
„Þær eru búnar að vera frábærar í allt sumar. Það voru yfir þúsund manns á vellinum, það er met í kvennadeildinni. Get in! Svona gerum við þetta. Sjáðu þetta! Stuðningurinn var frábær. Leikbreytarnir frábærir og Fylkir voru magnaðar. Við þurftum að vinna mjög gott lið. Besta deildin 2024. Áfram,“ sagði John Andrews, þjálfari Víkinga, eftir 4-2 sigur á Fylki sem tryggir Víkingum sigur í Lengjudeildinni þetta árið og sæti í Bestu deildinni að ári.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 4 - 2 Fylkir
„Lengjudeildin í ár er sú besta sem ég hef séð og að við skulum vinna hana með tvo leiki eftir er magnað og gerir mig stoltan,“ sagði John áður en hann kastaði kveðju á fjölskyldu sína heima á Írlandi.
John hefur unnið magnað starf síðan hann tók við Víkingum og var augljóslega hrærður í leikslok. Hann segist hafa fundið á sér á síðasta tímabili að liðið gæti farið upp um deild í ár.
„Til að gera stutta sögu mjög langa þá fundum við á okkur á síðasta tímabili að úrslitin gegn toppliðunum, FH og Tindastól, voru ekki góð en allt annað var mjög gott. Markmiðið okkar í ár var að ná aðeins betri stöðugleika og við getum ekki verið mikið stefnufastari en þetta,“ sagði John stoltur. Aðspurður um það hvort hann myndi geta hætt að brosa á næstunni svaraði þjálfarinn sposkur:
„Ef við töpum fyrir Grindavík á laugardaginn verð ég brjálaður. Það er æfing á morgun og ef þær standa sig ekki verð ég ekki glaður jafnvel þó við höfum unnið deildina.“
Nánar er rætt við hinn líflega John Andrews í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir