Joshua Zirkzee, VIctor Osimhen, Riccardo Calafiori, Conor Gallagher, Florian Wirtz og fleiri koma við sögu
   fim 04. júlí 2024 20:03
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Þórsarar snéru við blaðinu í síðari hálfleik - Keflavík náði í stig gegn toppliðinu
Lengjudeildin
Rafael Victor skoraði þriðja mark Þórsara
Rafael Victor skoraði þriðja mark Þórsara
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldvin Þór Berndsen taldi sig hafa komið boltanum í netið í fyrri hálfleik gegn Keflavík en dómararnir voru ekki á sama máli
Baldvin Þór Berndsen taldi sig hafa komið boltanum í netið í fyrri hálfleik gegn Keflavík en dómararnir voru ekki á sama máli
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur Theodór gerði mark Gróttu með skalla
Pétur Theodór gerði mark Gróttu með skalla
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Topplið Fjölnis gerði markalaust jafntefli við Keflavík á Extra-vellinum í Grafarvogi í 11. umferð Lengjudeildar karla í kvöld. Á meðan unnu Þórsarar góðan 3-1 endurkomusigur á Gróttu á VÍS-vellinum á Akureyri.

Fjölnismenn hafa átt frábæru gengi að fagna í byrjun tímabils og höfðu sótt 23 stig í fyrstu tíu leikjum sínum.

Eftir rólega byrjun voru það Fjölnismenn sem gerðu sig líklega til að skora. Eftir um tuttugu mínútur kom Daníel Ingvar Ingvarsson boltanum upp á Reyni Haraldsson sem var kominn upp að endalínu. Hann kom boltanum fyrir en Dagur Ingi Axelsson náði ekki að nýta sér gott færi.

Tveimur mínútum síðar kom upp umdeilt atvik. Baldvin Þór Berndsen skallaði boltann í átt að marki og virtist hann fara inn, en Keflvíkingar hreinsuðu frá. Dómarateymi leiksins sagði nei við markinu, en það virkaði heldur tæpt.

Daníel Ingvar átti fínasta skot rétt framhjá markinu seinna en Keflvíkingar náðu að standa þessa stórskotahríð af sér og staðan því jöfn í hálfleik.

Síðasta hálftíma síðari hálfleiks fóru Fjölnismenn að banka fast á dyrnar. Reynir Haralds þrumaði boltanum í hliðarnetið úr algeru dauðafæri.

Fjölnismenn voru að fara illa með góðar stöður og náðu bara ekki að binda endahnút á sóknirnar. Sjö mínútum fyrir leikslok vildu þeir fá víti er Reynir var tekinn niður í teignum. Ekkert dæmt.

Mínútu síðar gátu Keflvíkingar tekið forystuna í leiknum. Fjölnismenn fengu horn og náðu Keflvíkingar að hreinsa þann bolta fram. Daníel Ingvar hitti ekki boltann og komst Axel Ingi Jóhannesson einn í gegn um 50 metrum frá marki, en Daníel náði að hlaupa hann uppi og koma í veg fyrir mark.

Fjölnismenn reyndu að sækja sigurmarkið í lokin en það kom aldrei og lokatölur því 0-0. Fjölnir er áfram á toppnum með 24 stig en Keflavík í 8. sæti með 12 stig.

Góð endurkoma Þórsara

Þórsarar unnu sterkan 3-1 endurkomusigur á Gróttu á VÍS-vellinum á Akureyri.

Gestirnir í Gróttu skoruðu eina mark fyrri hálfleiksins er Pétur Theodór Árnason skallaði boltanum í hornið en rétt fyrir lok fyrri hálfleiks var Rafael Victor hársbreidd frá því að jafna metin en Rafal Stefán Daníelsson varði skalla hans í slá.

Þórsarar stilltu saman strengi í hálfleik og komu dýrvitlausir inn í þann síðari.

Á fimm mínútum tókst heimamönnum að snúa við taflinu með mörkum frá Ragnari Óla Ragnarssyni og Kristófer Kristjánssyni.

Ragnar Óli skoraði með skalla eftir hornspyrnu á 55. mínútu og fimm mínútum seinna kom annað markið, einnig eftir hornspyrnu, en Rafal kýldi hornspyrnuna út á Kristófer sem setti hann í netið.

Seint í uppbótartíma gerði Rafael Victor út um leikinn eftir fyrirgjöf. Lokatölur 3-1 fyrir Þór sem fara upp í 6. sæti með 13 stig en Grótta í 10. sæti með 10 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Fjölnir 0 - 0 Keflavík
Lestu um leikinn

Þór 3 - 1 Grótta
0-1 Pétur Theódór Árnason ('42 )
1-1 Ragnar Óli Ragnarsson ('55 )
2-1 Kristófer Kristjánsson ('60 )
3-1 Rafael Alexandre Romao Victor ('95 )
Lestu um leikinn
Lengjudeild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Fjölnir 11 7 3 1 21 - 12 +9 24
2.    Njarðvík 11 6 2 3 22 - 15 +7 20
3.    ÍBV 11 5 4 2 23 - 13 +10 19
4.    Grindavík 10 4 4 2 18 - 14 +4 16
5.    ÍR 11 4 4 3 16 - 17 -1 16
6.    Afturelding 11 4 2 5 16 - 22 -6 14
7.    Þór 10 3 4 3 16 - 16 0 13
8.    Þróttur R. 11 3 3 5 18 - 17 +1 12
9.    Keflavík 11 2 6 3 14 - 13 +1 12
10.    Leiknir R. 11 4 0 7 13 - 19 -6 12
11.    Grótta 11 2 4 5 17 - 26 -9 10
12.    Dalvík/Reynir 11 1 4 6 12 - 22 -10 7
Athugasemdir
banner
banner