Endurkoma á Trafford? - Liverpool vill Eze - Pogba til Bandaríkjanna - Duran til Madríd?
   sun 07. júlí 2024 19:58
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Blikar endurheimtu toppsætið
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvö fyrir Blika
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvö fyrir Blika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH 0 - 4 Breiðablik
0-1 Birta Georgsdóttir ('35 )
0-2 Karitas Tómasdóttir ('50 )
0-3 Katrín Ásbjörnsdóttir ('64 , víti)
0-4 Katrín Ásbjörnsdóttir ('92 )
Lestu um leikinn

Breiðablik er komið aftur í efsta sæti Bestu deildar kvenna eftir að hafa unnið þægilegan 4-0 sigur á FH í Kaplakrika í dag.

Valskonur höfðu tímabundið tekið toppsætið eftir sigur liðsins á Víking í Víkinni og var því komið að Blikum að svara í titilbaráttunni og það gerðu þær með stæl.

Færin voru fá fyrsta hálftíma leiksins en þegar rúmur hálftími var liðinn kom Birta Georgsdóttir gestunum yfir. Aldís Guðlaugsdóttir, markvörður FH, hékk of lengi á boltanum og náði Katrín Ásbjörnsdóttir að komast inn í sendingu. Boltinn fór þaðan á Birtu sem skoraði.

Heiða Ragney Viðarsdóttir komst nálægt því að bæta við öðru undir lok hálfleiksins en Aldís varði skalla hennar frábærlega eftir hornspyrnu.

Blikar héldu áfram að nýta sér vandræðagang FH-ingar í þeim síðari. Elín Helena Karlsdóttir átti langan bolta inn í teig FH sem Arna Eiríksdóttir reyndi að skalla frá. Boltinn fór af Birnu Kristínu Björnsdóttur og á Karitas Tómasdóttur sem skoraði annað mark Blika.

Þegar tæpur hálftími var eftir fengu Blikar vítaspyrnu er Birta var tekin niður í teignum. Katrín Ásbjörns fór á punktinn og setti hann af öryggi niðri í hægra hornið.

Katrín gulltryggði sigur Blika með öðru marki sínu í leiknum undir lok leiksins er hún fékk boltann við vítapunktinn og kláraði vel í netið.

Öruggur 4-0 sigur Blika sem eru aftur komnar á toppinn með 33 stig, eins og Valur, en með betri markatölu. FH er í 4. sæti með 19 stig.
Besta-deild kvenna
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Valur 18 16 1 1 48 - 16 +32 49
2.    Breiðablik 18 16 0 2 46 - 9 +37 48
3.    Þór/KA 18 9 3 6 40 - 28 +12 30
4.    Víkingur R. 18 8 5 5 28 - 29 -1 29
5.    FH 18 8 1 9 30 - 36 -6 25
6.    Þróttur R. 18 7 2 9 23 - 27 -4 23
7.    Stjarnan 18 6 3 9 22 - 34 -12 21
8.    Tindastóll 18 3 4 11 20 - 41 -21 13
9.    Fylkir 18 2 4 12 17 - 34 -17 10
10.    Keflavík 18 3 1 14 16 - 36 -20 10
Athugasemdir
banner
banner
banner