mán 12.ágú 2024 15:30 Mynd: EPA |
|
Spáin fyrir enska - 10. sæti: „Hefur ekki enn gert slæm kaup"
Það styttist heldur betur í það að þjóðaríþrótt Íslendinga, enska úrvalsdeildin, fari aftur af stað. Deildin byrjar að rúlla næsta föstudag. Við höldum áfram að kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Við heyrum líka í stuðningsfólki liðanna og tökum púlsinn fyrir tímabilið sem er framundan.
Í tíunda sæti í spánni er Crystal Palace sem var heitasta lið ensku úrvalsdeildarinnar undir lokin á síðasta tímabili.
'Tvítugur gaur sem Palace keypti frá Blackburn í janúar. Það var svo frábært að sjá þá 19 ára gamlan krakka koma inn í úrvalsdeildina og spila eins og hann sé 30 gamall reynslubolti'
Mynd/Getty Images
Daichi Kamada kom frá Lazio. Hann þekkir Glasner vel eftir að hafa unnið með honum í Frankfurt.
Mynd/Getty Images
Adam Wharton, Ebere Eze, Michael Olise, Jean-Philippe Mateta... frá hlutlausu sjónarhorni var ótrúlega skemmtilegt að horfa á þessa gaura spila fótbolta seinni hluta síðasta tímabils. Eze og Olise voru stjörnunar í liði sem skoraði 16 mörk í síðustu fjórum deildarleikjum tímabilsins á Selhurst Park. Palace náði sínum besta árangri og endaði í tíunda sæti, fyrir ofan erkifjendur sína í Brighton.
En fyrir félag eins og Palace, þá getur góður árangur skapað hættu. Bayern München vildi ráða Glasner áður en þýska stórveldið keypti svo Olise. Marc Guehi er eftirsóttur og það er Eze svo sannarlega líka. Ef Palace heldur í annan hvorn þeirra - helst báða - þá er svo sannarlega svigrúm til að byggja ofan á það sem gerðist á síðasta tímabili. Palace hefur aldrei verið eins og spennandi og núna.
Stjórinn: Maðurinn með lyklana hjá Palace heitir Oliver Glasner og kemur frá Austurríki. Þegar gekk illa á síðasta tímabili, þá var hann sóttur og hann hafði strax gífurleg áhrif. Hann var fljótur að koma inn sínum hugmyndum og hefur núna sumarið til að vinna enn frekar með liðinu. Bayern reyndi að ráða hann í sumar en Palace hafði engan áhuga á að sleppa honum, skiljanlega. Glasner hefur sýnt það á sínum stjóraferli að hann kann vel til verka en hann stýrði Eintracht Frankfurt til sigurs í Evrópudeildinni 2022. Vonandi fyrir stuðningsmenn Palace þá fær hann stuðning frá stjórninni svo hveitibrauðsdagarnir geti haldið áfram.
Leikmannaglugginn: Eins og áður segir þá var Olise seldur til Bayern og það er högg og ekki bara fyrir stuðningsmenn Crystal Palace, líka bara fyrir áhugafólk um ensku úrvalsdeildina. Frábær leikmaður þar á ferðinni. Vonandi fyrir stuðningsmenn Palace, þá verða ekki fleiri seldir.
Komnir:
Ismaïla Sarr frá Marseille - 12,5 milljónir punda
Chadi Riad frá Real Betis - 12 milljónir punda
Daichi Kamada frá Lazio - Á frjálsri sölu
Farnir:
Michael Olise til Bayern München - 45 milljónir punda
James Tomkins - Samningur rann út
Jaïro Riedewald - Samningur rann út
Lykilmenn:
Marc Guehi - Newcastle er að sækjast hart eftir því að fá Guehi í sínar raðir. Félagið var að leggja fram sitt þriðja tilboð í miðvörðinn upp á 50 milljónir punda. Palace vill fá nær 65 milljónum punda fyrir hann. Guehi var frábær með Englandi á Evrópumótinu í sumar og er traustur í vörninni hjá Palace.
Adam Wharton - Annar leikmaður sem var hluti af enska landsliðinu á EM í sumar. Ótrúlega svalur miðjumaður en það virðist oft ekki renna í honum blóðið. Kom frá Blackburn í janúar síðastliðnum og var magnaður eftir það. Verður spennandi að sjá hann á komandi tímabili.
Eberechi Eze Fór líka á EM með Englandi í sumar. Bara einn skemmtilegasti leikmaður ensku úrvalsdeildinni, klárt mál. Virkilega hæfileikaríkur leikmaður sem kann svo sannarlega að fara með boltann. Manchester City og Tottenham eru að reyna að fá hann og spurning hvað gerist.
„Hann var algjör töframaður með boltann"
Guðmundur Bjarni Guðbergsson er mikill stuðningsmaður Crystal Palace. Við fengum hann til að segja okkur aðeins meira um liðið og áhuga sinn á því.
Ég byrjaði að halda með Crystal Palace af því að... Ég man ekki af hverju ég byrjaði að halda með Crystal Palace. Ég var 11 eða 12 ára gamall þegar ég fór að halda með þeim. Kannski það hafi verið vegna þess að þeir voru í flottum búningum eða flott nafn á liðinu. Ég þekkti engan annan stuðningsmann Palace á þessum tíma. Það var enginn pabbi eða frændi sem var að segja mér að halda með Crystal Palace. Það var ekki fyrr en á þessari öld sem ég kynntist öðrum stuðningsmönnum liðsins. Þetta er smá kjarni sem eru harðir stuðningsmenn liðsins. Á Facebook síðu sem höldum úti eru núna tæplega 200 meðlimir og eru allir velkomnir þangað sem vilja fylgjast með þessu frábæra liði.
Áttu uppáhalds minningu tengda félaginu þínu? Mín uppáhaldsminning tengd félaginu er þegar Crystal Palace vann Watford á Wembley um laust sæti í úrvalsdeildinni 2013. Síðan þá hefur Palace verið í ensku úrvalsdeildinni.
Uppáhalds leikmaður allra tíma? Það eru svo margir sem maður gæti nefnt, Ian Wright, Andrew Johnson, Attilio Lombardo, Zaha, Speroni, Scott Dann, Joe Ledley, Glenn Murray, en fyrir mitt leyti þá er valið auðvelt. Uppáhalds leikmaður minn er Yannick Bolasie. Hann var algjör töframaður með boltann, alltaf brosandi og hvetjandi. Hann var svona leikmaður sem öllum líkaði við. Hann var síðan seldur til Everton fyrir metfé og hefur ferill hans verið á niðurleið síðan. Í dag er hann að spila í brasilísku deildinni.
Hvernig fannst þér síðasta tímabil? Síðasta tímabil hjá Palace var eiginlega tvískipt. Hodgson tímabilið og Glasner tímabilið. Hodgson mætti í alla leiki til að halda hreinu og vona að skora mörk. Ég átti alltaf í erfiðleikum með að sjá ákveðið leikskipulag hjá liðinu. Fannst þetta meira svona, farið inn á völlinn og vonum það besta. Síðan þegar Glasner tók við, þá gjörbreyttist liðið. Hann fór að spila markvissan og skipulagðan fótbolta, lét leikmenn spila í sínum réttu stöðum og árangurinn var eftir því. Ef maður skoðar tölfræðina, þá sést munurinn. Undir stjórn Hodgson fékk liðið að meðaltali 0.91 stig að meðaltali í leik. Undir stjórn Glasner fékk liðið 1,93 stig að meðaltali í leik og þar af fékk Palace 19 stig í síðustu 7 leikjum tímabilsins.
Ertu með einhverja sérstaka leikdagshefð? Nei. En ég passa mig alltaf að hafa símann við hendina, sérstaklega þegar verið er að spila við eitt af “stóru liðunum”. Það eru nefnilega ótrúlega mörg skilaboð sem ég fæ á meðan leik stendur. Það er eins og ég sé eini stuðningsmaður Crystal Palace og margir vilja segja sitt álit á leiknum. Reyndar hef ég líka gaman að láta aðra vita þegar Palace gengur vel.
Hvern má ekki vanta í liðið? Joachim Andersen. Þegar maður horfir á leiki með Palace, þá er maður ekki alveg að sjá hversu góður leikmaður Joachim er. En þegar Joachim er ekki í liðinu, þá sést mjög vel hversu mikilvægur hann er. Hann er leikmaðurinn sem bindur saman vörnina og stjórnar henni.
Hver er veikasti hlekkurinn? Eftir að Dougie Freedman tók við sem yfirmaður knattspyrnumála, þá hafa öll leikmannakaup verið markviss og úthugsuð. Í dag er í raun enginn veikur hlekkur í 11 manna byrjunarliði, en það eru nokkrar stöður sem eru vanmannaðar. Í fyrsta lagi er það vinstri bakvörðurinn, en enn eitt árið fer Palace inn í tímabil með einn háklassa vinstri bakvörð (Tyrick Mitchell). Þá vantar líka að auka samkeppnina í fremstu víglínunni.
Þessum leikmanni á að fylgjast með... Adam Wharton, engin spurning. Tvítugur gaur sem Palace keypti frá Blackburn í janúar. Það var svo frábært að sjá þá 19 ára gamlan krakka koma inn í úrvalsdeildina og spila eins og hann sé 30 gamall reynslubolti. Vinna hans á miðjunni var upp á 100 og sendingar hans voru á öðru “leveli”. Það að 19 ára gaur sé keyptur úr B-deildinni og fer strax í byrjunarliðið og eftir 16 leiki í efstu deild er hann valinn í enska landsliðið segir ýmislegt um hæfileika hans og hugarfar.
Við þurfum að kaupa... Ég gæti komið núna með margar tillögur, en ég treysti Dougie Freedman 100% til að kaupa þá leikmenn sem liðið þarf að fá. Crystal Palace þarf að fá vinstri bakvörð og framherja til að bæta samkeppnina innan hópsins og til að mæta hugsanlegum áföllum í leikmannahópnum. Dougie Freedman hefur ekki enn gert slæm kaup, en mörg mjög góð kaup og núna þegar Palace hefur stjóra sem er á sömu línu og Dougie þá vil ég bara að þeir komi mér á óvart. Þetta eru menn sem vita hvað þeir eru að gera.
Hvað finnst þér um stjórann? Ég held að Glasner sé kominn í Guðatölu hjá öllum stuðningsmönnum Crystal Palace. Dougie Freedman er búinn að vera yfirmaður knattspyrnumála hjá Palace í nokkur ár. Hann hefur keypt marga frábæra leikmenn og marga af þeim vildi Hodgson síðan ekki nota. Núna er kominn nýr stjóri sem virðist vera á sömu blaðsíðu og Dougie. Ég sé fram á frábæra samvinnu þessa tveggja manna og Glasnier og Dougie komi Palace á næsta stig.
Hvernig líður þér fyrir tímabilinu sem er framundan? Ég er mjög spenntur fyrir tímabilinu. Ég hefði alveg viljað að tímabilið hefði byrjað um leið og síðasta tímabilinu lauk. Ef það verða ekki fleiri leikmenn seldir í þessum glugga, þá verður þetta skemmtilegt tímabil fyrir Palace.
Hvar endar liðið? Það fer alveg eftir því hvort fleiri leikmenn verða seldir í þessum glugga. Ef við höldum þeim mannskap sem við höfum í dag, þá mun Palace vera að berjast um Evrópusæti í vetur. En Crystal Palace mun alltaf enda í top 10.
Þau sem spáðu: Arnar Laufdal Arnarsson, Brynjar Ingi Erluson, Elíza Gígja Ómarsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Haraldur Örn Haraldsson, Jóhann Þór Hólmgrímsson, Ívan Guðjón Baldursson, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke og Sölvi Haraldsson.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni..
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. Crystal Palace, 121 stig
11. Brighton, 109 stig
12. Fulham, 102 stig
13. Bournemouth, 97 stig
14. Wolves, 86 stig
15. Everton, 74 stig
16. Leicester, 61 stig
17. Brentford, 56 stig
18. Southampton, 42 stig
19. Nottingham Forest, 37 stig
20. Ipswich Town, 27 stig