem félagið gerði fyrir mig var magnað. Öll þessi ár þurfti ég ekki að greiða æfingagjöld og það er eitthvað sem ég gleymi aldrei. Lífið var erfitt fyrir foreldra mína og þetta var ákvörðun hjá Fylki að hafa mig í félaginu og ala mig upp. Ég mátti aldrei tala um þetta því að þetta var ekki sanngjarnt gagnvart hinum strákunum. Þetta er hins vegar stór ástæða fyrir því að ég mun alltaf virða Fylki. Þessi klúbbur er stór partur af mér og ég gæti aldrei fagnað marki á móti þeim. Ég var mjög bitur og sár eftir viðskilnaðinn við félagið árið 2010 en ég sé lífið allt öðruvísi í dag en á þessum tíma. Ég var rekinn frá Fylki út af skómáli sem var mikið fjallað um í fjölmiðlum á sínum tíma.
„Þetta var mjög erfitt og ég var ákveðinn í að flytja í burtu frá Íslandi."
Hjá Fylki fengum við skóbeiðnir til að fá fría takkaskó. Samherji minn var í langan tíma búinn að vera með skóbeiðni í hillunni sinni í klefanum og ég hugsaði með mér að hann þyrfti ekki að fá skó því hann átti tvö pör. Þess vegna stal ég skóbeiðninni af honum. Besti vinur minn á þessum tíma þurfti á takkaskóm að halda. Hann lét mig fá tíu þúsund kall og ég lét hann fá beiðni upp á skó sem kostuðu 50 þúsund kall. Þetta var greiði við hann. Vinur minn fór síðan niður í Jóa Útherja og ætlaði að þykjast vera leikmaður Fylkis og fá skó. Þannig komst þetta upp. Ég hringdi strax í formann Fylkis og baðst innilega afsökunar. Mér datt aldrei í hug að ég yrði rekinn frá Fylki. Þessir menn sem voru í stjórninni þarna hefðu átt að meðhöndla þetta mál betur og fatta hvað ég var ungur á þessum tíma.
Ætlaði að flýja Ísland eftir skómálið
Þegar ég vaknaði daginn eftir að hafa verið rekinn, var þetta í öllum fjölmiðlum og síminn hætti ekki að hringja. Ég var miður mín og þorði ekki að fara út úr húsi í viku. Viku síðar fór ég á djammið og lenti í því að eitthvað fífl fór að stríða mér. Þá byrjaði ég að hágráta. Ég fór á annan stað og þá kom einhver annar náungi sem ég réðst næstum því á. Ég fékk nóg. Þetta var mjög erfitt og ég var ákveðinn í að flytja í burtu frá Íslandi. Ef það hefði einhver annar náungi lent í þessu atviki sem ég lenti í þá hefði þetta ekki vakið svona mikla athygli. Af því að ég er öðruvísi þá grípur fólkið tækifærið og ég lenti í aðkasti úti á götu. Fólk sem ég þekkti ekkert kom að mér til að reyna að brjóta mig niður, kallaði mig svikara og aumingja og var líka með rasisma. Ég ætlaði að vera sterkur í gegnum þetta en þetta varð alltaf erfiðara og erfiðara. Það var erfitt að sjá hvað móðir mín og ættingjar þurftu að ganga í gegnum eftir að þetta gerðist. Ég var ekki bara dæmdur heldur voru allir dökkir menn dæmdir. Ég hataði sjálfan mig í einhvern tíma eftir og fannst að ég ætti að gera betur. Ég er búinn að átta mig betur á stöðunni sem ég er í núna. Ég er fordæmi fyrir aðra og það hvetur mig áfram.
„Hann getur verið töffari inni á vellinum en ef ég hitti hann niðri í bæ þá getur hann ekki horft í augun á mér. Ég hef alltaf undirbúið sérstaklega vel þegar ég mæti honum og ég ætla ekki að eiga lélega leiki á móti þessum fávita."
Ég verð ennþá fyrir rasisma í leikjum í dag. Það er alltaf verið að reyna að pirra mig eitthvað í von um að ég missi stjórn á mér. Ég hef aldrei stigið fram eftir leik og farið að væla eitthvað. Ég veit að þessir menn eru að brjóta mann niður og reyna að fá mann til að missa stjórn á sér. Ég hef aldrei misst stjórn á mér. Ég hef aldrei reynt að kýla einhvern á vellinum eða eitthvað svoleiðis. Ég hugsa alltaf fyrst um liðið.
Það er einn leikmaður sem spilaði lengi í Pepsi-deildinni sem hefur verið mjög duglegur þegar kemur að svona málum. Hann hefur sagt mikið inni á fótboltavellinum og hann er duglegur við að vera fáviti á vellinum þegar dómararnir eru ekki nálægt. Þessi gæi er miklu eldri en ég og ég gæti aldrei ímyndað mér að vera liðsfélagi hans. Hann getur verið töffari inni á vellinum en ef ég hitti hann niðri í bæ þá getur hann ekki horft í augun á mér. Ég hef alltaf undirbúið sérstaklega vel þegar ég mæti honum og ég ætla ekki að eiga lélega leiki á móti þessum fávita. Það særir mann stundum þegar það er talað vel um þennan mann í Pepsi-mörkunum og menn þar eru að segja að hann sé fagmaður.
Lendir í rasisma í bænum
Rasisminn er úti um allt á Íslandi. Maður lendir líka í þessu í miðbæ Reykjavíkur og getur ekkert gert í því. Það er margt sem maður hefur þurft að þola. Það eru til dæmis margir Íslendingar sem þola ekki að sjá svartan mann labba með íslenskri konu. Stundum labba menn upp að stelpu og segja: „Hvað ertu að gera með þessum negra?“ Einu sinni var ég líka á leið heim úr bænum með stelpu sem ég var að hitta þegar maður kom og sagði við hana: „Hvað ertu að gera með þessum fokking apa?“ Þessir aðilar búast ekki við að svarti maðurinn tali íslensku og þeir eru að drulla yfir stelpuna. Þegar þeir fatta að ég tala íslensku þá flýja þeir í burtu. Þetta er ekki bara leiðinlegt fyrir mig heldur líka fyrir stelpuna.
Draumurinn að spila fyrir íslenska landsliðið
Það er misjafnt hvernig fólk tekur rasisma og hversu sterkir menn eru. Í Austurbæjarskóla var ég með útlendingum sem voru góðir í íþróttum og ég var ekkert endilega betri en þeir. Sumir þeirra gáfust hins vegar upp út af rasisma. Maður verður að vera þolinmóður og það er margt sem maður þarf að þola. Ég var sterkur. Ef maður hættir þá er maður að gera það sem fólk vill að maður geri. Móðir mín hefur hjálpað mér mikið og hún er sterk kona sem ég tek til fyrirmyndar. Hún hefur alltaf verið dugleg að hvetja mig áfram en aðrir höfðu kannski ekki sama stuðning.
Mömmu minni og ættingjum mínum í Senegal dreymir um að sjá mig spila með landsliðinu þar einn daginn. Ég sagði fyrir nokkrum árum að ég væri búinn að ákveða að spila fyrir íslenska landsliðið en ef ég fæ ekki tækifærið og kallið kemur frá Senegal þá myndi ég auðvitað þiggja það. Ég er 100% Senegali en ég ólst samt upp á Íslandi. Ég held jafnmikið með Íslandi og Senegal en ég vil spila með íslenska landsliðinu þar sem að ég tel að það myndi hjálpa gegn fordómum. Ég hef alltaf viljað verða fyrsti dökki gæinn til að spila fyrir íslenska landsliðið. Ég tel að það myndi gefa mjög gott fordæmi. Það er draumur minn."
Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net - 12. sæti: Víkingur Ó.
Ejub: Spyr stundum hvort það sé í lagi með þetta fólk?
Hin hliðin - Egill Jónsson