Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
banner
   lau 01. júní 2024 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Vín
Óvænt vítaskytta Íslands - „Ég vissi að það yrði kraftur í þessu"
Icelandair
Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís og Ingibjörg Sigurðardóttir.
Glódís og Ingibjörg Sigurðardóttir.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Fyrirliðinn frábæri, Glódís Perla Viggósdóttir, gerði mark Íslands þegar liðið sótti mikilvægt stig til Austurríkis í undankeppni EM 2025 í gær.

Ísland fékk víti í seinni hálfleik og Glódís fékk það verkefni að taka vítið. Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, var búinn að gera Glódísi að vítaskyttu Íslands þó hún sjálf hefði verið búin að gleyma því í augnablikinu.

„Það er langt síðan ég sagði henni að hún væri vítaskytta en hún var búin að steingleyma því þegar vítið var dæmt. Ég þurfti að minna hana á það þegar einhver annar ætlaði að taka vítið. Þá þurfti ég að öskra því Glódís var búin að steingleyma að hún væri vítaskytta. Við ræddum þetta fyrir einhverju síðan en svo var hún bara búin að gleyma því. Hún er góður spyrnumaður og hefur trú og traust á því sem hún er að gera, og er með bullandi sjálfstraust," sagði Steini eftir leikinn.

Þetta var fyrsta vítaspyrnan sem Glódís tekur í leik en spyrnan var gríðarlega örugg.

„Ég hef aldrei tekið víti í leik og þetta var smá stressandi. Ég hef æft þetta smá og er búin að sjá þetta fyrir mér oft," sagði Glódís.

Glódís getur allt
Það kom kannski sumum á óvart að Glódís tæki vítið enda ekki á hverjum degi þar sem miðvörður er vítaskytta liðs. Ingibjörg Sigurðardóttir, sem spilar við hlið Glódísar í vörn Íslands, sagðist eftir leik ekki vilja hafa neinn annan leikmann í þessari stöðu.

„Ég var kannski smá stressuð. Ég hef aldrei séð hana taka víti, en hún kláraði þetta. Glódís var alltaf að fara að klára þetta. Auðvitað setur maður hana á punktinn. Þú vilt ekki hafa neina nema hana í þessum augnablikum," sagði Ingibjörg og bætti við: „Þetta var mjög flott víti og ég hrósaði henni alveg fyrir það."

„Ég hef engar áhyggjur af því þegar Glódís er að gera eitthvað. Allt sem hún gerir, það gerir hún 100 prósent. Ég vissi að hún myndi setja hann inn. Hún er rosalega góð spyrnukona," sagði Sandra María Jessen.

Guðrún Arnardóttir, sem leikur einnig í vörninni með Glódísi, segir fyrirliðann geta allt.

„Ég held að það sé ekkert sem Glódís getur ekki. Ég hafði trú á henni. Hún er góður spyrnumaður og ég hafði ekki miklar áhyggjur," sagði Guðrún. „Ég vissi að það yrði kraftur í þessu. Hún er varnarmaður og því fylgir oft kraftur. Hún er svo góður leikmaður að hún getur allt."

Ísland mætir Austurríki aftur á þriðjudaginn en sá leikur fer fram á Laugardalsvelli.



Hafði aldrei tekið víti í leik - „Er búin að sjá þetta fyrir mér oft"
Athugasemdir
banner
banner