PSG leiðir kapphlaupið um Salah - Tuchel á blaði Man Utd - Newcastle líklegt til að reyna aftur við Guehi
banner
   lau 06. júlí 2024 09:40
Brynjar Ingi Erluson
Gæti mætt Frimpong og Olise á næstu leiktíð
Kolbeinn Birgir Finnsson gæti fært sig um set í sumar
Kolbeinn Birgir Finnsson gæti fært sig um set í sumar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmaðurinn Kolbeinn Birgir Finnsson er orðaður við nýliða þýsku deildarinnar, Holsten Kiel, á danska miðlinum Tipsbladet.

Danska liðið Lyngby datt í lukkupottinn er það fékk Kolbein frá Borussia Dortmund fyrir einu og hálfu ári síðan.

Fylkismaðurinn hefur átt fast sæti í byrjunarliðinu og verið með mest spennandi bakvörðum úrvalsdeildarinnar.

Kolbeinn á aðeins ár eftir af samningi sínum og er því mikil umræða um framtíð hans, en samkvæmt Tipsbladet er Holsten Kiel áhugasamt.

Holsten Kiel vann sér sæti í efstu deild Þýskalands fyrir komandi leiktíð og er í leit að vinstri bakverði, en félagið hefur þó ekki opnað viðræður við Lyngby.

Það væri áhugavert að sjá Kolbein spreyta sig á móti leikmönnum á borð við Jeremie Frimpong og Michael Olise á næstu leiktíð, en Frimpong spilar með Bayer Leverkusen á meðan Olise er að ganga í raðir Bayern München frá Crystal Palace.

Framherjinn Hólmbert Aron Friðjónsson var á mála hjá Holsten en yfirgaf félagið á dögunum eftir að samningur hans rann út.

Freyr Alexandersson, sem þjálfaði Kolbein hjá Lyngby, reyndi að fá hann til belgíska félagsins Kortrijk fyrir um hálfu ári síðan en Lyngby hafnaði tilboðinu.

Talið er að Kortrijk muni reyna aftur við Kolbein í sumar og þá hafa félög í ensku B-deildinni einnig sýnt honum áhuga.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner