Endurkoma á Trafford? - Liverpool vill Eze - Pogba til Bandaríkjanna - Duran til Madríd?
banner
   sun 07. júlí 2024 08:00
Brynjar Ingi Erluson
Gagnrýnir háralit Andrich - „Kannski líður honum eins og konu“
Mynd: EPA
Fyrrum markvörðurinn Jens Lehmann gagnrýndi uppátæki þýska miðjumannsins Robert Andrich í leik Þjóðverja gegn Spánverjum í 8-liða úrslitum Evrópumótsins á dögunum.

Lehmann, sem lék árum áður með Arsenal og þýska landsliðinu, furðaði sig á hárlit Andrich í leiknum.

Andrich hafði litað hár sitt bleikt en hann er alls ekki sá fyrsti sem tekur upp á þessu. Antoine Griezmann gerði það á síðasta ári og þá muna eflaust einhverjir eftir Taribo West, sem lék með Mílanó-liðunum og nígeríska landsliðinu, en hann skartaði oft grænu hári í leikjum sínum og með tíkógreiðslu.

„Þessa dagana verður maður að fara varlega. Í dag líður honum kannski eins og konu. Maður verður að vera umburðarlyndur. Fyrst var það ljóst hár og nú er það bleikt. Er eitthvað að persónuleika hans, eitthvað sem lætur hann standa upp úr eins og þarna? Ég held að UEFA muni banna þessa hárliti,“ sagði Lehmann í þýska sjónvarpinu.

Í fyrri leikjum mótsins hafði Andrich verið með ljóst hár. Hann hefur ekki útskýrt ástæðuna fyrir háralitnum nema það að þetta hafi fært honum lukku til þessa. Það gerði það ekki í leiknum gegn Spánverjum þar sem liðið tapaði, 2-1, og er úr leik.
Athugasemdir
banner