Endurkoma á Trafford? - Liverpool vill Eze - Pogba til Bandaríkjanna - Duran til Madríd?
   sun 07. júlí 2024 23:20
Brynjar Ingi Erluson
Gummi Tóta sagður á leið til Armeníu
Gummi Tóta er á leið í armensku deildina
Gummi Tóta er á leið í armensku deildina
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmaðurinn Guðmundur Þórarinsson er að semja við Noah FC í Armeníu en þetta kemur fram í armenskum miðlum og er búist við að hann verði kynntur þar á næstu dögum.

Selfyssingurinn er án félags eftir að samningur hans við OFI Crete rann út um síðustu mánaðarmót.

Guðmundur, sem er 32 ára gamall, hefur átt ævinýralegan feril til þessa.

Árið 2013 hóf hann atvinnumannaferil sinn er hann gekk í raðir norska félagsins Sarpsborg frá ÍBV.

Þaðan fór hann til Nordsjælland í Danmörku þar sem hann lék tvö tímabil áður en hann hélt aftur til Noregs og samdi við Rosenborg.

Einnig hefur hann spilað fyrir Norrköping, New York City og Álaborg á ferlinum, en samkvæmt armenskum miðlum er hann að ganga frá samningum við Noah FC sem leikur í efstu deild þar í landi.

Liðið hafnaði í 2. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og vann sér þannig inn þátttökurétt í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu, en það ævintýri hefst á miðvikudag.

Félagið bindur vonir við að geta kynnt félagaskipti Guðmundar á næstu dögum.

Noah var sett á laggirnar árið 2017 þá undir nafninu FC Artsakh, en það hóf göngu sína í B-deildinni í Armeníu. Það komst upp í úrvalsdeild í fyrstu tilraun en var síðar selt armenska viðskiptamanninum Karen Abrahamyan sem breytti nafni félagsins í Noah FC.

Tímabilið 2019-2020 vann félagið armenska bikarinn. Fyrsti og eini titillnn frá því félagið var stofnað.
Athugasemdir
banner
banner
banner