Juve reynir að fá Sancho - Man Utd og Arsenal keppa um Brobbey - Man City vill Gordon
   fös 05. júlí 2024 13:46
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sigdís Eva fer til Norrköping (Staðfest)
Sigdís Eva Bárðardóttir.
Sigdís Eva Bárðardóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ein efnilegasta fótboltakona landsins, Sigdís Eva Bárðardóttir, er farin til Norrköping í Svíþjóð.

Víkingur sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem fram kemur að félagið hafi samþykkt tilboð frá Norrköping í Sigdísi og muni hún ganga til liðs við félagið á næstu dögum.

„Sigdís er uppalinn Víkingur og kemur upp úr unglingastarfinu hér í Hamingjunni. Hún er mikil fyrirmynd fyrir iðkendur innan sem utan vallar og kveðjum við Sigdísi með miklum söknuði en óskum henni á sama tíma velfarnaðar á nýjum vettvangi," segir í tilkynningu Víkings.

Fótbolti.net sagði fyrst frá því í gær að Víkingur hefði samþykkt tilboð Norrköping í Sigdísi.

Sigdís verður átján ára í desember. Hún hefur verið algjör lykilmaður í liði Víkings og á að baki 31 leiki fyrir unglingalandsliðin. Í þeim hefur hún skorað fjögur mörk. Hún á þá að baki tvo leiki fyrir U23 landsliðið.

Sigdís hefur skorað þrjú mörk í Bestu deildinni í sumar og skoraði átta mörk í deildinni og átta mörk í bikarnum í fyrra þegar Víkingur vann Lengjudeildina og Mjólkurbikarinn.

Norrköping er í áttunda sæti sænsku deildarinnar, með 17 stig eftir 12 leiki en án sigurs í síðustu fjórum leikjum. Landsliðskonan Diljá Ýr Zomers lék með liðinu á þar síðasta tímabili og hjálpaði því að komast upp úr næstefstu deild.

Hér fyrir neðan má sjá kveðjumyndband sem Víkingur gerði fyrir Sigdísi.


Athugasemdir
banner
banner
banner