Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   mið 23. febrúar 2022 11:07
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hilmar bíður eftir frekari fregnum: Ljóst að það eru einhverjir áverkar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður Stjörnunnar, meiddist í leik gegn Þór í Lengjubikarnum á laugardag. Hann fór af velli undir lok leiks vegna hnémeiðsla.

Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, ræddi við Fótbolta.net í gær og vonaðist eftir að Stjarnan og Hilmar fengju svör seinna sama dag.

„Ég vona að þetta komi í ljós á eftir, hann þarf að fara í myndatöku og svona til að ganga úr skugga um að þetta sé ekkert alvarlegt. Það þurfa nokkrir dagar að líða út af bólgum og slíku. Við vonumst til að fá svörin í dag," sagði Ágúst í gær og sagðist vona að „einungis" væri um tognun á liðbandi að ræða.

Fótbolti.net ræddi stuttlega við Hilmar Árna í dag.

„Það er verið að skoða stöðuna á hnénu. Það er verið að rýna í mynd sem var tekin í gær. Það er ljóst að það eru einhverjir áverkar og mikill vökvi. Það er verið að skoða krossbandið," sagði Hilmar.

Óttastu að krossbandið sé slitið?

„Ég bíð bara eftir frekari fregnum," sagði Hilmar.

Forsvarsmenn Akureyrarbæjar og KSÍ brugðust Hilmari
Formaður meistaraflokksráðs Stjörnunnar, Helgi Hrannarr Jónsson, ritaði pistil um aðstöðuna á Akureyri sem birtist hér á Fótbolta.net í morgun. Hann er ósáttur við að Stjarnan hafi þurft að spila í Boganum um liðna helgi og segir að Stjarnan hafi óskað eftir því að spila leikinn annars staðar. „Niðurstaða màlsins er hins vegar allt önnur og alvarlegri enda sú aðstaða sem Akureyrabær skaffar langt í frá að teljast ásættanleg og í þessu tilviki hefur hún afgerandi áhrif á leikmann okkar sem er eitthvað sem ég get illa sætt mig við," skrifaði Helgi m.a.

„Verst af öllu þykir mér þó að hafa bent á hættuna löngu áður og þurfa að horfa uppá frábæran leikmann, fyrirmynd og leiðtoga kljást við erfið meiðsli af því að ég setti mitt traust á forsvarsmenn Akureyrarbæjar og knattspyrnusambandsins sem brugðust viðkomandi leikmanni illilega. Þeirra er skömmin en eftirsjáin er mín að hafa búist við meiru," ritar svo Helgi í lok pistilsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner