Joshua Zirkzee, VIctor Osimhen, Riccardo Calafiori, Conor Gallagher, Florian Wirtz og fleiri koma við sögu
   fös 05. júlí 2024 09:30
Elvar Geir Magnússon
Undrabörn í sviðsljósinu í fyrsta leik 8-liða úrslitanna
Lamine Yamal og Jamal Musiala.
Lamine Yamal og Jamal Musiala.
Mynd: Getty Images
Yamal stígur TikTok dans með Nico Williams.
Yamal stígur TikTok dans með Nico Williams.
Mynd: Getty Images
Jamal Musiala fagnar marki.
Jamal Musiala fagnar marki.
Mynd: EPA
Annar þeirra tók heimalærdóminn með sér á Evrópumótið og hinn er nýfluttur að heiman frá mömmu. Ungstirnin Lamine Yamal, 16 ára, og Jamal Musiala, 21 árs, verða í sviðsljósinu í fyrsta leik 8-liða úrslita Evrópumótsins í dag þegar Spánn mætir Þýskalandi.

Samanlagður aldur þeirra er 37 ár og því lægri en aldur þeirra elstu liðsfélaga; Jesus Navas og Manuel Neuer eru báðir 38 ára.

Yamal er á sínu fyrsta stórmóti og býr yfir ótrúlegum hæfileikum. Musiala er á þriðja stórmóti sínu. Hann hefur verið kallaður 'Bambi' vegna fótavinnu sinnar en hann segist vera búinn að vaxa upp úr því gælunafni því hann hafi svo margt annað í vopnabúri sínu.

Tveir stórskemmtilegir leikmenn sem gaman verður að fylgjast með í leiknum í dag.

TikTok dansar og leikir
Yamal var sjö ára gamall þegar hann fór í hina heimsfrægu La Masia akademíu Barcelona. Xavi, sem gaf honum sitt fyrsta tækifæri með aðalliðinu, sagði að hann minnti sig á sjálfan Lionel Messi. Sjálfur hefur Messi sagt ótrúlegt hversu vel Yamal og boltinn ná saman.

Leikgleðin skín af táningnum og skemmtilegt að sjá hann og Nico Williams fagna marki gegn Georgíu með TikTok dansi. Eftir leikinn fóru þeir tveir svo í 'Steinn, skæri, blað' um hvor þeirra myndi fá fyrst að drekka úr vatnsbrúsa.

Yamal hefur ekki skorað á Evrópumótinu en sýnt mögnuð tilþrif og er með tvær stoðsendingar fyrir Spánverja. Hann er að spila á stærsta sviðinu en spilar samt fótbolta eins og hann sé með vinum sínum úti á skólavelli.

Algjört brjálæði
Musiala opnaði markareikning sinn á mótinu strax í opnunarleiknum og er með þrjú mörk í fjórum leikjum fyrir Þýskaland. Þessi magnaði ungi leikmaður fer fögrum orðum um keppinaut sinn í dag, Lamine Yamal.

„Það er algjört brjálæði að vera að spila svona þegar þú ert sextán ára gamall. Þegar ég var sextán ára bjó ég ekki yfir líkamsburðum til að æfa með atvinnumönnum," segir Musiala.

Julian Nagelsmann landsliðsþjálfari Þýskalands segir það stórskemmtilegt að horfa á Yamal spila leikinn. Hann vill þó frekar einbeita sér að sínum manni.

„Einbeiting mín er meiri á Jamal en Yamal. Við erum sjálfir með nóg af gæðum í okkar liði," segir Nagelsmann en við fótboltaunnendur getum látið okkur hlakka til að sjá þessa leikmenn í dag, leikmenn sem munu láta ljós sitt skína enn frekar á næstu árum.
Athugasemdir
banner
banner
banner