PSG leiðir kapphlaupið um Salah - Tuchel á blaði Man Utd - Newcastle líklegt til að reyna aftur við Guehi
banner
   lau 06. júlí 2024 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Copa America: Kanada áfram eftir stórkostlega skemmtun
Mynd: EPA
Salomon Rondon skoraði geggjað mark
Salomon Rondon skoraði geggjað mark
Mynd: EPA
Venesúela 1 - 1 Kanada (3-4 eftir vítakeppni)
0-1 Jacob Shaffelburg ('13 )
1-1 Salomon Rondon ('65 )

Kanada, ein af gestaþjóðum Copa America, er komið áfram í undanúrslit mótsins eftir að hafa unnið Venesúela í vítakeppni, 4-3, á AT&T leikvanginum í Arlington í Texas-ríki í Bandaríkjunum í nótt.

Leikurinn var hin mesta skemmtun og líklega sá skemmtilegasti á mótinu til þessa.

Jacob Shaffelburg kom Kanada yfir á 13. mínútu með góðu skoti úr teignum eftir sendingu frá Jonathan David. Hann náði rétt að koma sér fram fyrir varnarmann og pota boltanum í nærhornið.

Kanada-menn voru betri aðilinn í fyrri hálfleik og hefðu getað skorað fleiri. Það getur verið hættulegt að nýta ekki færin því í síðari hálfleik komu Venesúela-menn til baka.

Salomon Rondon skoraði frábært mark af 40 metra færi. Kanada átti innkast sem var hreinsað fram völlinn. Markvörður Kanada stóð allt of framarlega og nýtti Rondon sér það með því að lyfta boltanum yfir hann og í netið.

Kanadíska liðið reyndi eins og það gat að finna sigurmark en markvörður Venesúela varði allt og þá fór Shaffelburg illa með dauðafæri.

Framlenging er ekki í Copa America og var því farið beint í vítakeppni en þar var Maxime Crepeau, markvörður Kanada, í banastuði og varði tvær spyrnur. Ismael Kone skoraði úr sigurvítinu í bráðabana og Kanada áfram í undanúrslit.

Kanada mætir Argentínu sem verður spennandi viðureign en þessar þjóðir áttust við í fyrstu umferðinni í riðlakeppni mótsins þar sem Argentína vann 2-0.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner