Haaland verður með riftunarákvæði - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Antony til Newcastle?
   þri 30. júlí 2024 09:00
Hafliði Breiðfjörð
Emil sinnti bæði markvörslu og dómgæslu með hóp stráka á Garda
Emil Hallfreðsson á æfingasvæðinu á föstudaginn.
Emil Hallfreðsson á æfingasvæðinu á föstudaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hitað upp.
Hitað upp.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emil afhendir vesti.
Emil afhendir vesti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján markvörður með þeim ítalska.
Kristján markvörður með þeim ítalska.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikið við boltann.
Leikið við boltann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emil fylgist með æfingunni.
Emil fylgist með æfingunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hitinn er mikill á Ítalíu núna.
Hitinn er mikill á Ítalíu núna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Einn af ítölsku þjálfurunum fylgist með æfingunni.
Einn af ítölsku þjálfurunum fylgist með æfingunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Létt yfir hópnum.
Létt yfir hópnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég stefni ekki á að ná langt í dómgæslu," sagði Emil Hallfreðsson við mig þegar ég hitti hann á fótboltanámskeiði sem hann stendur fyrir í júlí við Gardavatn á Ítalíu.

Fótbolti.net leit í heimsókn í æfingabúðirnar en hópurinn dvelur á Veronella resort sem er steinsnar frá Gardavatninu. Þar eru 25 strákar frá Íslandi fæddir 2009 og 2010 við æfingar auk þess sem Emanuel sonur Emils og ítalskur markvörður taka þátt.

Þegar við mættum var þjálfarateymið að taka lokafund fyrir æfingu dagsins þar sem línur voru lagðar, hvaða áherslur yrði unnið með þann daginn.

Í þjálfarahópnum var Emil sjálfur, þrír þjálfarar frá Hellas Verona og gamall liðsfélagi Emils í FH, Pétur Óskar Sigurðsson. Pétur og Emil léku saman í U-21 árs liði Íslands.
Pétur Óskar Sigurðsson | Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Pétur þessi var gríðarlega efnilegur leikmaður, var markahæstur í sögufrægum 2. flokki FH sem vann alla sína leiki 2003 og hóf meistaraflokkinn á láni hjá Breiðabliki árið eftir þar sem hann skoraði 8 mörk í 16 leikjum í 1. deildinni. Eftir það lenti hann í meiðslum sem á endanum bundu enda á ferilinn.

Hann sneri sér því að listinni, átti hlut í að hefja Country bylgjuna sem gengur yfir landið í tónlistinni og hefur verið að leika í sjónvarpsþáttaseríum í Þýskalandi og á Íslandi. Á Íslandi hefur Pétur leikið í Ófærð og nýverið lék hann aðalhlutverk í stærsta þætti Þýskalands, Tatort.

Það var augljóst þegar komið var á hótelið að Emil er í miklum metum, bæði hjá starfsfólki og svo mátti sjá hann fá kveðjur frá stuðningsmönnum sem muna eftir honum á þeim árum sem hann lék á Ítalíu.

Við röltum með Emil, Pétri og strákunum út á einn af æfingavöllunum í bakgarði hótelsins. Það var 33 stiga hiti og strákarnir pössuðu vel upp á að setja á sig sólarvörn, eitthvað sem ég hefði betur elt þá í því bóndabrúnkan hjá mér eftir þennan dag setti mögulega heimsmet.
Sólarvörnin er mikilvæg. | Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

„Ég er ekki að fara að umbreyta þeim sem fótboltamönnum á einni viku, en ég vil efla menn með minni þekkingu og reynslu og kynna þá fyrir ítalska boltanum," útskýrði Emil fyrir mér.

Á námskeiðinu hjá Emil fá þeir að kynnast því að æfa eins og atvinnumenn, borða ítalskan mat og njóta samveru. Allir eru í sérstökum æfingafötum merktum námskeiðinu, og öðru setti þegar þeir fara út frá hótelinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Eftir hádegi er svo boðið upp á allskonar afþreyingu. Einn daginn var farið í skemmtigarðinn Gardaland, einn daginn í vatnsrennibrautagarð og svo framvegis. Þegar ég heimsótti hópinn á föstudaginn var mikil spenna, það var stefnt á heimsókn á McDonald's og áskorun í gangi því liðið sem tapaði innbyrðis fótboltaleik dagsins myndu borga fyrir hina.
Sigþór sá um að færa drengjunum vatn. | Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Í hitanum var passað upp á að hafa nóg af vatni fyrir leikmennina ungu og Sigþór ferðafélagi minn tók að sér það verkefni að útdeila vatni til drengjanna þegar þorstinn sótti á þá.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Eftir nokkrar æfingar var farið í leikinn. Flestir drengjanna komu frá FH og Breiðabliki en auk þeirra drengir héðan og þaðan af landinu. Skipt var upp í tvö lið, FH og Breiðablik og þar sem ítalski markvörðurinn meiddist á æfingunni tók Emil að sér að verða markvörður.

Liðið hans fékk á sig þrjú mörk í fyrri hálfleik og aðspurður hvort hann væri að kosta liðið of mikið í markinu sagði Emil.

„Nei er ég ekki flottur markvörður? Ég vil nú frekar meina að það þurfi að þétta vörnina betur," sagði hann.
Emil með frábæra markvörslu! | Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Í seinni hálfleik jafnaðist leikurinn nokkuð en Blikarnir voru mjög ósáttir út í Emil sem var líka dómari leiksins. Þegar þeir kvörtuðu sáran mátti heyra hann segja við þá sömu setninguna og hann sagði við mig í byrjun greinarinnar, 'Ég stefni ekki á að ná langt í dómgæslu'.

Þegar ég spurði hann frekar út í þetta var hann reyndar með skýringar á reiðum höndum, hann þurfti jú að reyna að jafna leikinn með þessu. Blikarnir unnu þó á endanum 5-3.

Þegar ég kvaddi Emil eftir æfinguna var rúta komin fyrir utan hótelið. „Ætli ég endi ekki á að borga McDonald's fyrir strákana fyrst þetta fór svona," sagði Emil.

Emil og Pétur bentu mér að lokum á einstakan strandbæ við Gardavatnið sem heitir Lazise. Ég keyrði þangað og stoppaði á bílastæðaplani til að geyma bílinn. Maðurinn sem tók á mér var með Hellas Verona treyju í glugganum og þegar hann áttaði sig á því að ég væri frá Íslandi svaraði hann. „Eins og Emil Hallfreðsson! Hann var frábær leikmaður fyrir okkur og einstök manneskja líka."

Emil hefur nú lokið fótboltaferlinum og núna í júlí voru tímamót í lífi hans, hann flutti til Íslands eftir að hafa verið tæp 20 ár á Ítalíu. Hann ætlar nú að snúa sér að umboðsmennsku og kom meðal annars að nýlegum skiptum Adams Ægis Pálssonar til Perugia.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner