Breiðablik mætir KA á Greifavelli í 19. umferð Bestu deildarinnar. Leikurinn hófst klukkan 16:00 og fer leikurinn fram á milli leikja liðanna í Evrópukeppnum. Bæði lið léku síðasta leik sinn á fimmtudagskvöld og töpuðu bæði með fjórum mörkum á útivelli; KA gegn Club Brugge í Belgíu og Breiðablik gegn Zrinjski í Bosníu.
Lestu um leikinn: KA 1 - 1 Breiðablik
Mikið álag er á liðunum og er þetta fimmtándi leikur Breiðabliks á 51 degi. Liðið hóf gífurlega leikjatörn þann 23. júní þegar landsleikjahléið kláraðist. Óskar Hrafn Þorvaldsson tók á það ráð að hvíla lykilmenn í dag. Sex byrjunarliðsmenn í nánast öllum leikjum eru utan hóps, Andri Rafn Yeoman er á bekknum og Alexander Helgi Sigurðarson, sem hefur líka verið í stóru hlutverki, er einnig utan hóps.
Lykilmennirnir sem um ræðir eru þeir Anton Ari Einarsson, Damir Muminovic, Höskuldur Gunnlaugsson, Gísli Eyjólfsson, Jason Daði Svanþórsson, Oliver Sigurjónsson og Viktor Örn Margeirsson.
KA hefur einnig verið í miklu leikjaálagi en þó alls ekki eins miklu og Breiðablik. Frá og með 24. júní er þetta tólfti leikur KA. Tveir sem hafa byrjað flesta leiki KA á tímabilinu eru á bekknum í dag; Ásgeir Sigurgeirsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson.
Álagið hjá liðunum heldur svo áfram. Breiðablik á sex leiki (þrjá Evrópuleiki og þrjá deildarleiki) eftir fram að tvískiptingu deildarinnar (22. umferðin fer fram 3. september), sex leiki á næstu 21 degi eftir leikinn í dag.
KA á fimm leiki eftir (einn Evrópuleik og fjóra deildarleiki) þar til deildin tvískiptist. Það gætu reyndar orðið enn fleiri ef KA nær að snúa einvíginu gegn Club Brugge sér í vil en það verður að teljast ansi ólíklegt.
Alls mun Breiðablik því spila 21 leik á 73 dögum.
Athugasemdir