mið 12.apr 2017 12:00 Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski |
|
Spá Fótbolta.net - 12. sæti: Víkingur Ó.
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að Víkingur Ólafsvík falli úr Pepsi-deildinni í sumar. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Víkingur Ólafsvík endar í 12. sæti ef spáin rætist.
Markvörðurinn Cristian Martínez var valinn leikmaður ársins hjá Ólsurum í fyrra.
Mynd/Fótbolti.net - J.L.
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10.?
11. ?
12. Víkingur Ólafsvík 10 stig
Um liðið: Víkingur Ólafsvík hélt sæti sínu í Pepsi-deildinni á ævintýralegan hátt í fyrra. Ólsarar voru í toppbaráttunni lengi framan af móti en eftir sigur á Þrótti í 9. umferð þá lauk partýinu skyndilega. Víkingur náði ekki sigri í síðustu þrettán leikjunum en náði samt að sigrast á falldraugnum með naumindum.
Þjálfari - Ejub Purisevic: Hefur stýrt liðinu frá 2003, fyrir utan eitt ár. Árið sem Ejub tók sér frí þá féll Víkingur niður í 2. deild. Ejub spilaði með Ólafsvíkingum á sínum tíma og erfitt að er að færa í orð hversu miklu hann hefur breytt hjá félaginu. Á tíma hans í Ólafsvík hefur Víkingur farið úr neðstu deild upp í þá efstu. Ejub hefur alltaf náð því allra besta út úr leikmannahópnum hverju sinni. Þá er hann gríðarlega líflegur og lætur í sér heyra á hliðarlínunni, eitthvað sem fjölmiðlar elska en dómarar hata.
Verða Ólsarar áfram í frjálsu falli?
Styrkleikar: Í gegnum tíðina hefur Ejub náð að búa til skipulögð og þétt lið í Ólafsvík þar sem spilað hefur verið vel upp á styrkleika hópsins. Reikna má með að það sama verði uppi á teningnum í sumar. Liðið er að spila í fyrsta skipti í deildinni án þess að vera nýliðar og Ólafsvíkingar ættu að vera reynslunni ríkari eftir síðasta mót. Ungir heimastrákar hafa fengið tækifærið í vetur og öðlast mikla reynslu.
Veikleikar: Liðið var í frjálsu falli síðari hlutann í fyrra og gengið á undirbúningstímabilinu gefur ekki ástæðu til bjartsýni. Einungis einn sigur kom í hús í Fótbolta.net mótinu og Lengjubikarnum. Ólsarar skoruðu ekki mikið í Pepsi-deildinni í fyrra og þeirra allra helsti markaskorari, Hrvoje Tokic, er horfinn á braut. Margir fleiri leikmenn eru farnir og lítið af liðsstyrk hefur komið í staðinn í vetur. Eðlilega spyrja menn sig hvort hópurinn sé nægilega sterkur til að lifa deildina af.
Lykilmenn: Cristian Martinez Liberato og Guðmundur Steinn Hafsteinsson. Spænski markvörðurinn Cristian hafði nóg að gera í markinu í fyrra og stóð vel undir því. Hann var valinn bestur á lokahófi Víkings eftir tímabilið. Guðmundur Steinn var valinn leikmaður ársins í 1. deildinni 2012 þegar hann hjálpaði Víkingi upp. Eftir flakk undanfarin ár þá er hann mættur aftur í Ólafsvík og í vetur hefur hann dregið vagninn í markaskorun.
Gaman að fylgjast með: Gunnlaugur Hlynur Birgisson var á láni hjá Víkingi frá Breiðabliki þegar Ólsarar unnu 1. deildina 2015. Eftir lán hjá Fram í fyrra þá er Gunnlaugur kominn aftur í Breiðablik. Klókur miðjumaður sem fær nú tækifæri til að láta ljós sitt skína í Pepsi-deildinni.
Spurningamerkið: Heldur frjálsa fallið áfram hjá Ólsurum í sumar líkt og seinni helminginn í fyrra? Liðsheildin og stemningin verður að vera góð ef ekki á illa að fara í Pepsi-deildinni í sumar.
Völlurinn: Vallarstæðið í Ólafsvík hefur vakið mikla athygli út fyrir Ísland. Ólafsvíkurkirkja gnæfir yfir vellinum. Smekkleg stúka er við völlinn sem er skemmtileg gryfja og hvetjum við fótboltaáhugafólk að taka sér rúnt og fara á Pepsi-deildarleik í Ólafsvík í sumar.
„Gerum allt sem í okkar valdi stendur til að afsanna þessa spá"
Formaðurinn segir - Jónas Gestur Jónasson
„Við erum spenntir fyrir komandi tímabil. Þetta er þriðja tímabilið sem við leikum í efstu deild. Það er mikil spenna og við erum ákveðnir í að standa okkur vel. Miðað við árangur í undirbúningsmótum þá er ekkert óeðlilegt að okkur sé spáð neðsta sætinu. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að afsanna þessa spá og ég hef fulla trú á að við höfum burði til að halda okkur í deildinni.“
Sjá einnig:
Ejub: Spyr stundum hvort það sé í lagi með þetta fólk?
Hin hliðin - Egill Jónsson
Pape: Var ákveðinn í að flytja í burtu frá Íslandi
Komnir:
Guðmundur Steinn Hafsteinsson frá ÍBV
Gunnlaugur Hlynur Birgisson frá Breiðabliki
Hörður Ingi Gunnarsson frá FH á láni
Mirza Mujcic frá Notodden
Farnir:
Admir Kubat til Bosníu/Hersegóvínu
Björn Pálsson hættur
Hrvoje Tokic í Breiðablik
Kramar Denis til SJK Seinajoki í Finnlandi
Martin Svensson til Danmerkur
Pontus Nordenberg til Nyköpings BIS
William Dominguez Da Silva
Leikmenn Víkings Ó. sumarið 2017:
2 Alex Egea
4 Egill Jónsson
5 Hörður Ingi Gunnarsson
6 Óttar Ásbjörnsson
7 Tomasz Luba
9 Kristinn Magnús Pétursson
10 Þorsteinn Már Ragnarsson
12 Konráð Ragnarsson
13 Emir Dokara
14 Sanjin Horoz
15 Sumarliði Kristmundsson
16 Pétur Steinar Jóhannsson
17 Guðmundur Steinn Hafsteinsson
18 Alfreð Már Hjaltalín
19 Pape Mamadou Faye
20 Leó Örn Þrastarson
21 Mirza Mujcic
22 Vignir Snær Stefánsson
23 Gunnlaugur Hlynur Birgisson
24 Kenan Turudija
25 Brynjar Vilhjálmsson
27 Sigurjón Kristinsson
28 Hilmar Björnsson
30 Cristian Martinez Liberato
Leikir Víkings Ó. 2017:
30.apríl Valur – Víkingur Ó
7.maí Víkingur Ó – KR
14.maí Grindavík – Víkingur Ó
21. maí Víkingur Ó – ÍBV
28.maí Breiðablik – Víkingur Ó
4.júní Víkingur Ó – KA
15.júní Fjölnir – Víkingur Ó
19.júní Víkingur Ó – Stjarnan
26.júní Víkingur R – Víkingur Ó
7.júlí FH – Víkingur Ó
17.júlí Víkingur Ó – ÍA
23.júlí Víkingur Ó – Valur
30.júlí KR – Víkingur Ó
8.ágúst Víkingur Ó – Grindavík
13.ágúst ÍBV – Víkingur Ó
20.ágúst Víkingur Ó – Breiðablik
27.ágúst KA – Víkingur Ó
9.sept Víkingur Ó – Fjölnir
14.sept Stjarnan – Víkingur Ó
17.sept ÍA – Víkingur Ó – Víkingur R
24.sept Víkingur Ó – FH
30.sept ÍA – Víkingur Ó
Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Hafliði Breiðfjörð, Kristófer Kristjánsson, Magnús Már Einarsson, Magnús Þór Jónsson.