Osimhen efstur á blaði hjá Man Utd - Aukin samkeppni um Cunha - Tottenham gæti reynt við Rashford
   mið 23. apríl 2025 20:10
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Fyrsti sigur Vals - Vestri á toppinn
Jafnt hjá FH og KR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þremur fyrstu leikjum dagsins er lokið í Bestu deild karla, þar sem Valur lenti ekki í vandræðum á heimavelli gegn KA.

Jónatan Ingi Jónsson og Tryggvi Hrafn Haraldsson skoruðu mörk Valsmanna í fyrri hálfleik sem var nokkuð tíðindalítill fyrir utan mörkin, en gestirnir frá Akureyri vildu fá vítaspyrnu þegar staðan var ennþá 1-0.

Valur leiddi 2-0 í leikhlé og skoraði Jónatan Ingi sitt annað mark á 56. mínútu, eftir góða sendingu frá Birki Heimissyni sem átti háa sendingu yfir vörn KA, ekki ólíkt því þegar Tryggvi Hrafn skoraði undir lok fyrri hálfleiks.

Ásgeir Sigurgeirsson minnkaði muninn fyrir KA skömmu síðar en nær komust gestirnir ekki þrátt fyrir góðar tilraunir á lokakaflanum. Lokatölur 3-1 og fyrsti sigur Vals á nýju deildartímabili staðreynd. Valsarar eru með fimm stig eftir þrjár umferðir, á meðan KA er aðeins með eitt stig.

Valur 3 - 1 KA
1-0 Jónatan Ingi Jónsson ('14)
2-0 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('43)
3-0 Jónatan Ingi Jónsson ('56)
3-1 Ásgeir Sigurgeirsson ('60)

Lestu um leikinn



Á Akranesi tók ÍA á móti Vestra og áttu heimamenn skalla í stöng snemma leiks sem vakti gestina frá Ísafirði til lífsins. Vestramenn tóku völdin á vellinum og skoruðu með marki eftir skyndisókn eftir góðan kafla. Diego Montiel gerði vel að skora eftir góðan undirbúning frá Daða Berg Jónssyni.

Leikurinn jafnaðist út eftir markið en Skagamenn sofnuðu á verðinum og leyfðu gestunum að tvöfalda forystuna eftir markspyrnu. Daði Berg gerði mjög vel að vinna boltann eftir markspyrnuna, hann var sterkur að standa af sér áhlaup varnarmanns og lék svo á markvörð ÍA áður en hann skoraði í autt markið.

Staðan var 0-2 í leikhlé og reyndu heimamenn að minnka muninn í síðari hálfleik en án árangurs. Skagamenn héldu boltanum vel en voru bitlausir í sóknarleiknum, líkt og í fyrri hálfleik.

Þeim tókst ekki að skora framhjá skipulagðri vörn Ísfirðinga svo lokatölur urðu 0-2. Vestri er á toppi deildarinnar sem stendur, með sjö stig eftir frábæra byrjun á Íslandsmótinu. ÍA situr eftir með þrjú stig.

ÍA 0 - 2 Vestri
0-1 Diego Montiel ('29)
0-2 Daði Berg Jónsson ('40)

Lestu um leikinn



Að lokum gerðu FH og KR 2-2 jafntefli í Hafnarfirði, þar sem Gabríel Hrannar Eyjólfsson tók forystuna fyrir KR snemma leiks eftir stoðsendingu frá Hjalta Sigurðssyni. Frábær bakvarðasamvinna þar á bæ.

Björn Daníel Sverrisson var ekki lengi að jafna fyrir FH þegar hann skallaði hornspyrnu Böðvars Böðvarssonar í netið. Staðan var því orðin 1-1 eftir fyrsta stundarfjórðunginn í fjörugum leik þar sem bæði lið voru búin að fá fleiri færi til að skora.

Leikurinn jafnaðist út eftir jöfnunarmarkið og var staðan 1-1 í leikhlé, en Björn Daníel lét reka sig af velli snemma í síðari hálfleik. Hann fékk beint rautt spjald fyrir hættulega tæklingu þegar hann fór með takkana alltof hátt í Júlíus Mar Júlíusson, fyrirliða KR.

Tíu FH-ingar svöruðu með því að taka forystuna skömmu síðar, þegar Baldur Kári Helgason skoraði eftir slakan varnarleik hjá KR-ingum sem tókst ekki að hreinsa boltann nógu langt frá marki eftir hornspyrnu.

Eiður Gauti Sæbjörnsson jafnaði metin fyrir KR með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá Luke Rae á 74. mínútu og var staðan því orðin jöfn 2-2 á lokakaflanum.

Tíu FH-ingar fengu betri færi heldur en gestirnir úr Vesturbæ en Arnóri Borg Guðjohnsen tókst ekki að skora þrátt fyrir tvö góð færi í uppbótartíma.

FH náði í sitt fyrsta stig á deildartímabilinu með þessu jafntefli á meðan KR er með þrjú stig eftir þrjú jafntefli.

FH 2 - 2 KR
0-1 Gabríel Hrannar Eyjólfsson ('5)
1-1 Björn Daníel Sverrisson ('16)
2-1 Baldur Kári Helgason ('58)
2-2 Eiður Gauti Sæbjörnsson ('74)
Rautt spjald: Björn Daníel Sverrisson, FH ('52)

Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner