Juve reynir að fá Sancho - Man Utd og Arsenal keppa um Brobbey - Man City vill Gordon
   fös 05. júlí 2024 18:42
Brynjar Ingi Erluson
EM: Spánverjar í undanúrslit eftir framlengdan leik
Mikel Merino fagnar sigurmarkinu á 119. mínútu
Mikel Merino fagnar sigurmarkinu á 119. mínútu
Mynd: EPA
Florian Wirtz kom Þjóðverjum í framlengingu
Florian Wirtz kom Þjóðverjum í framlengingu
Mynd: EPA
Dani Olmo og Lamine Yamal bjuggu til fyrra mark Spánverja
Dani Olmo og Lamine Yamal bjuggu til fyrra mark Spánverja
Mynd: EPA
Toni Kroos spilaði sinn síðasta leik á ferlinum
Toni Kroos spilaði sinn síðasta leik á ferlinum
Mynd: EPA
Spánn 2 - 1 Þýskaland
1-0 Dani Olmo ('51 )
1-1 Florian Wirtz ('89 )
2-1 Mikel Merino ('119 )
Rautt spjald: Daniel Carvajal, Spánn ('120)

Spænska landsliðið er komið í undanúrslit Evrópumótsins í Þýskalandi eftir að hafa unnið gestgjafana, 2-1, eftir framlengdan leik á MHP-leikvanginum í Stuttgart í dag.

Spánverjar urðu fyrir áfalli strax á 4. mínútu leiksins er Toni Kroos braut á Pedri. Miðjumaðurinn meiddist á hné og þurfti að fara af velli en meiðslin eru af þeim toga að hann hefur formlega lokið þátttöku sinni á mótinu.

Kai Havertz kom sér tvisvar í góða stöðu til að skora en Unai Simon var vel á verði í markinu. Dani Olmo átti þá fínasta skot sem Manuel Neuer varði undir lok hálfleiksins.

Markalaust í hálfleik. Stál í stál og taugarnar aðeins að segja til sína, en í þeim síðari fóru Spánverjar að ógna meira.

Lamine Yamal lagði upp dauðafæri fyrir Alvaro Morata á 47. mínútu. Nico Williams átti skiptingu yfir á Yamal, sem sendi hann á MOrata en skot hans yfir markið um meter frá markinu.

Fyrsta mark Spánverja kom fjórum mínútum síðar. Yamal fékk boltann hægra megin, beið eftir hlaupi Olmo sem var dauðafrír. Kroos var að elta hann en sleppti honum og þá fór Robert Andrich alltof djúpt sem varð til þess að Olmo fékk boltann við teiginn og setti hann í vinstra hornið. Þriðja stoðsending Yamal á mótinu.

Þegar um tuttugu mínútur voru eftir fékk Andrich tækifæri til að jafna metin en Simon vandanum vaxinn í markinu. Virkilega góður leikur hjá Spánverjanum.

Á 77. mínútu var Niclas Füllkrug hársbreidd frá því að jafna metin. Florian Wirtz fékk boltann hægra megin við teiginn eftir hraða sókn. Hann kom honum fyrir á Füllkrug sem virtist renna til eftir smá peysutog en náði skotinu sem hafnaði í stöng. Óheppinn að skora ekki þarna.

Þjóðverjar reyndu og reyndu á lokamínútunum. Thomas Müller kom inn fyrir varnarmanninn Jonathan Tah til að fjölga möguleikum í sókninni.

Havertz fékk dauðafæri eftir hræðilegt útspark Simon. Havertz fékk boltann og lyfti boltanum yfir Simon sem stóð framarlega, en boltinn yfir markið. Havertz átti að gera miklu betur í góðri stöðu eins og þessari.

Eftir látlausar tilraunir Þjóðverja kom jöfnunarmarkið. Maximilian Mittelstädt átti fyrirgjöfina á fjær þar sem Joshua Kimmich reist hæsta allra. Skalli hans fór niður í grasið og á Florian Wirtz sem skaut boltanum framhjá varnarmönnum Spánar, í stöng og inn.

Í uppbótartíma vildu Spánverjar fá aukaspyrnu á stórhættulegum stað eftir að Kroos braut nokkuð örugglega á Mikel Oyarzabal en Anthony Taylor, dómari leiksins, sá ekkert athugavert við þetta atvik. Kroos komst upp með ansi margt í leiknum. Hann fékk ekki spjald fyrir brotið á Pedri snemma leiks en var síðan á gulu þegar hann fór aftan í Oyarzabal.

Stuttu síðar var flautað til loka venjulegs leiktíma. Framlenging var það, en Luis de la Fuente, þjálfari Spánverja, hefur eflaust nagað sig í handarbökin að hafa tekið bæði Willams og Yamal út af snemma, enda tveir af bestu leikmönnum liðsins á mótinu.

Spánverjar náðu ágætis stjórn á fyrri hluta framlengingar en voru ekki að skapa sér neitt af viti. Mikel Oyarzabal átti fínustu tilraun rétt framhjá markinu undir lok fyrri hálfleiksins og þá átti Wirtz möguleika á að koma Þjóðverjum yfir á 105. mínútu en skotið rétt framhjá stönginni. Frábær tilraun hjá Wirtz.

Strax í byrjun síðari hálfleiks framlengingar vildu Þjóðverjar fá vítaspyrnu er boltanum var hamrað í höndina á Marc Cucurella en ekkert dæmt. Umdeildur dómur en erfitt að segja að höndin hafi verið alveg upp við síðu Cucurella.

Undir lok framlengingar kom sigurmarkið. Mikel Merino var óvænt hetja Spánverja. Olmo átti fyrirgjöf á nærsvæðið á einn og óvaldaðan Merino sem stangði boltann í netið.

Ferran Torres gat gulltryggt sigurinn er hann slapp einn í gegn hægra megin, en skot hans arfaslakt. Füllkrug fékk sömuleiðis dauðafæri til að jafna leikinn og koma Þjóðverjum í vítakeppni en skalli hans rétt framhjá markinu.

Seint í uppbótartíma fékk Dani Carvajal að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að rífa Jamal Musiala niður sem var að fara keyra upp vænginn. Hann vissi það svosem sjálfur að þetta væri rautt spjald, en Carvajal greip um háls Musiala til að taka hann niður.

Spánverjar héldu út og eru komnir áfram í undanúrslit þar sem þeir mæta Frakklandi eða Portúgal. Gestgjafar Þýskalands kveðja mótið.
Athugasemdir
banner
banner
banner