PSG leiðir kapphlaupið um Salah - Tuchel á blaði Man Utd - Newcastle líklegt til að reyna aftur við Guehi
banner
   lau 06. júlí 2024 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Minn maður Trent þarf að fá sínar mínútur"
Trent Alexander-Arnold.
Trent Alexander-Arnold.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
England mætir Sviss í dag.
England mætir Sviss í dag.
Mynd: EPA
Byrjaði fyrstu tvo leikina inn á miðjunni.
Byrjaði fyrstu tvo leikina inn á miðjunni.
Mynd: Getty Images
„Þetta er svo skrítið. Þeir eru með svo geggjaðan hóp en það er eins og þeir passi bara ekki saman," sagði Kristín Dís Árnadóttir, leikmaður Bröndby og íslenska landsliðsins, í EM hringborðinu í vikunni þegar rætt var um enska landsliðið.

England mætir Sviss í átta-liða úrslitunum á EM í dag en frammistaða enska liðsins hefur alls ekki verið góð á mótinu. Þeir voru nokkrum sekúndum frá því að falla úr leik gegn Slóvakíu í 16-liða úrslitunum.

Orkan í liðinu hefur verið skrítin og mikill þungleiki yfir öllu einhvern veginn.

„Þetta eru eins og LEGO-kallar þarna inn á, það er engin kemistría á milli þeirra. Orkan er eitthvað slæm. Það er eins og Southgate sé hræddur að gera breytingar og skiptingar. Hann er endalaust á handbremsunni," sagði Ásta Eir Árnadóttir í þættinum.

Það er talið að Gareth Southgate, þjálfari Englands, muni gera breytingar á kerfinu fyrir leikinn í dag. Hann fari í þriggja manna vörn með vængbakverði. Enskir miðlar segja frá því að Bukayo Saka verði í vinstri vængbakverði og annað hvort Kieran Trippier eða Trent Alexander-Arnold verði hægra megin. Samkvæmt nýjustu fréttum mun Trippier byrja.

„Southgate þarf að þora að rótera betur. Minn maður Trent þarf að fá sínar mínútur," sagði Ásta og bætti við: „Hann er skapandi og þorir að gera eitthvað."

Alexander-Arnold var í byrjunarliði Englands í fyrstu tveimur leikjum mótsins en var þá einn af þremur miðjumönnum. Hann er vanur því að spila í hægri bakverði hjá Liverpool og koma inn á miðjunni úr þeirri stöðu; það er hlutverk sem hann þekkir betur.

Systurnar eru ekki þær einu sem eru að kalla eftir því að Liverpool-maðurinn komi aftur inn í liðið. John Cross, yfirmaður fótboltaskrifa hjá The Mirror, vill sjá Alexander-Arnold snúa aftur í vængbakverðinum.

„Þegar var fyrst var talað um breytingu á leikkerfi, þá hugsaði ég að það væri frábært tækifæri til að koma Trent aftur á völlinn og fá það besta frá honum. Hann er besti sendingarmaðurinn og með bestu fyrirgjafirnar í hópnum," segir blaðamaðurinn virti.

Leikur Englands og Sviss í dag hefst klukkan 16:00.
EM hringborðið - Systurnar fara yfir 16-liða úrslitin
Athugasemdir
banner
banner