Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   mið 15. mars 2023 11:07
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Andri Steinn þjálfar Þrótt Vogum með Binna Gests (Staðfest)
Andri Steinn Birgisson.
Andri Steinn Birgisson.
Mynd: Þróttur Vogum
Þróttur Vogum hefur samið við Andra Stein Birgisson um að koma inn í þjálfarateymi liðsins. Andri verður annar af tveimur aðalþjálfurum liðsins, fyrir er Brynjar Þór Gestsson sem stýrði liðinu síðustu sextán leikina í fyrra. Hreinn Ingi Örnólfsson er svo spilandi aðstoðarþjálfari.

Andri Steinn þekkir hvern krók og kima í Vogunum því þar fékk hann sitt fyrsta tækifæri sem aðalþjálfari, stýrði liðinu tímabilið 2015 og hluta af tímabilinu 2016. Í kjölfarið þjálfaði hann Hvíta riddarann, var aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Val og var með Davíð Smára Lamude í þjálfarateymi hjá Kórdrengjum.

Á sínum ferli lék hann fjölda leikja í efstu deild, lék með Fram, Grindavík, Keflavík, Leikni, Haukum og Fjölni á sínum ferli, leikirnir í efstu deild urðu alls 91 og mörkin sjö. Þá lék hann á sínum tíma tvo U19 landsleiki.

„Ég þekki auðvitað vel til hjá Þrótti og þetta var auðveld ákvörðun að taka þegar Binni hafði samband. Þarna hóf ég minn þjálfaraferil á sínum tíma og leið ákaflega vel. Við stefnum á toppbaráttu, mikilvægasta vinnan verður að byggja upp gott lið fær að vaxa og dafna saman til næstu ára. Þróttur Vogum skiptir miklu máli fyrir samfélagið í Vogum og við þurfum að fá bæjarbúa með okkur í verkefnið. Við ætlum okkur að standa okkur fyrir Voga,“ sagði Andri Steinn um nýja starfið.

„Þetta er gríðarlegur styrkur fyrir félagið. Hann þekkir vel til hjá okkur og hefur verið í góðu sambandi alla tíð frá því hann þjálfaði liðið. Andri hefur verið stór partur í árangri Kórdrengja síðustu ár," sagði Marteinn Ægisson framkvæmdastjóri Þróttar.

Þróttur Vogum verður í 2. deild í sumar, liðið er talsvert breytt frá því í fyrra þegar liðið lék í Lengjudeildinni. Sóttir hafa verið íslenskir leikmenn með reynslu úr deildunum fyrir ofan og voru samningar við erlenda leikmenn félagsins slitið. Liðið ætlar að styrkja sig enn frekar fyrir mót.
Athugasemdir
banner