Liverpool hefur áhuga á Gomes - Yamal fær nýjan samning - Sean Dyche íhugar markvarðarbreytingu
   mán 19. ágúst 2024 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gagnrýndu yfirlýsingu Sterling - „Þetta er algjört rugl"
Raheem Sterling.
Raheem Sterling.
Mynd: EPA
Sterling í leik með Chelsea.
Sterling í leik með Chelsea.
Mynd: EPA
Það vakti athygli í gær að teymið í kringum Raheem Sterling sendi frá sér yfirlýsingu eftir að leikmaðurinn var skilinn eftir utan hóps í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar gegn Manchester City.

Chelsea er með gífurlega stóran hóp og Enzo Maresca, stjóri Chelsea, sagði einfaldlega að hann hafi þurft að skilja einhverja eftir utan leikdagshópsins.

Sterling var einn þeirra en hann var greinilega ekki sáttur með það. Teymið í kringum hann sendi frá sér yfirlýsingu áður en leikurinn gegn City hófst.

„Við höfum alltaf átt í jákvæðum samskiptum við Chelsea FC varðandi framtíð Raheem hjá félaginu og núna bíðum við eftir að fá útskýringar á ástæðunum sem liggja að baki þessari ákvörðun um að hafa hann ekki með í hópnum," sagði meðal annars í yfirlýsingunnii.

Sérfræðingar Sky Sports ræddu þessa yfirlýsingu eftir leikinn í gær en flestir voru þeir ekki hrifnir af henni.

Jamie Redknapp, fyrrum leikmaður Liverpool og fleiri félaga, sagði: „Það segir í yfirlýsingunni að hann hafi komið til æfinga tveimur vikum fyrr. Það er flott en þú þarft ekki að tala um það. Spilaðu betur. Hann hefur ekki verið góður frá því hann kom til Chelsea."

„Ef stjórinn vill ekki spila þér, haltu þá bara áfram. Ekki láta umboðsmenn þína gera eitthvað svona, sérstaklega á leikdegi. Þetta er algjört rugl; hann á að gera betur og fólkið í kringum hann á að gera betur."

Micah Richards tók í sama streng. „Raheem og teymið hans vita nákvæmlega hvað þau eru að gera. Þau eru að reyna að búa til læti. Það eru nú þegar mikil læti í kringum félagið. Að setja þessa yfirlýsingu út fyrir leikinn er ekki gott. Hann er ekki að hjálpa liðsfélögum sínum og þetta er svo sannarlega ekki að hjálpa honum að komast aftur í liðið," sagði Richards.

„Hann lét stjórann sinn heyra það og brást liðsfélögum sínum. Það er það sem ég hef á móti þessu. Hann er betri en þetta."

Sterling er 29 ára gamall og kom að 18 mörkum í 43 leikjum með Chelsea á síðustu leiktíð. Hann á þrjú ár eftir af samningi sínum við félagið en hann er núna orðaður við Juventus á Ítalíu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner