mið 13.apr 2022 13:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá Fótbolta.net - 2. sæti: Breiðablik
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að Breiðablik muni enda í 2. sæti í Bestu deildinni í sumar. Álitsgjafar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Það má búast við svipaðri spennu og var síðasta sumar miðað við stigagjöfina í spánni.
Jason Daði kom mörgum á óvart í fyrra og fékk tilboð frá Noregi í vetur sem hann hafnaði.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Damir skoraði ekki í deildinni í fyrra en hefur skorað mörk á undirbúningstímabilinu.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. Víkingur
2. Breiðablik 109 stig
3. Valur 95 stig
4. FH 93 stig
5. KR 87 stig
6. Stjarnan 69 stig
7. KA 65 stig
8. Leiknir 47 stig
9. ÍBV 35 stig
10. ÍA 33 stig
11. Keflavík 19 stig
12. Fram 17 stig
Um liðið: Breiðablik endaði í öðru sæti á síðasta tímabili eftir dramatíska leiki í næstsíðustu umferð síðasta tímabils. Hársbreidd munaði á þeim og Víkingi og ef það á að gera betur en í fyrra þá er bara eitt sæti í boði og það er efsta sætið.
Þjálfari - Óskar Hrafn Þorvaldsson: Er á leið inn í sitt þriðja tímabil sem þjálfari Breiðabliks. Liðið endaði í fjórða sætinu á hans fyrsta ári og í öðru sæti í fyrra. Óskar leggur mikið upp með að liðið sitt haldi í boltann og að það sé tilgangur með öllum aðgerðum. Við hlið hans er aðstoðarmaðurinn Halldór Árnason hefur verið með honum undanfarin ár.
Styrkleikar: Skýr hugmyndafræði og allir vita hvað það er sem þjálfarinn vill frá þeim. Mikil breidd á miðsvæðinu og með komu Adams Arnar er komin aukin breidd í varnarlínuna. Það er mikill hraði í liðinu og ef eitthvað lið getur nýtt sér breiddina á vellinum þá er það Breiðablik. Það eru margir orkumiklir leikmenn á bestra aldri. Frábærir sóknarsinnaðir bakverðir sem myndu komast í öll lið á landinu.
Veikleikar: Skrokkar inn á teignum þegar vantar að ná í mark. Það sást gegn Víkingi að liðinu vantaði skrokka inn á vítateignum til að eiga við andstæðingana þegar þeir liggja til baka. Blikar eru ekki með mikla hæð og þurfa á móti að vera klókir og finna sér svæði og búa þau til. Skortur á sigurvegurum. Einungis fjórir leikmenn í hópnum þekkja það að hafa fagnað Íslandsmeistaratitli, þrír gerðu það fyrir tólf árum og einn gerði það með Val.
Lykilmenn: Gísli Eyjólfsson og Viktor Karl Einarsson. Báðir voru þeir í landsliðinu í janúar og Gísli var einnig síðasta haust. Saman skiluðu þeir ellefu mörkum en þurfa að skora meira í sumar eftir brotthvarf Mikkelsen og Árna. Báðir eru þeir góðir skotmenn og geta báðir horft í möguleikann á að fara út í atvinnumennsku með góðu tímabili.
Hlaðvarpsþátturinn Ungstirnin mælir með: Anton Logi Lúðvíksson er uppalinn Bliki sem fæddur er árið 2003. Hann fór á sínum tíma á lán til SPAL á Ítalíu en það gekk ekki upp vegna meiðsla. Hann spilaði sinn fyrsta leik með Breiðabliki undir lok tímabilsins 2020 og var svo á láni hjá Aftureldingu í fyrra. Hann lærði í Magga.net skólanum og hefur komið virkilega sterkur inn í hóp Breiðabliks á undirbúningstímabilinu. Hann er miðjumaður sem er frábær í fótbolta og með leikskilning upp á tíu. Hann ætti að fá hellings spiltíma í sumar þar sem Alexander Helgi verður ekki með Blikum í sumar en það er mikil breidd inn á miðsvæðinu hjá Breiðabliki og ekkert gefins að fá mínútur þar.
Spurningarnar: Hvernig er hausinn stilltur á Blikunum eftir erfiðan endi síðasta tímabil? Ná þeir að halda höfðinu uppi ef á móti blæs eða verða þeir fljótir að brotna? Hver mun spila við hlið Damir í miðverðinum? Nær einhver að fylla skarð Alexanders Helga?
Völlurinn: Gervigrasvellið á Kópavogsvelli reyndist Blikum gjöfult í fyrra. Það var fínasta stemning en það er fullt af tækifærum að gera enn betur og styðja betur við liðið sem sýnir virkilega áferðarfallegan fótbolta. Það er gaman að mæta sem hlutlaus áhorfandi á Kópavogsvöllinn og sjá þar virkilega góðan fótbolta á íslenskum mælikvarða.
Fyrirliðinn segir - Höskuldur Gunnlaugsson
„Við viljum lenda í einu sæti ofar en það en þessi spá kemur ekki á óvart þannig séð. Þetta var að fara detta einhvers staðar á bilinu 1.-3. sæti. Við erum klárlega með hópinn og getuna í liðinu til að landa þeim stóra. Það verður mikil keppni um titilinn."
„Ég myndi segja að hópurinn sé breiðari og fjölbreyttari en í fyrra. Það er slatti af nýjum leikmönnum en allt leikmenn sem hafa styrkt hópinn. Það tekur alltaf smá tíma að finna takt en mér finnst þessir nýju leikmenn hafa komið flott út og fannst það sjást vel í leikjunum út í Portúgal."
Komnir
Adam Örn Arnarson frá Noregi
Dagur Dan Þórhallsson frá Noregi
Juan Camilo Pérez frá Venesúela
Ísak Snær Þorvaldsson frá Englandi
Mikkel Qvist frá Danmörku
Omar Sowe frá New York Red Bulls (á láni)
Pétur Theódór Árnason frá Gróttu
Anton Logi Lúðvíksson frá Aftureldingu (var á láni)
Ýmir Halldórsson frá Aftureldingu (var á láni)
Farnir
Alexander Helgi Sigurðarson til Svíþjóðar
Árni Vilhjálmsson til Frakklands
Davíð Örn Atlason til Víkings R.
Thomas Mikkelsen til Danmerkur
Arnar Númi Gíslason til Fjölnis (á láni)
Ágúst Orri Þorsteinsson til Svíþjóðar
Ásgeir Galdur Guðmundsson til Danmerkur
Rúrik Gunnarsson til KV
Fyrstu fimm leikir Breiðabliks:
19. apríl Breiðablik - Keflavík
25. apríl KR - Breiðablik
1. maí Breiðablik - FH
7. maí ÍA - Breiðablik
11. maí Breiðablik - Stjarnan
Hin hliðin:
Kristinn Steindórsson
Brynjar Atli Bragason
Sterkasta byrjunarliðið að mati Fótbolta.net:
Aðrir leikmenn:
Oliver Sigurjónsson - 3
Elfar Freyr Helgason - 5
Brynjar Atli Bragason - 12
Anton Logi Lúðvíksson - 13
Adam Örn Arnarson - 15
Pétur Theodór Árnason - 17
Sölvi Snær Guðbjargarson - 19
Viktor Örn Margeirsson - 21
Ýmir Halldórsson - 23
Viktor Andri Pétursson - 27
Andri Rafn Yeoman - 30
Omar Sowe - 67
Spámennirnir: Aksentije Milisic, Brynjar Ingi Erluson, Egill Sigfússon, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Hafliði Breiðfjörð, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Tómas Þór Þórðarson og Úlfur Blandon